sunnudagur, 12. október 2014

lausleg yfirferð á alls konar og engu

það er eitthvað að gerast með mig, kannski er þetta allt að fara úrskeiðis, ég er komin uppí tvær skálar af kaffi á dag og fresta því stöðugt að hugleiða, dreymir tóman hrylling nótt eftir nótt og ergi mig á öllum sköpuðum hlutum, myndi helst kjósa að opna ekki munninn fyrr en um hádegisbil en kemst ekki upp með það sökum vinnu minnar, það er ekki nokkur friður í þessu lífi, af hverju vill heimurinn öll þessi afskipti af mér? í augnablikinu þyrfti ég að þvo mér um hárið en fæ mig ekki til þess, ég kláraði að semja ljóð handa hallgrími péturssyni í fjögurhundruðára ammælisgjöf í morgun og verslaði mér auk þess bæði borðstofu- og sófaborð og það verður bara að duga í bili, er ekki eitthvað sjúklegt við það að kaupa sér húsgöng þegar maður á ekkert hús? núna langar mig í dauða stund, ég hef ríka þörf fyrir dauðar stundir, hundurinn líka, við horfumst í augu og þegjum, spilum philip glass, moppum kannski gólfið, þetta síðast ætti ekki að vera í fyrstu persónu fleirtölu, það er ég sem moppa gólfið, hundurinn gengur á eftir mér með ullarteppið sitt í kjaftinum og nemur reglulega staðar til að tæta það niður í sitt upprunalega form: illa lyktandi ullarvöðla sem bíða kembingar, ég sýni þessu skilning og moppa áfram, bráðum klárar hann teppið og þá get ég hætt að moppa, moppa þá jafnvel aldrei aftur, hvað veit maður? ekkert, jú annars, ég veit að eftir tvær vikur þarf ég standa fyrir framan biskupinn og guð og jesú og alls konar fólk og lesa ljóðið sem ég samdi handa hallgrími í ammælisgjöf, mér verður pínulítið mál að gubba þegar ég hugsa um það, er það þess vegna sem ég svitna svona á nóttinni? ég veit það ekki, kannski eru þetta hormónabreytingar, þetta eru örugglega hormónabreytingar, þetta er allt einhverjum helvítis hormónum að kenna, líka þunglyndið, ég þarf að komast í streymijöfnunarmeðferð fyrir hormónalasna, stilla jafnvægið, nálgast núllpunkt, smíða örk, hlusta á nið í djúpu vatni, lesa sólstafi, öðlast fullvissu um eitthvað, bara eitthvað, læra að elska, þvo mér um hárið, tileinka mér nýja færni í matarinnkaupum, pokarnir tveir sem ég kom með heim úr krónunni áðan kostuðu tuttuguþúsundogníutíu, ég hef það á tilfinningunni að þetta gangi ekki til lengdar, hvorki kennslan né ljóðaskrifin skaffa sérstaklega vel í augnablikinu, og van gogh seldi bara eitt verk um ævina þannig að það má alveg gefa sér að þetta ástand geti varað eitthvað áfram, ég fæ reyndar fimmtíuþúsundkall fyrir ljóðið til hallgríms (maðurinn var svo æstur í að fá mig í ammælið sitt að hann bauðst til að borga með sér), ég kemst þá í búðina tvisvar og hálfu sinni í viðbót, maður biður ekki um meir, ekki í bili