sunnudagur, 21. desember 2014

Fjórði í ritúali – leiðin að trénu

velja af kostgæfni jólakærasta í formi kasmír og silki
vefja honum þétt um herðar og háls 
finna hvað hann ilmar vel
hlusta á dolly syngja um litla trommuleikarann
klæða gjafirnar í heimatilbúinn felubúning
leiða hjá sér eldsvoðann sem geysar í heimabankanum

sunnudagur, 14. desember 2014

þriðji í ritúali – ljósræktun í húmi

öll vötn virðast renna í átt að þeirri niðurstöðu að við séum ekki án vonar
verði svo

sunnudagur, 7. desember 2014

annar í ritúali - trúðu, og sjá, inn gengur sauður í sauðagæru

endurhæfing hjartans er hæg ganga í djúpri fönn, lambið – höfuðskepna þess sem treystir - bíður merkis um að vera boðið velkomið, suma morgna stingur ljóstýra sér undir þröskuldinn, allt er hljótt, enginn syngur – ekki enn – en stöku sinnum flýgur rjúpa hjá, hvít eins og vígð mjólk, trúin drýpur í seigum taumum niður gluggarúðurnar og ég hripa hjá mér í minnisbókina „allt streymi fram um síðir“, strika svo samstundis yfir setninguna aftur, förin sitja í pappírnum eins og skuggar