sunnudagur, 27. nóvember 2016

fyrsti

ég hjó dánu höfuðin af fúskíableiku liljunni en leyfði þessum tveim sem ekki höfðu opnað sig að standa. það hljómar eins og lygi en er engu að síður sannleikur að ég hafði vart fleygt afskorningunum í lífræna sorpið þegar hin tvö eftirlifandi tóku að rétta úr sér og myndast við að slíta krónblöðin hvert frá öðru. þegar ég kom fram í morgun höfðu þau þanið sig út eins og litfagrir lúðrar í móttökunefnd mér til heiðurs. ég læt þetta ekki stíga mér til höfuðs. alla vega ekkert að ráði. líkast til er það einfaldlega eins með liljur og menn að stundum eru bara of mörg höfuð á einum og sama búknum. 
við erum að horfa fram hjá því að það rignir á fyrsta í aðventu og að okkur vantar kerti í englaspilið. en kransinn er tilbúinn. hann er gerður úr grannri marggreindri grein, fínlegur og fagurgrænn og minnir örlítið á þyrnikórónu krists án þess þó að vekja of mikil hugrenningatengsl við sársauka – það er ekki meiningin að skyggja á fagnaðarerindið með gáleysislegri notkun á kristilegum táknum. það logar á spádómskertinu. loforðinu um hinn mesta kærleika hefur verið sleppt út í andrúmsloftið og við höfum náð samkomulagi um að treysta því að allt rati til ljóssins, konur, refir og villuráfandi bænir. og um það greindi ég reyndar skýrt teikn í fyrradag á leið til vinnu. að venju var ég á hraðferð en þar sem loftið var öllu kaldara en ég hafði gert ráð fyrir staldraði ég við á dyraþrepinu til að setja á mig kanínukransinn. sem ég smokra úfnum feldinu yfir hnútinn á hnakkanum lyfti ég höfðinu til að hagræða kransinum betur við eyrun og sé þá, svo ég hrópa upp yfir mig af fögnuði, að úrverkið hafði um nóttina komið fyrir á himninum skáhallri mánasigð, líkastri skínandi vöggu, og yfir henni, eins og barni sem veit að það verður gripið, sólbjartri stjörnu í stærra lagi. nú getur vel verið að einhverjum þyki maður lifa með skáldlegasta móti en ég er engu að síður á því að ef slík sýn að morgni dags er ekki fyrirboði þá veit ég ekki hvað.  
á meðan við tínum til smáfugla og köngla og títuber til að hafa með kransinum hugsum við að það væri óneitanlega skemmtilegra að eiga tiltæka biblíu á heimilinu. sér í lagi þessa rauðu í flaueliskápunni. hún er ekki eins þunglyndisleg og sú svarta sem ég man eftir úr æsku minni. við ákveðum að hafa tónlist með kransagerðinni fyrst við eigum enga biblíu og gerumst svo bíræfin að kveikja á útvarpinu. anton er í banastuði þessa dagana. þá á ég við stuði af því taginu sem gæti þá og þegar banað okkur refnum. við vogum okkur ekki að svo mikið sem gjóa augunum í áttina að jólaplötunum. í útvarpinu er einmitt að fara í loftið lokaþátturinn í röð sem við höfum undanfarið fylgst með af áhuga og fer nokkuð nákvæmlega ofan í saumana á lífi og list mozarts. anton virðist geta hlustað á mozart án þess að finnast hann nauðsynlega þurfa að prjóna eitthvað við tónsmíðarnar. mér aftur á móti getur ekki annað en þótt það örlítið niðurdrepandi að hlusta á frásagnir af afrekum undrabarnsins þegar mér sjálfri, fertugri manneskjunni, hefur ekki enn tekist að ná lágmarksfærni í einföldum aðgerðum eins og að leggja saman þvottagrindina án þess að klemma á mér fingurna svo ég tali nú ekki um að hengja grenigrein í glugga þannig að hún virðist svífa í lausu lofti. á þessu heimili snúast jólaskreytingarnar að stórum hluta um að storka þyndaraflinu og eiga það því til að vera full verkfræðilegs eðlis. mozart er ágætis mótvægi í þeirri glímu. einhvern veginn hafðist þetta samt og það tiltölulega slysalaust ef frá er talið að ég kom stólfæti aðeins of harkalega fyrir á vísitánni og stakk mig í þumalinn með blómavírnum. þetta síðartalda er aðventuklassíker. 
annars vorum við lygilega hófsöm í grenikaupunum í ár. eyddum ekki nema þrjúþúsundogfimmhundruð krónum í blómabúðinni. eða ég, það er að segja. refurinn beið heima og ber enga ábyrg á þessu. hann veigrar sér orðið við heimsóknum í blómabúðina. indælu hjónin sem reka búðina eiga labradortík í, hvernig á ég að orða þetta, umtalsverðri yfirvigt sem hefur ásett sér, þannig að ekki er um að villast, að vinna ástir refsins. þetta gerir hann taugaóstyrkan. eðlilega. hreyfingar dömunnar eru álíka fínlegar og hún sjálf. þannig að oftast nær snýst veran í blómabúðinni upp í það að hann æðir um með stórgerðan aðdáandann á hælunum og reynir að finna sér undankomuleið, smeygjandi sér á milli rósabúnta og leirpotta og glerfígúra, sveiflandi fjöðrinni ótt og títt svo allt umhverfis rambar á vonarvöl og ég hef ekki undan við að forða okkur frá óþarfa fjárútlátum. sem eins og ég kom inná áðan eiga ekki að vera nein þessa aðventuna. þar með talið er að láta það alfarið eiga sig að kaupa hreindýrahorn á refinn eins og ég impraði á að gæti verið skemmtilegt í ár. taka mynd og senda sem jólakort og kveðju á feisbúkk. hann var ósammála. þetta snertir á, eins og hann orðar það, „réttinum til að halda sjálfsvirðingunni yfir hátíðirnar“. ég á ekkert svar við þessu. þannig að við kaupum bara nýtt slifsi. höfum það svart. einfalt. elegant. það getur einhver annar tekið það að sér að vera trúðurinn þessi jól.

sunnudagur, 20. nóvember 2016

frá einu til annars milli ljóss og myrkurs um mjóa línu


við erum stödd á norðurhveli í nóvember. nóttin er stökkur kristall og það kvarnast úr himinum við ljósaskiptin svo þunnar flögurnar sáldrast hljótt til jarðar og leggja ljóseindunum lið í morgunglímunni. fyrsta skíman af sunnudeginum, huguð eins og sakleysið, gerir tilraun til að smeygja sér í gegnum þunna blúndugardínuna og vekja konu og ref sem eru óvenju morgunsvæf og þung í kroppnum eftir andvökur og byltur næturinnar. þrátt fyrir að tilraunin geti varla talist sannfærandi hefur skímuskottið erindi sem erfiði, enda má taugakerfi þeirra sem að er sótt ekki við miklu og lætur jafnan fátt fram hjá sér fara – veri það í svefni jafnt sem vöku. ég skynja breytinguna á birtumagninu í gegnum augnlokin og læt rifa milli hvarma í nokkra stund áður en ég legg í að opna alveg fyrir ljósopið. húsið er dauðahljótt. umgangur nágranna minna er oftast minni fyrir hádegi á helgidögum en á næturnar þegar ég ligg og greini hvert hljóð milli veggja og lofts; í næstu íbúð magnast deilur persóna í kvikmynd þar til einhver er nægilega ósáttur til að hleypa af skotvopni; á efri hæðinni eru borðstofustólar dregnir til líkt og risavaxnir taflmenn og eitthvað þungt dettur í gólfið svo undir tekur. þetta síðasttalda olli mér nokkrum áhyggjum. ég hugleiddi að hringja á lögregluna en ákvað að láta það eiga sig þegar kennslan í mannganginum hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist. ég veit ekki hvenær ég festi svefn. 
þegar ég kemst örlítið betur til sjálfrar mín skreiðist ég fram úr rúminu og faðma refinn áður en ég fer í ullarsokkana og síða peysu yfir náttkjólinn. líkaminn er stirður af þreytu og mig langar mest að leggjast aftur upp í en þar sem ég veit að þar færi ég erindisleysu drösla ég mér fram í stofu og býð antoni góðan daginn um leið og ég kveiki á sítrónuljósinu í hillunni við hliðina á búrinu hans. hann svarar ekki en horfir á mig á milli mjórra rimlana. anton þegir oftast þunnu hljóði þar til ég skrúfa frá krananum. það er eitthvað við rennandi vatn sem espar upp í honum samkeppnisandann – rennandi vatn og etíður philip glass ... sem reyndar hljóma margar eins og seytlandi vatn þegar ég hugsa út í það. frammi í eldhúsi uppgötva ég að nautabaninn og friðardúfan hanga naumlega á veggnum eins og þau, líkt og nágrannar mínir, hafi staðið í ströngu fram eftir nóttu og séu ekki til nokkurs líkleg næstu tímana. ég festi þau varlega til að beygla ekki stífan pappírinn og kveiki svo á þremur kertum sem í kompaníi við sítrónuljósið fara langleiðina að því að lýsa upp íbúðina þannig að sjá megi handa sinna skil við að hella upp á kaffið. ég er eitthvað aum í sálinni og reyni að skæla ekki við uppáhellinguna. það er þreytan, segi ég við sjálfa mig og sæki afþurrkanarklútinn og kveiki á útvarpinu til að heyra ekki í taugaboðefnunum æða um í myrkri kúpunni. 
í útvarpinu er að hefjast útsending frá fjölmenningarmessu fríkirkjunnar og ég bæði meyrna og eflist yfir predikuninni um mýkt og manngæsku mannsonarins sem ævinlega hélt sig á jaðrinum og svaraði engu nema kalli dúfunnar. það er gott að þurrka af og hlusta á bænir og sálmasöng barna og áður en ég veit af hef ég smellt mér í gúmmískóna og er farin út með vatn í fötu að þrífa gluggana. birtan á nógu erfitt uppdráttar á norðurhveli í nóvember þó maður bæti ekki á með skítugum gluggum. því næst skúra ég gólfið og vökva blómin. eitt hefur tilhneigingu til að leiða af öðru. mér til hrellingar sé ég að okkur refnum hefur tekist að drepa einn af þremenningunum á stofuborðinu; litlu þykkblöðungunum sem okkur þykja svo sætir og skemmtilegir í marglitu leirpottunum innan um kertaljósin og hálflesnu bækurnar. mér er ekki vært með dauð blóm á heimilinu. ég klæði mig í kuldaskó og úlpu og set kanínukransinn á höfuðið með hundinn hoppandi í kringum mig af spenningi. hann getur aldrei vanist því að fólk, ólíkt hundum, þurfi að hafa sig sérstaklega til áður en farið er út. 
við röltum í litlu blómabúðina þar sem við fyrirhafnarlítið skiptum dauðum út fyrir lifandi auk þess að kaupa ægifagra fúskíubleika lilju; hvorki meira né minna en sex blóm á einni grein, hvert og eitt á stærð við höfuð refsins og minna má það ekki vera eftir margra tíma þrif undir sunnudagssálmum og blessunarbænum. á heimleiðinni göngum við rösklega í skörpu frostloftinu mót esjunni og þar sem ég virði hana fyrir mér er ég skyndilega slegin yfir því að ummmerkin um átökin sem áttu sér stað þegar hún skapaðist séu enn jafn sýnileg eftir allan þennan tíma. samt stendur hún þarna ennþá. ég ferja hund og blóm yfir þröskuldinn og hugsa með mér að það megi ýmislegt læra af reisn fjalla. 
á meðan ég saxa grænmetið og kem örsmáum lambahrygg fyrir í steikingarpottinum spila ég etíðurnar og sendi anton inn í herbergi að „hugsa sinn gang“. refurinn, sem gleðst alltaf dálítið í laumi þegar „tökubarnið“ er sett afsíðis, situr prúður og hemur munnvatnið. hann veit hvað það merkir þegar eigandinn hefur lambahrygg í matinn og betra að leggja sig allan fram í kurteisinni. sér í lagi eftir að potturinn er kominn úr ofninum og eigandinn byrjaður að borða. það verður ekki af spiki sauðkindarinnar haft að það bragðast vel og styrkir í manni sálina. enda deili ég því greiðlega með refnum sem veitir ekki af öllum þeim sálarstyrk sem völ er á; nágranninn með ónýta hljóðkútinn fer yfirleitt á ról eftir kvöldmat og ferfættlingurinn getur ekki á heilum sér tekið af ótta. drunurnar í nóvembermyrkrinu eru meira en hans smáa hjarta þolir. stundum talar hann um að flytja. taka okkur upp með þykkblöðungana og hálflesnu bækurnar og flytja út á land. það myndi gera okkur gott, segir hann. ég bendi honum á að það sé líka nóvembermyrkur úti á landi. en mögulega engir nágrannar með risavaxna taflmenn og ónýta hljóðkúta, segir hann. en samt, segi ég. nóvembermyrkur. og engar blómabúðir. og kannski léleg útvarpsskilyrði. hann horfir á mig með brúnustu augum í heimi. ég horfi á móti og hvorugt lítur undan í nokkra stund. svo blæs ég á kertin og læsi bakdyramegin fyrir nóttina. ég er ekki viss, refur. ég er alls ekki viss. 

laugardagur, 12. nóvember 2016

það er það sem það er, eða, skór eru skór eru skór eru skór


ég var að leita mér að skóm í alla nótt. kannski ég taki það fram að leitin átti sér stað í draumi. þó intróvertinn í mér sé fram úr hófi fyrirferðarmikill hefur hann ekki enn náð þeim hæðum (eða lægðum) að versla í hagkaup á nóttunni. ég var ekki einu sinni stödd í hagkaup í draumnum. á því meðalkaupfélagi og þeirri draumaboutique sem ég verslaði við í nótt er slíkur reginmunur að það er engin leið að fara út í það nánar. þetta var verulega sérstök búð. mínímalisminn var slíkur að þarna var ekki einu sinni afgreiðslukassi og innviðirnir svo blindandi hvítir og flekklausir að ég, sem að jafnaði tel mig framúrskarandi þegar þrif eru annars vegar, fann hreinlega til minnkunnar. allt í þessari búð virtist upphugsað af skóhönnuði bjarkar guðmundsdóttur. á einhverjum tímapunkti draumsins mátaði ég skó úr gleri. reyndar ekki með hæl og mjórri tá eins og í ævintýrinu um leiðitömu stjúpdótturina – sem mér finnst eindregin vísbending um að ég hafi í alvörunni engan áhuga á að eignast kærasta og húrra fyrir mér með það – heldur voru þetta forláta dr. martens skór úr grænu flöskugleri. mjög sérstakir. en voru því miður ekki til í minni stærð. þeirra í stað valdi ég uppreimaða skó úr fölbleiku silki. fljótlega kom í ljós að það val hefðu verið mistök. bleikt silki er skítsælt. og væmið. ég kann ekki að ráða í þennan draum. og er búin að ákveða að ganga í leku kuldastígvélunum einn vetur í viðbót. ég á enga peninga hér í raunheimum. núorðið versla ég aðeins í draumi. að öllum skókaupum slepptum er engin leið að afneita því að heimurinn er á hliðinni. í höllinni hefur hirðfíflinu verið réttur valdasproti og kóróna, plastumbúðir eru enn stærsti hluti heimilissorpsins þrátt fyrir allan minn góða vilja til hins gagnstæða og leonard cohen er dáinn. á örlítið persónulegri nótum þá þarf ég að láta fjarlægja vörtu af hálsinum á mér. mér er ekki stætt á að tala um þetta sem útstæðan fæðingarblett lengur. þetta er varta. maður á að orða hlutina eins og þeir eru. ég er að æfa mig í því. og ef ég væri alveg heiðarleg væri það einmitt umfjöllunarefni þessarar færslu hversu erfitt það er að orða hlutina eins og þeir eru. og hversu illa það kemur sér fyrir þann sem vill vera rithöfundur. innra með mér ríkir djúp þögn. sem ég er að breiða yfir með því að tala um skókaup í draumi (svo ég bendi á hið augljósa). að lýsa draumförum sínum er skýrasta leiðin til að opinbera andleysi í vöku. ég er stödd í einhverju bili. eins og þvottur á snúru að þorna. eða kaka í ofni að bakast. ég get ekki lýst þessu betur. þannig að ég læt það vera. eða öllu heldur leyfi því að vera. ég er hrifnari af því. let it be is the new let it go. maður er nú einu sinni allur á dýptina. og þó maður viti ekki vel hvert maður er að fara er víst betra að eiga skó. ég skil bara ekki hvers vegna þeir þurfa að vera úr jafn viðkvæmu efni og silki?