fimmtudagur, 23. apríl 2015

„hlutirnir eru eins og þeir eru. þjáning okkar stafar af því að við ímynduðum okkur þá öðruvísi“ (sagði einhver búddisti einhvern tímann)

samkvæmt pappírunum er sumar núna, sjálf dreg ég slíkar staðhæfingar í efa, það er því eingöngu af borgaralegri hlýðni sem ég pósta hér mynd af þvotti sem hengdur hefur verið út til þerris og virðist (að því ég get best séð) með öllu ófrosinn, en það þýðir ekki að mér þyki myndin endurspegla neitt í áttina að því sem má kalla veruleika, ég er ekki gjörfyrrt öllu viti, með fjörutíu ára reynslu af vonbrigðum þessu tengdu væri óafsakanlegt að fara að rífa fram tásuskóna og stinga ullarhúfunni í neðstu skúffuna, við sjóuðu stelpurnar setjum í mesta lagi upp sólgleraugun, en bara af því það er töff að vera með sólgleraugu sama hvort það skín sól eða ekki, ég sá fólk í bænum í dag sem var ekki með húfu, það var ekki töff, víða voru meira að segja blásnir upp hoppukastalar „í tilefni dagsins“, gott og vel, það er svo sem ekki alvitlaust að leyfa kuldabláum börnum að hoppa sér til hita í nýju sumartreyjunum sínum, en það þýðir ekki að ég taki þátt í því, nei, ég hneppti kápunni uppí háls og herti gönguna um helming, samt með sólgleraugun, og húfu, og vettlinga, í ullarsokkum

sunnudagur, 12. apríl 2015

hið smæsta og hið stærsta er einn og sami hluturinn

mér miðar ekkert áfram í leitinni að nýrri kaffiskál, það kvarnaðist illa upp úr þeirri gömlu nýlega og nú storka ég örlögunum alla morgna með því að drekka úr henni, maður á alls ekki að drekka úr brotinni skál, ég man ekki hversu mörg ógæfuár það boðar en þó það væri ekki nema fjórðungspartur úr hefðbundnu almanaksári þá væri ekki á það bætandi, en þó málið þoli enga bið þolir það heldur engar skítareddingar, þetta er nákvæmnisatriði, ég fíflast ekki með hlutföll, stundum dreymir mig um að eiga hús í fullkomnum hlutföllum við flygil, mig langar að eiga flygil, slíkt hljóðfæri hefur svo sterka nærveru að það jafnast næstum á við manneskju, og flygill er hljóðfæri sem er ekki hægt að láta hljóma illa jafnvel þó maður kunni ekkert að spila á það, því er ekki endilega þannig farið með fólk, það teygist á tímanum og veran hér á eyjunni er að ganga að mér dauðri, en þrátt fyrir að hafa svo sannarlega unnið mér inn fyrir því með almennum leiðinlegheitum er því miður ekkert útlit fyrir að nokkur sála tími að kjósa mig burt af henni, enda er kostnaðurinn við að brjótast út úr þessum fangaklefa í föðurlandslíki slíkur að enginn nema arabískir olíufurstar og mamma mín hafa efni á því, og ef svo ólíklega vill til að mér sjálfri áskotnist eitthvert sparifé er öruggast að það fari beint upp í kaupin á kaffiskálinni, einhverja sem lætur mér líða eins og ég sé með allan heiminn í höndunum, hver veit nema þessi ógæfa gæti raungerst í ævilangri og órofinni dvöl hér í kuldanum og þá er betra að vera búin að gera einhverjar ráðstafanir