mánudagur, 17. júní 2013

í tilefni dagsins, þó ekkert sé tilefnið


mér þykir þjóðhátíðardagurinn leiðinlegur, mér þykir íslenski fáninn líka ljótur, ég hef einnig andstyggð á skrúðgöngum og þoli ekki lúðrasveitir, gott að koma þessu frá, deginum hef ég eytt í þrif og tiltekt í félagsskap hundsins og ríkisútvarpsins, sem mér þótti bæði skemmtilegt og örvandi, mér þykja húsverk nefnilega – öfugt við skrúðgöngur og fjallkonuræður – mjög örvandi fyrir hugsunina, það er til merkis um heimsku mannanna að setja samasemmerki á milli starfa húsmóðurinnar og fátæktar í anda og hugsun, oftast fæ ég mínar bestu hugmyndir við skúringar, tengist sjálfsagt þeim eiginleika að hugsa best á hreyfingu, sem ég og geri, um leið og ég sest niður gerist lítið sem ekki neitt í höfðinu á mér, allt verður einhvern veginn mjög hljótt og ... staðið er held ég besta orðið, með líkamann í kyrrstöðu er hugur minn merkilega viðburðasnautt rými, sem er hvimleitt fyrir skrifandi fólk, ég hef ekki enn fundið leið til að skrifa á hreyfingu, mikið held ég að sá prósess allur yrði sársaukalausari og komplexaminni ef það væri hægt,  það er eitthvað við hreyfinguna sem eyðir efanum, eins og sú orka sem fari í að hreyfa búk og limi geri það að verkum að það sé einfaldlega ekkert eftir til að nýta í hina orkufreku og slítandi iðju sem efasemdir eru, ég er til dæmis sannfærð um að það sé ómögulegt að hlaupa og efast mikið um leið, bara tilhugsunin er beinlínis fyndin, laxnes stóð víst alltaf við skriftir, aðallega skilst mér til að krumpa ekki iðrin, ég er ekki viss um að það hafi haft neitt með höfuðvirknina að gera líklega var maðurinn bara með viðkvæma meltingu, mér er skítsama um iðrin í mér, þau starfa ágætlega, það er hitt sem er til vandræða – það að höfuð mitt er knúið áfram af líkamanum, þetta hljómar auðvitað öfugsnúið og gengur þvert á alla taugalífeðlisfræði en svona er þetta nú samt, ég hreyfi mig, þess vegna er ég, þrátt fyrir þessa hvimleiðu og sértæku fötlun hefur mér tekist að ljúka við lokaverkefni mitt, hipp hipp húrra fyrir mér! ég hreyki mér blygðunarlaust (á torgum jafnvel!), mont mitt er algjörlega ódulið líkt og ég sé barn sem enn hefur ekki lært þann slæma sið að gera lítið úr eigin afrekum – hversu smávægileg sem þau eru, að þessu tilefni drakk ég mörg kampvínsglös sjálfri mér til heiðurs síðastliðinn laugardag og greiddi fyrir í prýðishöfuðverk fram eftir degi í gær, gott ef ég hef meira að segja ekki vaknað hressari en ég var í morgun þegar ég rumskaði á slaginu 7:43 og fann fyrir undarlegri geðvonsku, skrítið að vakna beinlínis í vondu skapi, það er eitthvað svo óverðskuldað 

föstudagur, 7. júní 2013

allt í lagi

kulnun í starfi er víst ótrúlega algengt fyrirbæri, ég á það til að velta mér upp úr alls kyns óþarfa áhyggjum tengdum heilsu minni – húðkrabbamein og skyndileg geðbilun poppa oft upp í þessu samhengi – en ótti tengdur kulnun í starfi er ekki eitt af því sviftir mig svefni ... kannski vegna þess að ég er ekki í neinni vinnu, nei, ég óttast frekar kulnun í hjarta, stundum er ég svo skelfilega hrædd um að verða kaldhæðin og bitur og harðbrjósta, guð hvað það væri ömurlegt, er þá ekki skárra að vera þessi svampbotn sem maður er? líkast til, fyrir nokkrum dögum dró ég einmitt spekispil sem tók mjög skýra afstöðu í þessu máli: „vulnerability is your greatest strength“ sagði það upp í opið geðið á mér, akkúrat og nákvæmlega, muna: setja þetta inn á cv-ið mitt undir liðinn „helstu styrkleikar“