þriðjudagur, 10. maí 2016

skynjuð hreyfing


héðan frá séð virðist sjónarspilið löturhægt. nánast eins og það gerist aðeins því sá sem horfir veit á hverju má eiga von. endurtekningin er öllum lærimeisturum lúmskari. suma morgna er loftið svo sláandi kalt að maður týnir tíma og rúmi. við erum stödd efst á bláu spiladósinni, þeirri sem snýst um möndul sinn. hér blómstra engin kirsuberjatré og fólk á stöðugt von á næstsíðustu snjókomunni. í dag gekk ég fram á þúfu af tærbleiku blóðbergi í fellshlíðinni ... eða var það lambagras? ég get aldrei greint á milli með góðri vissu. enda hefði sú vitneskja litlu breytt. engu reyndar um hversu fallega litur blómsins talaði við himininn og jarðveginn. mér varð svo um að mér skrikaði fótur í lausamölinni og rann nokkurn spöl niður hlíðina hraðar en mér þótti óhætt. ég hugleiddi að setja steinvölur í vasana. styrkja jarðsambandið. en fugl fældist upp við fætur mér og ég leiddist út í aðrar vangaveltur – ef fugl lætur berast með vindi, flýgur hann þá eða fýkur? ég veit fátt um fugla. eins og ég veit fátt um flest. ég tel smáaurana á botni handtöskunnar og gullin í brjóstvasanum. af hvoru tveggja á ég mismikið til skiptanna. öðru sáldra ég milli fingranna þar sem ég stend. hinu gæti ég með öllum skilningsvitum. og hef hugann við umbreytinguna. þá sem gerist löturhægt. þannig að hún er vart greinanleg. og í raun ekki til nema sem grunur. það verður að duga. í bili.