föstudagur, 20. september 2013

maður á ekki að segja svona upphátt ...


... en mér finnst svo oft eins og líf mitt haldi ekki beinlínis „þræði“ eða myndi tiltekna heild ... að einhverju leyti er þetta skilt því sem ég velti fyrir mér varðandi kvikmyndina sem „heild“ – án þess að það sé beint skýrt mótuð hugsun – og ef einhver myndi hala lífi mínu niður myndi það líkast til birtast með álíka sundurleitum hætti og kvikmyndirnar sem ég hef reynt að sækja í tölvunni minni ... og ég velti því fyrir mér hvort ástæðan fyrir því hversu hægt mér gengur að skrifa skáldskap í merkingunni „saga“ sé sú að ég hafi ekki áhuga á skipulegri frásögn, á framvindunni og söguþræðinum, á bókmenntahátíð í síðustu viku heyrði ég búlgarskan höfund halda því fram að ef skáldskapur sé spegill sem við speglum okkur í þá sé sá spegill brotinn, og við þurfum að skrifa brotin, ég er dálítið ástfangin af þessum búlgarska manni, einhverra hluta vegna hafði hann engan áhuga á að tala við mig en það breytir því ekki að bókin hans náttúruleg skáldsaga er það besta sem ég hef lesið lengi, í tengslum við sömu hátíð varð mér undarlega uppsigað við hvít-rússneska blaðakonu og rithöfund sem einhvern tíman hélt því fram við íslenskan rithöfund að það eigi aldrei að skrifa um annað en veruleikann, hann sé nefninlega svo miklu stærri en skáldskapurinn, ég vissi ekki hvert ég ætlaði að komast

hæfileikalausi lögbrjóturinn


þrátt fyrir góðan vilja og nokkra ástundun fer mér ekkert fram í sjálfsnáminu í ólöglegu niðurhali, ég er búin að gera ótal tilraunir til að hala niður hinum ýmsu kvikmyndum sem mig langar til að horfa á og liggja ekki á glámbekk út á næstu myndbandaleigu en ekkert gengur, þetta er óþolandi, og það er niðurlægjandi að færa þetta í tal við annað fólk, allir sem ég spyr út í málið horfa á mig í forundran og skilja engan veginn í hverju vandinn felist, almennt virðist fólk hafa allt sitt á þurru í þessu samhengi, líka þeir sem annars myndu teljast fremur mistækir og kannski ekki að takast neitt sérstaklega upp á öðrum sviðum daglegs lífs, ef mér yfir höfuð tekst að hala einhverju niður í tölvuna mína eru það yfirleitt margar margar möppur sem allar bera titil myndarinnar sem ég falaðist eftir en engin þeirra inniheldur hina eiginlegu mynd heldur – og þetta er áhugavert í póstmódernískum skilningi – einstaka hluta hennar, þá á ég ekki við að myndin hafi verið hlutuð niður í nokkra kafla sem hægt sé að horfa á einn á fætur öðrum heldur er ein þeirra merkt audio, önnur inniheldur runur af kóðum sem ég veit ekki hvað tákna og enn önnur kannski tákn þess kvikmyndafyrirtækis sem framleiðir myndina, sem að sjálfsögðu vekur mann til umhugsunar um kvikmyndina sem form, hvernig hún er samansett og hversu flókin hún er sem miðill – þess vegna er hún svona nákvæm eftirlíking af lífinu, hvað sem því líður er ég algjörlega að missa móðinn, maður er allur að vilja gerður en hvað á kona að taka til bragðs, endurmenntun háskóla íslands býður til dæmis ekki upp á nein færni- og kunnáttunámskeið í nokkru á þessum nótum, til hvers er eiginlega ætlast af manni? hugmyndin á bak við ólöglegt niðurhal á að vera sú að gera pöpulnum kleift að nálgast listina hratt og auðveldlega en þegar vel er að gáð eru mismunun og eineltistilburðir alveg jafn inngróin í þetta kerfi og öll önnur, andskotans elítismi!     

laugardagur, 7. september 2013

ekki lifa öfugt


á milli þess sem ég engist um í þeirri angist sem fylgir flutningi orða á milli tungumála er ég tiltölulega upptekin við að vera hamingjusöm, ég hef gefist upp á þeirri örmagnandi iðju að reyna alltaf að vera skrefi á undan lífinu, framtíðin kemur mér ekki við, ég þarf á allri minni athygli að halda hér og nú, ég nenni ekki að standa í því að byrgja brunninn þegar ég veit ekki einu sinni hvort það er yfir höfuð einhver brunnur í næsta nágrenni, ég hugsa eingöngu um tímann í tengslum við tré, það sem vex, og finn nánast ekkert fyrir rafmagninu í taugafrumunum, allt sem tifar er líf og ég er yfirlýstur andstæðingur kyrrstöðunnar

sunnudagur, 1. september 2013

það er eitthvað við sunnudaga


ég eyddi morgninum í að éta upp úr sarpi ríkisútvarpsins og stoppa í götóttar flíkur, hugsanlega af nostalgískum hvötum, stundum held ég að ég einfaldi líf mitt og haldi mig til hlés svo ég geti komið mér fyrir í liðnum tíma, ég kann illa við mig í nútímanum, hann er eitthvað svo smekklaust samsettur, of mikið af öllu, þegar manni líður illa yfir nútímanum er gott að hlusta á gömul viðtöl við gyrði elíasson, þá finnst manni maður minna einn (ofsaleg ofstuðlun í þessari setningu), til að slitna ekki í sundur æfi ég mig í andartakinu, þar er ákveðið tímaleysi, ég er að verða dáldið góð í andartakinu, ég er ekki eins góð í skrifum, allt sem ég skrifa er einhvern veginn rembingslegt og tómt, fyrir vikið les ég meira en ég skrifa sem gerir það eitt að æra mig af löngun til að skrifa, þetta er að verða vítahringur, og þó hringurinn sé fegurstur forma er ég hrifnari af spíralnum, allavega svona sem lífsmynsti