laugardagur, 27. desember 2008

þriðji í jólum og tuttugastiogsjöundi í ofáti, desember er hryllilegur mánuður, hvílíkar misþyrmingar á meltingarveginum, mætti í ræktina í morgun og velti því lengi fyrir mér hvaða feita kona þetta væri í speglinum, hét sjálfri mér því að borða ekkert nema ávexti og próteindrykki í dag, einhverra hluta vegna er nú samt stærðar hrúga af machintoshbréfum við hliðina á mér, ég er ein heima og hundurinn hefur ekki fyrir því að fjarlægja umbúðir utan af því sem hann að jafnaði gleypir í heilu lagi svo að öllum líkindum hef ég étið þetta allt ein (þó það ætti að vera handan mannlegrar getu), svona rétt til að æra óstöðugan heldur elskuleg móðir mín á morgun sitt árlega fabulous turkeyparty, til að gera vont verra ætlar hún að bjóða uppá tartalettur með hangikjöti í forrétt, ég er brjáluð í tartalettur með hangkjöti, djöfuls djöfull (ó afsakið þetta var mjög óviðeigandi), vill einhver gefa sig fram og leiða þetta jólalamb til slátrunar!!! allavega þá sé ég fram á að þurfa annað hvort að leggjast inná heilsuhælið í hveragerði með saltvatn í æð eða komast í ristilhreinsun hjá jónínu ben strax eftir áramót ef ég ætla ekki að eiga á hættu að eiginmaðurinn geri alvöru úr því að hlaupast á brott með monicu bellucci, verði honum af því, eins og konur séu eitthvað merkilegar þó þær fitni hvergi nema á brjóstunum, nei nei ég hef engar áhyggjur af þessu enda er viggo mortensen búin að vera í sjónvarpinu þrjú kvöld í röð og ég ekki alveg til viðtals, úúúú nú er hann að slást...hinkriði aðeins

fimmtudagur, 25. desember 2008

allir fá þá eitthvað fallegt...og fallegt var það
kæru lesendur til sjávar og sveita, mínar innilegustu jólakveðjur, megi nóttin hjúpa ykkur í ljúfa drauma, kyrrð og kærleika

þriðjudagur, 23. desember 2008

yndislegt að geta sleppt fram af sér beislinu og fengið útrás fyrir glysgirnina á jólatrénu án þess að eiga á hættu að fólk fari að tala um það sín á milli að maður sé nú ekki alveg réttu megin við mörk andlegs heilbrigðis, glysgirni mín er eitthvað sem fer langt fram úr öllu því sem góðu hófi gegnir þó að dags daglega reyni ég að hemja hana eins og mér er frekast unnt, það væru því hvorki ýkjur né hlutdrægni að segja að ég eigi heimsins fegursta jólatré, fjölskyldan lagðist á eitt við að skreyta en ég held að glimmergullspreyið hafi gert gæfumuninn, fátt er nú eins vel til þess fallið að æra uppí manni jólagleðina og að missa sig með stóran úðabrúsa af glimmeri, ég myndi hreinlega ganga svo langt að segja að það sé beint orsakasamband á milli styrks hátíðarskapsins og magns af glimmeri í manns nánasta umhverfi, best að fá sér aukaskammt til öryggis og hækka í silfukórnum "...það er svo dýrt að halda þessi jól...", ég á nákvæmlega 483 krónur í buddunni minni, ég ætla að biðja jólasveininn um að gefa mér bill gates í skóinn í nótt!!!

eiginmaðurinn hnykkir svo á hátíðarstemmunni með því að skella eðalmyndinni transformers í, ég bíð enn eftir að einhver transformist í engil eða jesúbarn en ég er farin að óttast að þetta sé ekki svoleiðis mynd

sunnudagur, 21. desember 2008

eftir að hafa þrammað það sem jafngildir góðum spinningtíma upp og niður laugarveginn (guð blessi laugarveginn, megi kringlan brenna í helvíti) fann ég loksins nokkuð ásættanlega gjöf handa elskhuganum, og það þrátt fyrir verulegan skort á lausafé og alls, alls ekkert vísakort (ef það er einhver skynsemi í veröldinni fæ ég það aldrei í hendurnar aftur), rann nokkuð blint í sjóinn með valinu enda er nú ekki heimtufrekjunni fyrir að fara hjá þessari elsku, "hvað viltu í jólagjöf ástin?...öööö ég veit ekki... ja bara gott sex...", já ástin mín hefur einfaldan smekk og maður segir nottlega bara skal gert, má bjóða það fyrir eða eftir mat?... held það væri betra fyrir mat þar sem mikil hreyfing oní jólablandsdrykkju og svínakjötsát gæti skilað sér í ógleði og hlaupasting...og ekki viljum við taka á móti jesúbarninu illa upplögð með meltingatruflanir og brjóstsviða,  hjálpi mér nei!!! 

þriðjudagur, 16. desember 2008


eftir að hafa gengið um sífrandi og volandi frá því á föstudag fékk ég loksins í skóinn í morgun, var búin að droppa risahintum í tíma og ótíma og brúka öll nærbuxnatrixin í bókinni en ekkert gekk, skringilega sanslaus þessi jólasveinn, skiljanlega var ég orðin nærri úrkula vonar og komin á fremsta hlunn með að taka þetta mjög persónulega, krían deildi gleði minni af heilum hug og átti ekki orð yfir ruglinu í mér þegar ég spurði hvort henni fyndist ekki líklegast að pabbi hefði stungið ofvaxna machintoshmolanum í skóinn minn, skottan mín útskýrði fyrir mér af innblásnum sannfæringarkrafti að jólasveinninn mismunaði ekki skóm eftir gerð eða stærð og að fagurgrænu hælaskórnir mínir númer 38 ættu alveg sama rétt og aðrir skór í gluggum út um allt land, auk þess væri þetta algjörlega fráleitt að pabbar settu í skóinn, barnið hafði aldrei heyrt aðra eins þvælu!!! í skammdegismyrkrinu skelltum við mæðgur okkur svo á rassaþotu og dáðumst að jólaljósunum, sem betur fer er bróðurparturinn af nágrönnunum sérlega smekklegur og heldur blikkseríum sem valda flogaköstum og sjóntruflunum í lágmarki, þoli ekki þetta christmas in vegas þema sem ótrúlegasta fólki fannst smartasta smart í fyrra, jólaskraut sem hagar sér eins og það sé lifandi gerir mig taugaveiklaða, finnst ég alveg þurfa að setja á mig hlífðargleraugu og hjálm 

þessi jól verða í minnum höfð um ókomna tíð sem fyrstu vísalausu jólin mín (allir lesa þessa línu aftur til að vera vissir um að þeir hafi skilið þetta rétt), jólagjafakaupin búin nema hvað ég er alveg andlaus þegar það kemur að gjöf handa elskunni minni, hvað gefur maður þeim sem langar ekki í neitt, hvernig er hægt að langa ekki í neitt...nema maður sé dalai lama, sem ég get staðhæft um að eiginmaður minn er ekki!!! 


ást er að hlusta á hvort annað, mjááááá

miðvikudagur, 10. desember 2008


ósmekklegi maðurinn í næstu götu er búinn að setja upp í garðinum hjá sér húsasmiðjuleikmynd að helgileiknum sem stendur fyrir dyrum, uppljómaða í einum hrærigraut má líta alla betlehemfjölskylduna ásamt nánustu vinum og vandamönnum, teymi af jólasveinum auk nauðsynlegra fylgihluta (hreindýr, sleðar osfrv) og einn ljótan snjókall til 

það þarf greinileg mismikið til að koma fólki í jólaskap...við fjölskyldan skárum nú bara út laufabrauð, það sem maður er gamaldags

   

mánudagur, 8. desember 2008

sindrandi snjór, hvítur máni á indígóbláum himni, hárið mitt ilmar af piparkökum og húsið mitt af greni...það mætti halda að það væri von á guðlegum gesti

laugardagur, 6. desember 2008

ég er svo sæt eftir klippinguna að það er beinlínis vandræðalegt, villtist því miður á eftir inní musteri djöfulsins, kringluviðbjóðinn, örmagnaðist algjörlega eftir eina ferð í rúllustiganum og óskaði þess að það kviknaði í mér af óskýrðum orsökum eða einhver félli óvænt á mig af efri hæðinni og kremdi mig til dauða, mun ekki stíga fæti inní það hryllingsbæli okurs og andleysis framar, jólainnkaupin munu fara fram í miðbæ reykjavíkur og ekkert nema íslenskt í mína pakka takk!!! 

föstudagur, 5. desember 2008

hjúkk að ég er að fara í klippingu á morgun, það er alltaf svo hressandi að láta annað fólk þvo manni um hausinn, er búin að leifa mér að vera svo hryllilega sjoppuleg alla vikuna að hvoru tveggja samstarfsfólk og nemendur hafa séð ástæðu til að spyrja hvort ég sé örugglega heil heilsu, er reyndar með andstyggðar hósta en það er samt kannski alveg óþarfi að hætta að greiða sér og þvo sér í framan á morgnana, mæta svo í vinnuna lítandi út eins og langt leiddur berklasjúklingur og hræða líftóruna úr saklausum börnum, þessir morgnar eru bara ekki alveg að gera sig, svaf meira að segja yfir mig í fyrradag, rauk út í ofboði og það var ekkert nema heppni sem sá til þess að ég fór ekki í nærbrækurnar utan yfir og sitt hvoran skóinn, mætti of seint í eigin kennslustund með peysuna alla skakkt hneppta, expressjónískt stórslys á hausnum og hafði ekki fengið kaffidropa, ég hefði ekki viljað vera barn í bekknum mínum þann morgunn!!! restina af deginum var vangefna hliðin mín soldið dóminerandi, þoli ekki vangefnu hliðina mína, hún getur verið svo óþolandi ofvirk og áberandi, um daginn lét hún mig labba út úr skóla dóttur minnar með bláu plasthlífarnar ennþá á skónum, þoooooli ekki þegar það gerist, hóstahelvítið hefur líka meinað mér að iðka mínar daglegu líkamsæfingar, sem væri kannski ekki svo hræðilegt ef það væri ekki desember og ég þessi týpa sem er dæmd til lífstíðar til að battla við það hvimleiða vandamál "ofvöxtur í rassgati", þetta er genetískur galli og baráttan því nánast dauðadæmd, en það er þetta með rjúpuna og staurinn...ég hef nú reyndar aldrei skilið það orðatiltæki...


gemmér glamúr!!! þetta er svo dööööölllll.....

miðvikudagur, 3. desember 2008

loksins, loksins hljómar þetta blogg, ef þessi litli spilari hér til hliðar er ekki það sætasta sem maður hefur séð lengi þá ber maður nú bara ekki kennsl á það sem sætt er, ég get ekki öskrað það nægilega hátt í gegnum þennan skjá að lífið væri ekki neitt án tónlistar, ég held meira að segja stundum að maður þurfi ekki ást ef maður hefur tónlist, tónlist er nebblilega eilíf ást, ég til dæmis elska þetta lag jafn mikið í dag og fyrir tuttugu árum, fallegt fallegt fallegt 

þriðjudagur, 2. desember 2008


ó þú fagri...

afsakið...ekki gætiru hætt að kyrkja mig eitt augnablik og hjálpað mér að rifja upp hvernig beri að fjarlægja aðskotahlut úr hálsi...nei allt í lagi, takk samt en ekki manstu í fljótu bragði hversu lengi heilinn getur verið í súrefnisþurrð án þess að varanlegra skemmda verði vart...já ókei... ekki lengur en svo, heyrðu allt í lagi þá...þú þrýstir kannski soldið fastar á slagæðina í smástund svo þetta gangi hraðar...þetta er flott, takk

mánudagur, 1. desember 2008

eftir langt samtal við dökkhærðu konuna í baðherbergisspeglinum hef ég ákveðið að kyngja vaxandi kvíðabólgunni í hálsinum og treysta því að hún verði að engu í meltingunni, brotin til mergjar af úlfgrimmum magasýrum og næstum líter af kaffi, ég klæði mig í brynjuna, þéttofna ullina og fer með blessunarbæn til handar íslensku sauðkindinni í huganum, hengi krossinn um hálsinn og þakka guði lífið í æðunum og ástina í hjartanu, finn hvað fingurgómarnir eru ískaldir og ná ekki taki á heiminum, smyr brosinu á mig með varasalvanum og bíð eftir að vindurinn ýti mér út götuna í fangið á skrímslinu sem býður í myrkrinu, bíður og urrar, gnýstir tönnum og sleikir útum, jafn óumflýjanlegt og minn eigin andadráttur sem kemst ekki niður í brjóstholið heldur situr fastur rétt fyrir ofan dældina milli bringuspalanna, ég skil sverðið eftir heima, bind upp hárið og legg allt mitt traust á kærleikann og himininn...