föstudagur, 28. desember 2012

og þó fyrr hefði verið

gleðilega hátíð elsku únivers, afsakaðu hvað kveðjan berst seint en ég hef verið vant við látin, þau auður, bragi og gyrðir ruddust hingað inn til mín á aðfangadagskvöld og höfðu með sér einhverja útlendinga svo líkt og gefur að skilja hef ég varla hvílst neitt að ráði síðustu sólarhringa, ég hef þó reynt að nærast eftir fremsta megni, aðallega á konfekti og mandarínum því slíkt er hægt að borða upp í rúmi án þess að af hljótist neinn teljandi sóðaskapur, í gær tók ég mér reyndar tak, drattaði mér fram í eldhús og hitaði mér vænan skammt af heimagerða rauðkálinu með eplasalati og rjómasósu þó ég þyrfti að sleppa gæsinni því hana fennti í kaf úti á svölum okkur systrum til mikillar mæðu, hin fleyga jólasteik bragðaðist hreint ljómandi þó hún væri nokk seig undir tönn enda augljóslega víðförul og lífsreynd, ég verð að segja að það var afar ánægjulegt að gæða sér á heimsborgara í stað hamborgara yfir hátíðirnar og geri frekar ráð fyrir því en ekki að þetta verði fastur liður héðan í frá, hafðu samt engar áhyggjur af því að ég hlaupi í spik yfir hátíðirnar, ég hef fólk í kringum mig sem sér til þess að ég komi mér ekki undan líkamsæfingunum en mín kæra systir og hennar fyrirtaks ektamaður gáfu mér forláta jógadýnu og æfingabolta í jólagjöf sem ég hef þegar tekið til kostanna á stofugólfinu, bara það eitt og sér að pumpa hinn gríðarstóra bolta upp tók verulega á axlavöðvana og eitthvað vill systir mín meina að ég hafi ekki leyft henni að leggja sig mikið á dýnunni en hún fékk að sjálfsögðu að njóta gjafarinnar með mér, ekki lætur maður herma upp á sig eigingirni í kærleiksmánuðinum, einhverra hluta vegna er ég samt með mun meiri harðsperrur í vinstri rasskinninni (séð mín megin frá) en hinni hægri sem hlýtur að teljast mjög sérkennilegt, ég þarf eitthvað fínstilla tæknina með þennan bolta

sunnudagur, 23. desember 2012

4.

þorláksmessumorgunn og ellibjé klippir rýtinga út úr pappakassanum utan af svínasteikinni sem amman fékk í jólagjöf frá sínum ágæta vinnustað, sláturfélagi suðurlands, þar sem hún gegnir því ábyrgðarhlutverki að (eins og ellibjé orðar það) ráða yfir öllum ss pylsum á landinu, vinsamlegast athugið að þegar ég segi amman á ég ekki við ömmu mína heldur ömmu hans ellabjé, þ.e. systur mína, sem líkt og afinn (aftur ekki minn heldur ella) hefur hætt að svara sínu rétta nafni og ég er ekki að ýkja neitt ofboðslega þegar ég lýg því að hún kvitti núorðið undir vísanóturnar sem „amman“ (hvað það gerir fyrir hjónabandið hjá fjörutíuogfjögurra ára gömlu fólki að kalla hvort annað ömmu og afa er ekki gott að segja og best að sleppa því bara að spyrja), í augnablikinu er amman þreytt enda vaknaði ellibjé og litla músin systir hans klukkan fjögur til að athuga með ferðir jólasveinsins, fjögur að morgni til er auðvitað ekki fótaferðatími fyrir nokkra einustu ömmu og í dag er líkast til ekki hægt skemmta sér við uppnefna konuna sem „ömmu hottie“ eins og stundum er gert (af fleirum en afanum) þó það megi kannski í staðinn notast við það viðurnefni sem hún hefur sjálf nýverið gefið sér: „amma grinch“, okkur systrum hefur gengið takmarkað að koma okkur í jólaskap enda þurftum við báðar að selja húsin okkar á árinu og jafnleiðinlegt og það er að viðurkenna það höfum við eytt megninu af aðventunni í að öfundast út í fólkið sem býr í gömlu húsunum okkar og hefur það mikið jólalegra og meira kósí en við í okkar nýja, þetta er auðvitað hvorki fallegt né kristilegt en okkur er bara alveg skítsama, maður getur ekki alltaf verið allraheilagastur, vonandi lagast þetta eitthvað örlítið á eftir þegar ellibjé dregur afann með sér útí köldugeymslu að sækja jólatréð en það er góður klukkutími frá því drengurinn fór að suða, hann er meira að segja búinn að klæða sig sjálfur og hendist um í sófanum með þennan leiðinda orm í rassinum sem gengur barna á milli á þessum árstíma, afinn aftur á móti er á náttbuxunum og virðist allur hinn pollrólegasti, ekki einn einasti ormur að plaga manninn, litlu músinni virðist standa nokk á sama um jólatréð enda er hún komin í glimmerskóna og sumir þurfa einfaldlega ekki meira, við amman þyrftum eitthvað mun meira en fyrir okkur liggur nú samt það niðurdrepandi verkefni að fara í bónus að versla maltöl og laufabrauð (muna líka eftir tannþræðinum) og já einhvers staðar þurfum við að finna eitt stykki gæs, okkur var bent á það í gær að þvert á það sem við höfðum áður haldið liggi svoleiðis ekki á glámbekk í matvörubúðum, hugsanlega þurfum við að verða okkur út um bráðabyssuleyfi og redda þessu sjálfar, kannski maður myndi hrökkva í jólagírinn við að plaffa niður eins og eina gæs ... nei afsakiði þetta er auðvitað of langt gengið 

sunnudagur, 16. desember 2012

3.

jólahlaðborðið hjá magnúsi í hádeginu hafði mig undir það sem eftir lifði dags og nú þegar klukkan er að ganga miðnætti er ég fyrst að koma til sjálfrar mín, samt er ég búin að eyða kvöldinu í að lesa veisla í farángrinum eftir hemingway í hreint undarlegri þýðingu hkl, sú bók er auðvitað mest um andlegt fóður þó nóg sé þar talað um mat og drykk, og parís auðvitað, hvenær ætlum við til parísar?

sunnudagur, 9. desember 2012

2.

ég ætla rétt að minnast á það að ég er að verða óeðlilega hrukkótt á enninu af því að lyfta brúnum í einlægri undrun minni yfir því að mér hefur ekki borist ein einasta samúðarkveðja vegna fráfalls litla spilarans, satt að segja blöskrar mér algjörlega tilfinningakuldi fólks nú til dags, en hvað um það, ég get ekki verið að velta mér upp úr svona hlutum núna þegar ríður á að vera í allraheilagasta skapi og í því samhengi er hugmyndin um þakklætið fyrirferðarmikil, stranglega bannað að gleyma þakklætinu, að því tilefni ætla ég að hafa sérstakt orð á því að ég var svo lygilega heppin í dag að fá að gjöf fulla krukku af nýbökuðum mömmukökum frá mömmu minni sem sjálf angaði eins og nýbakaðar mömmukökur, ég hafði fjársjóðinn með mér á vinnustofuna mína þar sem ég maulaði allt upp til agna og gætti þess vandlega að skilja ekki eftir neina mylsnu á gólfinu fyrir rotturæfilinn sem býr þar milli þylja og neitar að láta fanga sig í gildrur, nokkuð sem getur aðeins þýtt annað af tvennu: kvikindið er (líkt og aðrir leigjendur hússins) bókmenntasinnaður intelettúal sem fellur ekki fyrir heimskulegum brellum vitgrannra manna eða matgæðingur af bestu sort sem finnst það fyrir neðan virðingu sína að leggja sér til munns þennan úrgang sem settur er í gildrur meindýra, sambúð við rottu er kannski ekki það sem maður gæti helst hugsað sér yfir hátíðirnar og ég viðurkenni að hafa einu sinni eða tvisvar hlaupið veinandi út úr húsinu við það að heyra dýrið hlaupa ... höfum þetta nákvæmt og segjum hlussast yfir þylið í loftinu svo ég beið eftir að eitthvað léti undan þunganum og sitthvað miður geðslegt kæmi húrrandi niður á skrifborðið til mín, þetta er auðvitað hálf óyndislegt allt saman en í takt við hið allraheilagasta skap vil ég benda á að jólaljósin á ingólfstorgi – þangað sem ég sé út um skrifstofugluggann minn – eru sérdeilis falleg í ár, stundum held ég jafnvel að ég heyri í kirkjuklukkunum

föstudagur, 7. desember 2012

til huggunar

dauði á aðventu


kæru vinir, hér á síðunni hefur skelfilegur atburður átt sér stað, litli spilarinn er allur, litla bleika krúttið sem hefur tekið á móti hverjum þeim sem í sakleysi sínu hefur rambað inná þessa síðu er horfinn veg allrar veraldar og kemur aldrei aftur, yndislegu tónarnir hans munu ekki hugga okkur oftar á dögum þegar ekkert getur hlúð að viðkvæmum sálum nema tónlist, maður er sleginn og miður sín, hvað veldur? hvers vegna henda vondir hlutir gott fólk? eins og flest sem miður fer í veröldinni má rekja orsakirnar til skammsýni og gróðahyggju andstyggilegra manna, illa innrætt fólk í útlöndum gerði sér lítið fyrir og lokaði mixpod tónlistarsíðunni og samdi í kjölfarið við ónefnt stórfyrirtæki um að aðeins þeir sem eigi tiltekinn (rándýran) staðalbúnað – sem ég ætla ekki að auglýsa hér, það geri ég þessu fólki ekki til geðs – hafi aðgang að lagalistunum þeirra, rétt sí svona, eins og ekkert sé sjálfsagðara en að hafa tónlist af saklausu fólki sem gengur ekki annað til en að gera heiminn að örlítið bærilegri stað ... heimsins ráð sem brugga vondir menn segi ég nú bara og meina, svona fólk ætti að skammast sín 

sunnudagur, 2. desember 2012

1.

og þá er hann genginn í garð þessi indælis árstími þegar mitt helsta áhyggjuefni er hvort það sé örugglega nóg til af smjöri í ísskápnum, maður vaknar jafnvel upp á nóttunni, grípur andann á lofti: ætli mjólkursamsalan sé nokkuð að vanmeta smjörþörf þjóðarinnar yfir hátíðirnar? ætti ég að hamstra? best að hringja í fyrramálið og panta viðtal við framleiðslustjórann, maður verður að leggja sitt af mörkum til að byrgja brunninn, að jafnaði leiðist mér alveg jafnmikið og næsta manni að bíða en aðventan er þessi undantekning sem sannar regluna, aðventan er bið sem maður vill ekki að taki enda, sem betur fer hefur frelsarinn vit fyrir manni í þessu sem öðru og hefur biðina temmilega, mér reiknast svo til að hún mætti ekki vera deginum lengri, þá meina ég uppá smjörbirgðirnar