
náði næstum í skottið á bjartsýninni í dag... en bara næstum... gengur kannski betur á morgun... bíddu myndi þetta ekki flokkast undir bjartsýni
hlustaði á fallegan fyrirlestur í dag hjá manni sem sagði mér að ég væri ævintýrið, hann virtist trúa því svo algjörlega að ég trúði því næstum því, allir hinir héldu að hann væri fullur, í kjölfarið þurfti ég svo að skrifa niður eitthvað fallegt um sjálfa mig, nú er maður kannski ekki alveg rétt stemmdur þessa dagana fyrir jafn hégómlega hluti og opinbert sjálfshól, hugsaði því í mig höfuðverk en ætlaði aldrei að detta nokkur skapaður hlutur í hug, hripaði loks niður að ég væri svona dáldið fyndin eða eitthvað, þó aðallega af því ég var að brenna inná tíma og það hefði verið svo asnalegt að skrifa ekki neitt, leið eins og fífli og sú tilfinning ágerðist allhressilega þegar ég var neidd til að tala stöðugt um sjálfa mig í tvær mínútur fyrir framan nokkrar bláókunnugar manneskjur, botninn tók svo gjörsamlega úr þegar ég þurfti að hlusta á þetta sama fólk hrósa mér í aðrar tvær mínútur, martraðarkennd upplifun alveg hreint, varð alveg að gnísta úr mér jaxlana til þess að benda þessu ágæta fólki ekki á að nei þetta væri nú ekki alveg rétt skilið hjá því, eitthvað væri fólk nú ekki að sensa hlutina rétt, voðalegt hvað sumir eru litlir mannþekkjarar og lítið næmir á fólk þó þeir sitji svo nálægt manni að svitablettirnir undir höndunum hafi ekki með nokkru móti getað farið framhjá þeim, hef samt ákveðið að senda þeim ekki email til að leiðrétta allar þessar furðulegu rangfærslur sem þau fóru með, þau hafi greinilega verið með allt aðra konu í huga eða eitthvað þess háttar, þetta sé allt saman einhver undarlegur misskilningur, já einmitt þarna kom það, misskilningur