laugardagur, 6. september 2014

héðan í frá ætla ég bara að eiga bækur og hunda

ég bjó þetta til, ekki ein auðvitað, ég er ekki ofurkvenmennsk, maður þarf að kunna hundrað hluti til að búa til bók og ég kann bara einn af þeim; að skrifa hana, sem er vissulega mikilvægt en hrekkur engan veginn til eitt og sér, en það er svo magnað að þegar maður er einu sinni búinn að senda afdráttarlausan þanka í fullri einlægni út í úniversið er engu líkara en að þetta sama únivers vindi sér í að raða í kringum mann akkúrat því fólki sem maður þarfnast til að allt megi ganga eftir, og einmitt þannig gerðist það, ég er mjög þakklát, í gær stóð ég inní bókabúð og dáðist að litlu fegurðinni minni þar sem hún lá þarna svo sæl og komplexalaus sem bók á meðal bóka, ég er ósköp stolt af henni, hún er svo hugrökk og sterk þarna alein úti í heiminum, mér þykir agalega vænt um hana, semsagt: allt er gott og allir glaðir, þegar ég segi allir á ég við sjálfa mig, barnið og okkar afbragðsfína hvolp, kona sem á afbragðsfínan hvolp þarf ekki mikið meira skal ég segja ykkur (nema þá kannski afbragðsfínt skáldverk úr eigin smiðju), ég hef auðvitað verið hálfómöguleg svona hundlaus og satt að segja hundeinmana þær stundir sem ég neyðist til að deila barninu með þeim sem skóp það með mér, en nú er þetta allt til hins betra, það eina sem gæti bætt ástandið væri að vera kölluð fyrirvaralaust og án tafar til búsetu í parísarborg, en það kemur auðvitað að því, parísarborg hefur víst verið á sínum stað í aldaraðir og ég geri ekki ráð fyrir að á því verði neinar breytingar í nánustu framtíð, þar fyrir utan er haust og einmitt þá er gott að vera ábúandi í mosfellsbæ og eiga hund, við ferfættlingurinn eyðum löngum stundum í reykjalundarskógi við hlaup og innihaldsrík samskipti sem að mestu fara fram í gegnum snertingu, fylgjumst með grænu breytast í gult og rautt og finnum að allt er einmitt eins og það á að vera akkúrat núna, stundum hlustum við á ane brun sem á alltaf eitthvað svo vel við í haustinu, haustið er hugsanlega besti tími ársins til að eiga hund, ég er agalega ánægð með þennan hund sem er öllu hlýðnari en minn gamli (guð blessi elsku hjartað heitið) og virðist – ólíkt fyrirrennaranum sem á köflum var satt að segja allur á hliðinni andlega – ekki glíma við neinar sértækar geðrænar truflanir; hvorki taugaveiklun, mótþróaþrjóskuröskun né stelsýki, það eina sem hugsanlega væri hægt að telja dýrinum til foráttu – þó sjálf telji ég þetta töluvert greindarmerki – er að honum er meinilla við allt á hjólum, en einmitt þetta var eitt af því sem sannfærði mig um að við brún- og blíðeygði vinur minn ættum samleið í lífinu; dýrið tortryggir allt sem fer um með öðrum hætti en með því að færa einn ganglim fram fyrir annan, þjáist af mikilli bílveiki og geltir aldrei nema hjá fari barnavagnar eða vespur, ég aftur á móti keyri ekki nokkurn skapaðan hlut og hef alfarið lagt barneignir á hilluna, fólk hlýtur að sjá að þetta dæmi reiknar sig sjálft, eða eins og ég sagði: allt er gott og allir glaðir