miðvikudagur, 31. október 2012

þráður slitnar, að taka upp þráðinn


finnst ykkur líka að nýji bat for lashes diskurinn sé það dásamlegasta sem þið hafið heyrt lengi? meira að segja dóttir mín er sammála, og eins gott að það er til almennileg tónlist á tímum eins og þessum þegar lítil kona hringsnýst í stofunni heima hjá sér sem bráðum verður ekki lengur heima hjá henni heldur heima hjá einhverju ókunnu fólki, hálfur heimurinn kominn ofan í kassa og lífið allt í einhvers konar limbói, ég er eitthvað meyr þessa dagana og þarf stundum að skríða undir sæng, ég ræddi þetta við sálarlækninn í dag og við ákváðum að það sé forgangsatriðið í viðsjárverðum heimi að bera höfuðið hátt og láta ekkert og engan segja sér að það sé neitt minna en stórbrotið að ganga um með ofvaxið hjarta í brjóstholinu, kærleikurinn er aðalatriðið, annað má mæta afgangi

mynd: ditte isager

mánudagur, 29. október 2012

hin klaufalega skepna


einn af kostunum við þá leiðindastöðu sem það annars er að vera afæta á heimili systur minnar (augljós kostur er vitaskuld sú dásemd að vera undir sama þaki og hún, látum það ótalið) er að morgunverðarskálarnar hennar eru töluvert stærri en mínar, ég drekk morgunkaffið mitt alltaf úr skál og nú get ég stækkað skammtinn um að minnsta kosti helming, skálarnar mínar samsvara líklega svona um það bil tveimur kaffibollum en hennar fara örugglega hátt í fjóra, samt segi ég fólki ótrauð að ég drekki bara einn bolla á dag, þetta er sjálfsblekking sem harðasti alkahólisti gæti verið stoltur af, mín elskulega systir og hennar afbragðs maður eru vel gert fólk og láta það vera að hæðast að mér við morgunverðarborðið, þeirra ríka gestgjafalund kemur sömuleiðis í veg fyrir að þau minnist á það sem er óþægilega augljóst, þ.e. að vera mín á heimilinu virðist ætla að hafa ýmislegt amalegt í för með sér fyrir fjölskylduna, hér ríkir einhvers konar þegjandi samkomulag um að líta í aðra átt og láta eins og ekkert sé þó vísbendingarnar séu óyggjandi og beinlínis hrópi nafn mitt á torgum; málið er að án þess að hafa beint ætlað mér það – þetta var í alvöru talað algjörlega ómeðvitað – virðist ég hafa lagt bölvun á sjónvarpið þeirra, í það minnsta gaf tækið upp öndina í fyrradag, algjörlega óforvarendis og án þess að hægt sé að finna á því neina skýringu aðra en þá sem liggur í augum uppi; altso nærvera mín, ég veit að ég þarf ekki að fjölyrða um hatur mitt á sjónvarpi, hér á síðunni má finna marga ljóta pósta um það samfélagsmein og öllum ætti að vera fullljóst hvaða kenndir bærast með mér gagnvart fjölmiðlum, sekt mín fer þannig ekki milli mála, mér þykir þetta leiðinlegt, þetta fer svo illa af stað að ég veit ekki hversu lengi mér verður stætt á að búa hérna, reyndar virðast allir tilbúnir til að gera gott úr þessu, svona er maður lánsamur, barnabörnin sættast á að leigja spólu fyrst enginn er barnatíminn og feðgarnir á heimilinu sjá ákveðna möguleika í þessu, elsku hjörtun hafa tekið upp þráðinn við að horfa á öll landsmót hestamanna frá upphafi veraldar til dagsins í dag en það þykir þeim einhver sú albesta afþreying sem hægt er að hugsa sér, það er ekki á færi leikra að skilja þetta, fjölskylda mín er afbrigðilega elsk að ferfættlingum og gildir þá sú regla að því stærri sem skepnan er því betra, gróflega mætti setja þetta þannig fram að velvild í garð dýra vaxi í beinu hlutfalli við ummál hægða þeirra og fyrirhafnarinnar sem það útheimtir að þrýfa í kringum þau ... kannski þetta skýri hvers vegna þau umbera mig, ég hafði ekki velt þessu fyrir mér, ég held alla vega að við munum komast í gegnum þetta

sunnudagur, 28. október 2012

stundum uppsker maður alls ekki því sem maður sáir heldur eitthvað allt annað


sunnudagur og ég er timbruð, sem er ömurlega ósanngjarnt því ég drakk mjög hóflega í gær, „best að fara varlega í vínið“ hugsaði ég, „ég þarf að gera svo mikið á morgun, verð að hafa hausinn í lagi,“ umræddur haus er ekki í lagi, ég hefði allt eins getað verið haugdrukkin, andskotinn, systir mín gerir sitt besta til að koma í mig verkjalyfjum en ég neita mér yfirleitt staðfastlega um pillur, þegar ég þjáist af líkamlegum verkjum sannfærir masókistinn í mér mig oftast um að ég eigi þá skilið og skuli þar af leiðandi bara láta mig hafa þetta, núna á ég þetta samt alls ekki skilið, hafði af mér þetta fína fyllerí og fæ það svona líka hressilega í hausinn, spurning um að svindla á þessu pillumottói 

sunnudagur, 21. október 2012

léttskýjað á köflum, hitastig stöðugt


var ég búin að minnast á að ég keypti mér nýja tölvu? ekki? nú jæja, ég keypti mér sem sagt nýja tölvu, og hún er dásemd, blaðþunn og lauflétt og herra minn það er sko hægt að spila músík í henni, og svo nægir næstum að hugsa m og þá skrifar hún m, dásemmmmmd segi ég! nú gæti ég auðvitað gert það sem flestir myndu gera sem er að fara mörgum fögrum orðum um upplausnina í skjánum og hratt vinnsluminni og eitthvað þess háttar sem ég veit ekki einu sinni almennilega hvað þýðir en ég ætla að láta mér nægja að koma sérstaklega inná þann fítus sem mér þykir hvað skemmtilegastur svo ekki sé minnst á hið hagnýta gildi, þ.e. fyrirbærið notes, ég veit að þetta notes er sjálfsagt algjört no news fyrir flesta en fyrir mig er þetta algjör bylting og ég nota það óspart, ekki til að minna mig á að kaupa hundamat eða annað í þá veruna, nei, heldur eingöngu til að punkta hjá mér ofurmikilvæg atriði, þið vitið, þetta sem skilur á milli lífs og ólífs, eins og „muna að vera almennileg manneskja“ og „beina ástinni inná við“ og „loka hinn stóra svarta hund út á palli og ekki opna þó hann gelti“, gott gott, annars hef ég verið svo hress síðastliðna viku að ég hef af því töluverðar áhyggjur, í mínum líkama er það að vera mjög hress líka ávísun á að vera allur uppí loft svona taugakerfislega séð og sofa lítið í samræmi við það sem undantekningarlaust endar með því að maður rennur all hressilega á rassgatið með allt heila klabbið (inn kemur hinn svarti hundur), best að reyna að hafa ekki af þessu of miklar áhyggjur, er meðan er og allt það, og það er hellingur að gleðjast yfir, til dæmis sú staðreynd að ég á svo gáfað og vel heppnað barn að ég verð kjaftstopp nánast í hvert skipti sem við tölum saman, ég er að lesa life of hunger eftir amelie nothomb sem mig er búið að langa svo lengi til að lesa og er algjörlega að standa undir væntingum, er ekki yndislegt þegar eitthvað stendur undir væntingum? ég er byrjuð að leigja mér dásamlegt vinnurými með elskulegu bekkjarfélögunum og líður eins og ég hafi eignast nýtt heimili, bekkjarfélagarnir gera að vísu óspart grín af blúndudúkunum og ilmkertunum og pottaplöntunum sem ég er búin að þekja skrifborðið mitt með en ég læt það sem vind um eyru þjóta, ég er pjattrófa og tildurdrós og fyrr skal ég dauð liggja en að hafa ljótt í kringum mig! það er svo aftur ákveðið áhyggjuefni að ég lét nýlega undan þrýstingi frá kröfuhörðu röddinni í höfðinu á mér sem sífrar stöðugt um að ég kynni mér möguleika vefsins tónlist.is, þetta gæti endað með gjaldþroti

laugardagur, 13. október 2012

hvað kom fyrir þetta blogg?

líkast til það sama og henti höfundinn, er eitthvað verra en að missa húmorinn? ég held ekki, húmorslaust fólk er beinlínis hættulegt, bæði sjálfu sér og öðrum, eðlilega vekur það mér því ugg í brjósti að heimsóknartíðnin hingað á síðuna hefur sjaldan verið meiri, það lítur út fyrir að fólk sé sjúkt í depurð og leiðindi og húmorsleysi, þetta er áhyggjuefni, ég sat í strætisvagninum í gærkvöldi eftir að hafa drukkið dáldið rauðvín á mímisbar með bekkjarfélögum mínum – en eftir þá fundi er fólk gjarnan ansi hátt uppi og þá meina ég ekki eingöngu sökum ölvunar – og hugsaði með mér að ef hægt væri að umbreyta átökunum sem eiga sér stað innra með manneskjunni í nýtilega orku – til dæmis rafmagn, það er alls ekki svo fjarstæðukennt – væri ég að öllum líkindum gífurlega eftirsótt uppspretta, ég hefði hreinlega ekki undan að svara símanum og láta tappa af mér, hugsa sér hvað það væri dásamlegt að geta fengið útrás fyrir alla togstreituna og sorgina og óuppfylltu langanirnar sem liggja eins og klístur innan á brjóstholinu og gera eitthvað virkilega praktíst í leiðinni; veita þúsundum manna ljós og yl, meira að segja jesú myndi leggja blessun sína yfir svona starfssemi, sem væri auðvitað ríkisrekin – ég er kommúnisti í hjarta mér, ég er að hugsa um að gauka þessari hugmynd að einhverjum hjá nýsköpunarmiðstöðinni eða einhverjum brjálæðislega gáfuðum eðlisfræðistúdent í háskólanum, hver veit kannski yrði ég tilnefnd til samfélagsverðlauna fréttablaðsins eða kosin mosfellingur ársins ef þetta gengi vel, mér er samt meinilla við fréttablaðið og hef faktíst ekki áhuga á að vera mosfellingur lengur þannig að ... æ ég veit það ekki, þetta er fyrst og fremst örvænting, gleymum þessu bara 

miðvikudagur, 3. október 2012

113 vælubíllinn (samt í einlægni)


ég sagði það við sálarlækninn nýlega að það eina sem ég þrái sé að vera raunverulega og algjörlega gagntekin af einhverju, að festa athyglina á það sem færir mig frá einum punkti til annars, athygli mín  vill festast í hringskýringum og spóla þar til eilífðarnóns, virkilega vont, ekki reyna þetta heima hjá ykkur, að vísu er geðheilbrigðið eitthvað að nálgast það ástand sem mér er kunnuglegt, þ.e. einhvers konar vasaútgáfu af maníudepressjón, að sveiflast – jafnvel milli klukkutíma – frá hörmulegri depurð og sorg yfir í glimrandi orku og gleði, ekki ákjósanlegt en þó skárra en þessi flata depurð sem hefur elt mig á röndum í marga mánuði og var að svipta mig þessum litlu geðsmunum sem ég hafði úr að spila, ég viðurkenni fúslega að ég hef eins ríka tilhneygingu til sjálfsvorkunar og næsti maður í röðinni við kassann í bónus, ég stend mig að því að spyrja drottinn (eins og heimtufrekur krakki í hagkaup á laugardegi): „af hverju ertu að senda mér allt þetta drasl þegar það er fyrirséð að mér mun ekki takast að flokka þetta almennilega (og mér er illa við drasl), ég er kennaramenntuð og veit að vænlegast er að kenna nemendum hlutina í smáskömmtum svo þeim finnist þeir ráða við verkefni sín, ekki slengja þeim á hnén í drullu og for og fylgjast svo með þeim brölta eins og afvelta pöddur í kviksyndinu,“ svona vælir maður, stundum alveg án þess að skammast sín, en satt að segja er auðvelt að tapa voninni þegar manni finnst maður vera að gera svo gott sem eins og maður getur, reynir að vera almennileg manneskja, stundar loftfirrta lotuþjálfum eins og sá vitfirrti hamstur sem maður er, étur ekkert nema morðdýrt ofurfæði, reynir að passa svefninn eftir bestu getu, hittir sálarlækninn, biður til guðs, und so weiter og ekkert gerist, vitundin er eilíflega klofin, hjartað marið og efinn lúrir við gagnaugað, ég bið um krít til að draga skýra línu, ekki hring, línu