mánudagur, 29. júlí 2013

quinto racconto


parmesanostur á gólfinu, kaffiblettir og ólífuolía í borðdúknum, leirtau í vaskinum og matarafgangar á trébrettinu sem lyktar af hvítlauk og basil, ein tvær þrjár fjórar ... mjög margar vatnsflöskur á víð og dreif, við mæðgur druslumst um á engu nema nærbrókinni í fjörutíuogégvilekkivitahversumörgumgráðum og tökum ekki sénsinn á að hreyfa okkur til annars en að anda, ég nenni ekki einu sinni að drepa moskítóflugurnar, ég er algjörlega metnaðarlaus, stari bara á vegsummerkin um okkar daglega líf og hrófla ekki við nokkrum hlut, líkt og óhreina tauið og grænmetisafskorningarnir séu fornleifar sem geti gefið mikilvæga vísbendingu og innsýn inní líf litla kvennaþjóðflokksins sem hér býr ef ske kynni að við dræpumst úr hita áður en dagurinn er úti, á morgun förum við heim, ef eitthvað er að marka feisbúkk statusa vina minna eru ekki nokkrar líkur á að við drepumst úr hita þegar þangað er komið, barnið er agnistarfullt yfir fréttum af lestarslysi á spáni og veltir fyrir sér öðrum ferðamöguleikum fyrir ferðalagið á flugvöllinn, hvað myndi leigubíll til mílanó kosta? ég útskýrði fyrir henni af yfirvegun að mamma hafi ekki komist á lista yfir tekjuhæstu lífskúnstnera íslands (enn eitt andskotans árið í röð) og hún verði bara að signa sig í bak og fyrir á morgun og treysta á að madonnan verði með okkur þessa fimm tíma á morgun í fábrotnu öðru farrými með engri loftkælingu, þegar við komum heim þurfi hún svo að fara að vinna fyrir okkur, ekki geri ég það, ég er lífskúnstner, sem er ekki launað starf í okkar fasíska uberkapítalíska samfélagi og staðan í heimabankanum óspennandi eftir því, ég hef engar áhyggjur, eftir allt þetta ísát höfum við bara gott af smá svelti, mig hefur líka alltaf langað til að prófa að lifa á því sem til fellur í nærumhverfinu, hundasúrur og krækiber og ... þari, mmmmm ...    

þriðjudagur, 23. júlí 2013

quarto racconto

þegar ég vaknaði í völundarhúsinu fljótandi í gærmorgun – algjörlega nakin sökum hita og með moskítóbit á ólíklegustu stöðum – verkjaði mig svo í iljarnar að ég hafði litla sem enga löngun til að fara fram úr, eini glugginn á herberginu stóð opinn upp á gátt og rammaði inn útsýnið yfir þökin fyrir utan; terra cotta flísar og pottaplöntur, loftnet og strompa, baklýst af hvítri morgunsólinni sem máði út allar útlínur líkt og skaparinn hefði ákveðið að mála heiminn í sfumato þennan dag, í gegnum flugnanetið sem hafði augljóslega sofið á verðinum um nóttina eða í það minnsta sinnt hlutverki sínu með hangandi hendi barst undarlegt hljóð, það sama og ég hafði stuttu áður – milli draums og vöku – talið annarlegan karlmannshlátur en kom þegar betur var að gáð frá mávi sem annað hvort af fórnfýsi eða fyrir misskilning hafði tekið að sér hlutverki morgunhanans og „hló“ trúðslega ofan af hæsta strompi hverfisins, herbergið í þessu fyrrum klaustri kom ekki heim og saman við hefðbundnar hugmyndir mínar um klaustur ef frá er talið að það var búið fáum og einföldum húsgögnum: rúm, stóll, borð, skápur, öll af ódýrustu gerð, frammi á ganginum var fábrotin en hreinleg sarlernisaðstaða og köld sturta, bróðir minn jesú og móðir hans sem annars eru allt um lykjandi og alls staðar hér suðurfrá voru aftur á móti hvergi sjáanleg, einfaldleikinn inni fyrir var jafnframt í hrópandi ósamræmi við óreiðuna fyrir utan; allt þetta vatn og engin leið að komast um nema þræða sig í gegnum endalausa ranghala og flækjubendur af götum sem sumar eru varla faðmur að breidd, troðnar af ferðamönnum með myndavélar og bakpoka, vatnsflöskur og kort sem eru lítið annað en óleysanlega gestaþraut, búðargluggar fullir af litríkum grímum, sætabrauði og minjagripum, hvergi beina línu að sjá, allar línur eru bylgjur, eins og umhverfið allt sé smám saman að gárast og taka á sig sömu mynd og yfirborð vatnsins sem borgin er byggð á, borg byggð á vatni, í feneyjum erum við öll jesú kristur, við göngum á vatni, blotnum samt í fæturnar af því við erum að sökkva, 2 millimetrar á ári, vatnsborðið hækkar og fólkið flyst upp um hæð í húsunum sínum, flýtur upp um eina hæð, býr fólk hérna? hugsaði ég í gær þegar ég leið í gegnum nóttina á gondóla undir nánast fullu tungli og virti fyrir mér húsin, fannst allt eins líklegt að þau væru öll tóm, allt er óraunverulegt eins og ég sé stödd í sögubók, þarna kom það; ég er stödd í sögubók og myndirnar eru allar málaðar í sfumato, bara ef rúmið mitt væri bátur, þá þyrfti ég  ekki að fara fram úr, ég datt ofan í kanínuholu og finn ekki höfuðáttirnar, ég er blaut í fæturna og finn ekki fyrir iljunum, hvert liggur þessi gata?

föstudagur, 19. júlí 2013

terzo racconto

hávaðinn í ruslabílunum vekur mig fyrir allar aldir hér fyrir sunnan, ekki svo að skilja að ég kvarti, ég er árrisul með eindæmu sama hvar ég hola mér niður á jarðkringlunni, auk þess er ákaflega indælt að opna út á svalirnar á morgnana og hleypa inn ferskum blæ áður en loftið mettast af hádegishitanum og moskítóflugurnar ákveða að baða sig í rakanum, hávaði í ruslabílum er þó alveg jafn óyndislegur á ítalska vísu og íslenska, sér í lagi þar sem ítalskir ruslakallar hrópa mikið við vinnuna, um hvað er rætt er mér enn hulið, skýrmæli virðist ekki vera krafa þegar sótt er um starf við sorphirðu hér í landi, ítalir hafa verið ósköp elskulegir í viðkynningu enda fyrr mætti nú vera miðað við hvílík innspýting koma okkar er fyrir hagkerfið í landinu, stuðningur okkar við ítalskar landbúnaðarafurðir – þá sér í lagi það sem kemur af kúnni – er með öllu fordæmalaus svo ekki sé meira sagt, þá daga sem við mæðgur og ástkær vinkona mín sem heiðrar okkur og nærir með félagskap þessa dagana erum ekki yfir okkur uppteknar við að troða okkur út af ólívum og parmesanosti, drekka prosecco og smyrja innyflin með ítölskum rjómaís tökum við stífar tarnir í túristahlutverkinu og drögum þá hvergi af okkur: rusluðum rómarborg upp í gær og um helgina gerum við innreið í feneyjar, eins gott að vanda sig svo maður lendi ekki í því að drekkja einhverju(m) – fyrrnefndum feneyjum til dæmis, ferðin er fyrst og fremst farin til að göfga andann, baða sig í listinni á tvíæringnum annan daginn og í adríahafinu hinn, en mín elskulega vinkona er einmitt guðmóðir mín í sjósundi og saman stefnum við að því að endurfæðast þarna í adríahafinu: hugsum botticelli; venus á skelinni og allt það ... nema við verðum auðvitað ekki svona fáránlega fölar heldur gullinbrúnar og sætar eins og karamellur í kramarhúsi, til að fullkomna hina andlegu för höfum við tryggt okkur gistingu undir þaki munka svo sálin ætti að nærast jafnt í svefni sem vöku og ekki ætti maður að þurfa að hafa áhyggjur af ruslabílum í borginni fljótandi, sjálfsagt er það sótt á gondóla og sungið við vinnuna en ekki hrópað, hugsanlega spilað undir á fiðlu, þetta verður indælt     

mánudagur, 15. júlí 2013

secondo racconto

í íbúðinni minni hér í ólívulundinum er gaseldavél, ég veit ekki hvernig þessi mistök gátu átt sér stað, það er ábyrgðarhlutur að skilja manneskju eins og mig – sem hvarvetna hefur getið sér gott orð fyrir klaufaskap – eftir í slíku kompaníi, ég hef einstakt lag á að handfjatla hluti á sama hátt og homo sapiens gerði áður en honum óx þumall ... það var líklega fyrir tíð homo sapiens en þið skiljið hvað ég á við, frá því við mæðgur hreiðruðum um okkur hér á via marconi hef ég margsinnis verið aðeins hársbreidd frá því að valda hverju stórslysinu á fætur öðru, með fádæma lagni hefur mér svo gott sem tekist að bræða handfangið af kaffikönnunni og svíða af mér þau líkamshár sem maður kærir sig síst um að missa; augabrúnirnar, nokkrum sinnum hef ég sömuleiðis nánast kveikt í:  
hárinu á mér
borðtuskunni
viskastykkinu
sparikjólnum
plasthnífapörum
matarumbúðum
dagbókinni
...
svo fátt eitt sé nefnt, ég man ekki meira í augnablikinu en tek fram að listinn er ekki tæmandi, ég er búin að verða mér út um númerið hjá slökkviliðinu og sé fyrir mér að ég bjargist héðan út úr brennandi íbúðinni með því að stökkva ofan af svölunum við dynjandi lófatak myndarlegra ítalskra slökkviliðsmanna sem og indversku strákanna sem reka hið torkennilega robin enterprice hér á neðri hæðinni, þó ég hafi nýtt mér allar mínar gáfur sem og óhamið ímyndunarafl hefur mér ekki tekist að svo mikið sem geta mér til um hvers konar starfsemi fari fram innan veggja þessa fyrirtækis, ég get sagt það eitt að nafnið virðist full (svo ekki sé kveðið sterkar að) ábúðarmikið miðað við innviðið, dettur helst í hug að þetta sé spagettíversjónin á nígeríusvindli ... nema rekið af indverjum, think globally act locally

sunnudagur, 14. júlí 2013

primo racconto

maður veit auðvitað aldrei hvað bíður manns á ítalíu – frekar en annars staðar – nema þá hugsanlega það að bíða, sem er kannski ekki svo neikvætt þegar maður hefur í huga að á ítölsku er sögnin að bíða afar keimlík sögninni að vona, aspettare - sperare, sem var einmitt það fyrsta sem ég gerði eftir komuna á flugvöllinn – beið og vonaði að farangurinn minn skilaði sér, svo merkilega vill til að fyrsta setningin sem kennd er á linguafóninum sem ég keypti handa dóttur minni fyrir ferðina er einmitt þessi: dov´é la mia valigia?(hvar er ferðataskan mín?), sjálfsagt setur fólk þessa linguafóna saman eftir mikla rannsóknarvinnu á reynslu túrista og hagar kennslunni í samræmi við niðurstöðurnar, góðum klukkutíma eftir lendingu þvældist ég allavega fyrir sjálfri mér og öðrum við færibandið í komusalnum algjörlega að drepast úr hungri og þrástagaðist í huganum á einmitt þessari setningu; hvar í andskotanum er ferðataskan mín? af þeirri einu fyrirhyggjusemi sem mér er gefin: að fara aldrei út úr húsi öðruvísi en  hafa meðferðis eitthvað sem má leggja sér til munns, hafði ég daginn áður – þegar ég flutti út af vinnustofunni minni  – tæmt úr skrifborðsskúffunum ofan í handtöskuna mína og var þar af leiðandi með einhver ósköp af hnetum og þurrkuðum ávöxtum sem ég gat gert mér að góðu þó hvort tveggja hefði við skúffudvölina tekið í sig eitthvert bragð óþarflega álíkt því sem maður finnur við það að naga blýant, ég náði mér svo í vatnsflösku til að skola skúffufæðinu niður á meðan ég braut heilann um afdrif farangursins úr íslensku vélinni, ég veit ekki hvort það er til marks um óhóflega sjálfhverfu eða sjúklegt ofsóknaræði en einhvern veginn óttaðist ég að töfin tengdist mínum eigin farangri með einum eða öðrum hætti, hvað gæti mögulega leynst í ferðatöskunni minni sem vekti annað hvort grunnsemdir eða hrifningu starfsmanna flugvallarins? kjálkar mínir unnu á ferðanaslinu eins og vel smurðar mulningsmaskínur, hnetumaukið klesstist upp með tannholdinu og ég tók stóran gúlsopa úr vatnsflöskunni, í huganum gramsaði ég í ofboði í gegnum það litla sem ég hafði sett niður í töskuna (nánast ekki neitt varð mér skyndilega ljóst, hverju hafði ég eiginlega hugsað mér að klæðast næsta mánuðinn?) og datt helst í hug að flugvallarstarfsmennirnir – klæddir í þessa hörmung sem kallast sýnileikafatnaður (systir mín kenndi mér þetta ömurlega orð, hvar lærir fólk svona orð?) – hefðu fundið jógadýnuna mína og samstundis ákveðið að breiða úr henni einhvers staðar „á bak við tjöldin“, í augnablikinu stæðu þeir svo í röð og skiptust á að powerblunda, jógadýnan mín er í mínum augum algjörlega heilagur blettur; vin í óvinveittum heimi; töfrateppi andans; afdrep og griðarstaður og tilhugsunin um að einhver vogaði sér að brúka hana til þess eins að iðka meðvitundarleysi var mér vægast sagt ekki að skapi, svo mjög að ég var við það að gera eitthvað róttækt í málunum þegar færibandið tók við sér og farangurinn silaðist til mín, ég var einfaldlega of svöng til að fara lengra með málið, maður á aldrei að gera neitt drastískt á fastandi maga, það er dæmt til að enda með ósköpum, sem betur fer er ekkert útlit fyrir að til þess komi hér suðurfrá, þ.e. að ég þurfi að taka ákvarðanir á fastandi maga, því hér eru ísbúðir á hverju götuhorni og vinnsla mjólkurafurða greinilega mun skilvirkari en starfssemi flugvalla  

þriðjudagur, 9. júlí 2013

sólarbatteríið rapporterar frá höfuðstöðvunum + in memorium di un vero amico


uss og svei, í enn eitt skiptið hef ég staðið mig illa, enn einu sinni hef ég týnt tímanum ... eða týnst í tímanum kannski, einhvern veginn finnst mér sú lýsing alltaf meira viðeigandi, enn einu sinni hef ég virt að vettugi háleit markmið um vinnusemi og skilvirkni og reglusemi og ýmis önnur hugtök sem ég kann auðvitað engin skil á og mun aldrei gera, hugmyndin var að skrifa daglegar skýrslur héðan úr „hleðslunni“ eins og ég kýs að kalla veru mína hér suðurfrá en einhverra hluta vegna hefur það farið fyrir ofan garð og neðan í hitamollunni og öllu ísátinu (state tranquilli amici, ég gef ekkert eftir í morgunæfingunum og mun þar af leiðandi ekki snúa aftur í líkingu við neitt sem kalla mætti una bestia banale eða því um líkt), en engar áhyggjur, ég hyggst sýna yfirbót enda viðeigandi í kaþólsku landi að skammast sín og gera betur næst, va bene, en áður en ég geri stutta grein fyrir síðustu tíu dögum eða svo þarf ég að segja nokkur minningarorð, þetta blogg er ekki ýkja ólíkt öðrum bloggum að því leytinu til að höfundur þess gerist í hverri einustu færslu herfilega sekur um ömurlega sjálfhverfu og alls kyns plebbaskap enda þykir mér af tvennu illu smekklegra að gera grín að sjálfum sér en öðru fólki, örfáar aðrar persónur rata þó stundum inn í þessa slitróttu frásögn sem hér á síðunni er sögð og ber þá kannski helst að nefna hundinn minn, að því sögðu þykir mér rétt að setja inn þessa dánartilkynningu:

ástkær fjölskyldumeðlimur, vinur og (oftast) gleðigjafi, þ.e. hundurinn minn, andaðist á heimili mínu eftir friðsæla svæfingu miðvikudaginn 26. júní, greftrun fór fram í kyrrþey á landareign systur minnar og mágs í austur-landeyjum þann sama dag

af ástæðum sem hverjum manni sem einhverju sinni hefur átt hund hljóta að vera morgunljósar hef ég ekki treyst mér til að impra á þessu fyrr, hundurinn minn var vissulega afar breyskur og ófullkominn (það sama má segja um eigandann) og gat á köflum gert mig algjörlega brjálaða líkt og gerist og gengur með þá sem standa manni næst, engu að síður var það örmagnandi ákvörðun að svæfa hann svefninum langa, blessað dýrið var farið að glíma við gigt í mjöðmum og slæmar tannaholdsbólgur, þvagleka og hjartatruflanir, það var að vissu leyti meðvituð ákvörðun að kveðja elsku vininn örstuttu fyrir brottför mína hingað suðureftir því ég get sagt ykkur það að heimili þar sem einu sinni hefur verið hundur er skelfilega tómlegt og hljótt þegar nærveru hans nýtur ekki lengur við, ég get ekki rætt þetta mikið meir, með aðstoð dýrmætrar vinkonu varð ferlið nokk bærilegra og veran hér í suðrinu hjálpar til við að heila sárið, allt mýkist með tímanum, því trúi ég

en að öðru ...