sunnudagur, 23. október 2016

einfaldar ályktanir


enn verður mér ekkert ágengt í að skilja strengjafræði. mögulega er þetta vonlaust verk. og þó ég sé öll að vilja gerð veit ég heldur ekki almennilega hvernig ég ætla að snúa mér í því að breyta lífi mínu. en ég vil láta brenna mig eftir andlátið. og gefa vindinum öskuna. um þetta er ég viss. ég hef að vísu ekki nennt að fylla út tilskylda pappíra þessa efnis en nú hef ég í það minnsta rætt þetta opinberlega. altsvo hér á internetinu. þið hin fáu eruð til vitnis. því fylgir óneitanlega einhver ábyrgð. að vísu er þeirri ábyrgð þröngvað uppá ykkur óforspurð en það er ekki eins og maður hafi val um allt í þessu lífi. ég valdi það til dæmis ekki að fæðast – alla vega rekur mig ekki minni til að það hafi verið borið sérstaklega undir mig – það einfaldlega henti mig. eins og eitt og annað hendir mann. það kemst enginn undan þeirri ábyrgð að taka því sem að höndum ber. maður fæðist. og einn daginn mun maður deyja. og þá vil ég láta brenna mig. einfalt. stundum er gott að nálgast hlutina með keðjusög occams. fyrst maður skilur ekki strengjafræði. annars er ég mest með hugann við músík þessa dagana. married to music. það er mín hjúskaparstaða. og hefur kannski alltaf verið. frá því ég var barn hefur lúrt með mér áköf löngun til að læra á píanó. ég held ég hafi talað um þetta áður – nema ég hafi aðeins hugsað það ... nýlega las ég einmitt grein um þá hvimleiðu tilhneigingu intróverta til að sleppa því að yrða þriðju hverju setningu þegar þeir tala. þeir hugsa hana aðeins. þannig vantar alltaf einn þriðja uppá það sem þeir eru að reyna að segja. þetta kemur eðlilega töluvert niður á skýrleika. ég held það borgi sig fyrir mig að útbúa spjald með þessum upplýsingum og ganga með um hálsinn sjálfri mér til varnar. en ég var að tala um píanó. og það sem mig langaði að segja um píanó er að það er eitthvað ómótstæðilega þokkafullt við það að leika á slíkt hljóðfæri – og reyndar öll strengjahljóðfæri ef út í það er farið – píanó eru nefnilega strengjahljóðfæri. ég var komin vel yfir þrítugt þegar einhver uppfræddi mig um þá staðreynd en hún kom mér ekki á óvart; píanóleikarar hafa þetta yfirbragð sem einkennir strengjaleikara. ég veit ekki hvort það eru straumlínurnar í formi hljóðfæranna eða tilfinningin í hljómi þeirra sem gera það að verkum að það réttist úr hryggsúlu þess sem fer um þau höndum og hreyfingar hans fyllast af munúðarfullri mýkt og ofsa allt eftir inntaki tónanna sem hann ætlar að seyða úr strengnum og inn í hlustir þeirra sem heyrt geta en eitthvað er það. það húkir enginn yfir strengjahljóðfæri. það er einfaldlega ekki hægt. ég er handviss um að ef ég hefði verið fjórtán ár í píanónámi en ekki dansnámi væri ég samt alltaf svona bein í baki. bara ekki svona fáránlega útskeif. ég ætla að læra á píanó áður en ég dey og verð að ösku sem vindurinn tekur. ég hugsa að ég geti lært á píanó. ég er alla vega bjartsýnni á það en að mér takist að skilja strengjafræði. svona fyrst maður er að munda keðjusög occams.

laugardagur, 8. október 2016

að draga mörkin með mjúkri línu er svar kærleikans við reglustikunni


það eru einhver teikn á lofti. ég ætla ekki að fara nánar út í það en svona kýs ég að lesa í atburði líðandi stundar. og nú bý ég um rúmið mitt. að búa um rúmið sitt er víst einn af þessum einföldu hlutum sem rannsóknir sýna að geri fólk hamingjusamt. þetta hef ég lengi vitað. maður hefur ekki tekið almennilega ákvörðun um að fara á fætur fyrr en maður hefur búið um rúmið sitt. ég myndi vilja bæta því að strjúka yfir gólfin fyrir morgunmat á þennan lista. það er einhver gjörningur í því að „hreinsa flötinn“ í upphafi dags. einhver ætlun um að vera heiðarlegur. okkur konunni sem er að breyta í mér heilanum sammæltist reyndar um það nýlega að ég þyrfti að grinnka eitthvað á öllum þessum ritúölum. það er alveg að fara með mig á köflum að vinna eftir regluverki samúræjans sem sinnir því hlutverki að halda óreiðunni í lífi mínu innan skikkanlegra marka. það er ofboðslegt álag á honum. í framhaldi af samtali okkar heilabreytingarkonunnar sendi ég hann á japanskt heilsuhæli. þess vegna hef ég ekki vaskað upp í nokkra daga. það angrar okkur ekki að ráði. ég lít stundum til með honum þarna á hælinu og það gleður mig að sjá að hann virðist hafa gott af dvölinni. hann hefur braggast töluvert – hann sem var vart annað en skinn og bein – og unir sér löngum stundum í jarðbaðinu sem ég lét gera í litla garðinum fyrir utan herbergið hans. þetta er gott svona. hann hvílir sig og ég get þá einbeitt mér að lestri og skrifum á meðan. í gærkvöldi byrjaði ég að lesa steinsteypu eftir thomas bernhard. hvað það er fáránlega fyndin bók! ég er búin að eiga þessa bók í mörg ár og dauðsé eftir að hafa ekki lesið hana fyrr. hún er svo fyndin að ég óttast mest að hún eyðileggi mig sem höfund. ég hætti að skrifa af því ég geti aldrei orðið jafn fyndin og thomas bernhard. hætti að skrifa og snúi mér alfarið að þrifum því ég muni aldrei geta byggt upp jafn langar og taktmiklar setningar og thomas bernhard. ég má ekki láta þennan þanka ná tökum á mér. og ég þarf að minnka við mig magnesíumskammtinn. ég er að verða húðlöt á morgnana. það er orðin regla fremur en tilfallandi að ég komi mér ekki á lappir fyrr en klukkan sjö. mögulega borgar sig að trappa mig niður í ráðlagðan dagsskammt. nema þetta skrifist á dvöl samúræjans á hælinu? getur það verið? ég viðurkenni að ég óttast örlítið að kannski komi hann aldrei til baka og lífi mínu skoli út í fallvatnið fyrir vikið. þótt ég hafi sent hann á þetta hæli þýðir það ekki að ég þurfi ekki á honum að halda. ég þarf virkilega á honum að halda. hann verður bara að læra að lesa í aðstæður og hætta að tala til mín í boðhætti. en hann ræður ekki við það eins og er. þannig að hann verður eitthvað áfram á þessu hæli. í millitíðinni ætla ég að hlusta meira á nýju bon iver plötuna því ég á að segja eitthvað um hana í útvarpinu á mánudaginn. og samúræjinn á ekki skipta sér af því verkefni. hann má hlusta á meðan hann baðar sig en hann á ekki að tala. ég er að tala. og nú vitum við bæði hvað það þýðir.        

sunnudagur, 2. október 2016

margföldunaráhrif verka mínus tími


það var ekki ég sem borðaði súkkulaðið úr krúsinni í búrskápnum. ég er höfð fyrir rangri sök. það var ekki heldur ég sem hellti rauðvíni í glasið áður en klukkan sló fimm. einhver virðist staðráðinn í að bregða fyrir mig fæti. það er lægð yfir landinu og ég man ekki hvað mig dreymdi síðastliðna nótt. infrastrúktúrinn er á sjálfstýringu þessar vindasömu haustnætur og ég sef varla svo heitið geti. ég er ekki ein um það; á efri hæðinni eru húsgögn dregin til upp úr 02:40; handan götunnar þenur einhver ónýtan hljóðkút; hundurinn er órólegur. stundum virðist sótt að manni úr öllum áttum samtímis. stundum er eins og breiddarbaugarnir í lífi manns raði sér skyndilega skipulega upp, eftir að hafa bylgjast stefnulaust um á jaðri sjónsviðsins, og teygi sig út í hið óendanlega þar sem allt ýmist lýsist upp eða eyðist út á meðan maður sjálfur dregst saman í örsmáan punkt, flöktandi og máttvana. hversdagsverkefni fimm daga vinnuviku geta lagt mann í læsta hliðarlegu á skemmri tíma en hægt er að ímynda sér þegar dimmir á morgnana og loftþrýsingurinn fellur án fyrirvara. þetta kallar á eitthvað fyrirbyggjandi. ég er að hugsa um að kaupa mér sólarupprás í klukkuformi. ég hef heyrt um slíkar klukkur; töfragripi sem læða dagsbirtu inn til manns löngu áður en hún lætur sjá sig opinberlega. þetta er kannski bíræfið. að ætla að leika á sjálfa sólina. en ég tek áhættuna. ég hef engu að tapa.