miðvikudagur, 29. febrúar 2012

aukalega á aukadegi (af því stundum er meira meira)


mundu:

húmor
fegurð
nánd

árið sem hleypur (vonandi ekki í burtu)


aukadagur, heill aukadagur við þessa 365 sem maður fær vanalega, smá bónus frá tímanum fyrir skilyrðislausa hlíðni við klukkuna og lágmarksnöldur yfir því að við munum öll deyja, við erum búin að safna fyrir honum í heil þrjú ár og fengum töluverða sólarglætu í verðlaun þó hún hafi ekki alveg náð inn að beini, á maður ekki að gera eitthvað brjálað á svona degi? tryllast einhvern veginn, segja veruleikanum upp, kyssa fólk upp úr þurru og drekka lífið í sig í gegnum húðina, ætti þetta ekki að vera rauður dagur fyrst hann er svona úr karakter við almanakið? synd að hafa ekki staðið sig betur þegar úniversið tekur sig til af valinkunnum rausnaskap og stórmennsku og splæsir rétt sísvona í tuttuguogfjóra klukkutíma alveg ókeypis, ég þrammaði að vísu töluverðar vegalengdir undir berum himni og dáðist að (marvelled at) laufásveginum en andinn var engan veginn í hæstu hæðum, ég stend mig illa í að fagna lífinu (marvel at) þessa dagana og ég skammast mín, skammast mín virkilega, þetta tekur auðvitað engu tali og er engin hemja, óleyfilegt, verst að það er farið að snjóa, annars myndi ég fara út með stjörnukíkinn, mæna á tunglið og spyrja ráða, það myndi svara mér með stóískri og óskiljanlegri djúphygli, eða kannski var það að tala til mín í morgun þegar ég var minnt á að aukreitis við grunntilfinningarnar sex: ást, ótta, sorg, reiði, andstyggð og hamingju býr maðurinn yfir þeirri sjöundu sem trónir hugsanlega (að mínu mati) ofar öllu öðru; löngun, ekkert er mannlegu ástandi jafnmikilvægt og löngun, ef maður finnur ekki til löngunar er maður dauður, ég var sömuleiðis minnt á ensku sögnina to marvel sem er algjörlega mín uppáhalds ásamt systurorði hennar the marvellous, hvað ef ekki hið undursamlega? hvað ef ekki að dást að hinu undursamlega? hvað þá? hefur maður þá ekki tapað allri löngun? og er þá andlega dauður ... 

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

sólskinsfíflið


ef tíminn þessi stjórnlausa skepna gæti bara hagað sér eins og sæmilega vel uppalinn maður og séð mig í friði annað veifið væri það ofsalega vel þegið, verkefnavika háskólans nánast búin og einu verkefnin sem ég hef komið mér í eru nokkur vesæl ljóð, jafn óttaslegin og ég var við þennan ljóðakúrs er ég skyndilega að verða mjög sólgin í ljóðaskrif, það er einhver hrikaleg losun í því að leyfa sér að skrifa ljóð þó manni finnist maður næstum vera landráðskona og stórglæpakvendi fyrir vikið, fólk á ekki að fíflast með ljóð, hvað myndi jónas segja? ég hvessi bara augun á tölvuskjáinn og læt eins og jónas sé ekki til, alla vega ekki nema sem útlendingur sem á heima langt í burtu í útlöndum og talar alls enga íslensku, það er alveg þess virði, að leyfa sér að skrifa ljóð er svipað og að hlaupa sig örmagna með góða tónlist í eyrunum, mjög einhvern veginn ... uppfyllandi ... er það sögn? jónas? þvert á alla skynsemi hef ég tvívegis á síðustu dögum látið náttúruelementin hafa mig að spotti og trúað því að nú sé ekki um að villast, það sé komið vor, (fáviti), einmitt já, tími tálvona og hinna endurteknu vonbrigða er genginn í garð og ár eftir ár lætur fíflið ég glepjast af hverjum einasta sólargeisla sem leggur sig á stofugólfinu á þessum árstíma, hendi mér í hlýrabolinn (eins og í gær) alveg að brjálast úr bjartsýni, opna út á pall og pússa gluggana eins og berserkur með moloko í botni (sem faktíst á ekki að spila fyrr en eftir fyrsta maí), kíki eftir blómapottum og hreinsa upp dauð lauf, það hættir aldrei að koma mér á óvart hvað ég get verið ótrúlega leiðitöm og auðtrúa, í dag er ég svo í massívri fílu og ætla ekki út fyrir hússins dyr sama hvað hundurinn vælir, ég ætla að liggja uppí sófa og klára jójó hennar steinunnar sigurðar og elda svo túnfisk- og grænmetislasagna með mikið af ólívum og kapers í kvöldmat, og til að svara spurningunum tveimur sem vakna við þessa síðustu setningu: já lasagnað mitt er brjálæðislega gott og já jójó er besta bók steinunnar

föstudagur, 17. febrúar 2012

dádýrið í framljósunum

hálf-vitundarlaus og hríðskjálfandi konulíkami æðir út á fjölfarna umferðargötu í veg fyrir lögreglubíl sem til allrar lukku keyrir á hófstilltum hraða og nær að hemla áður en bláar gallabuxur, mynstruð lopapeysa og lillablá úlpa verða að tvívíðri mynd á blautu malbikinu, neil young syngur um leitina að gullhjartanu þegar tvö þanin augu stara innum framrúðuna á bifreiðinni og mæta öðrum fjórum sem öll senda frá sér þögla áminningu um að í siðmenntuðum samfélögum tíðkist að loka fólk inni teljist það sjálfu sér og umhverfi sínu hættulegt, meðvitundin sogast inní líkamann, konuhindin stekkur inná gangstéttina og hraðar sér í átt að háskóla íslands með hinu séríslenska lagi; „og setur undir sig hausinn“ um leið og hún vefur handleggjunum fastar utan um handtösku úttroðna af ljóðabókum og stætisvagnanasli, veröldin er viðsjárverður staður þó manneskjan brynji sig með bæði lopa og tónlist, aldrei of varlega farið

mynd: catherine campbell

laugardagur, 11. febrúar 2012

hjartans guð


mér er fullkomlega ljóst að það er engin afsökun fyrir því að tapa húmornum, ég veit líka að ég ætti að skammast mín fyrir að gleyma þeirri augljósu staðreynd að upphaflega skapaðir þú líkama mannsins til að gera honum kleift að færa sig um rýmið í dansi, sömuleiðis viðurkenni ég að það er hinn lúalegasti bleyðuskapur að forðast skriftir og selja sér þá hugmynd að maður hafi bara enga löngun í sér lengur til að setja niður staf af því lífið sé of flókið til fanga það í orð, fyrir þetta bið ég þig að fyrirgefa mér, ég bið þig líka um að fyrirgefa mér fyrir að hrasa í enn eitt skiptið í þá lúmsku gildru hugleysisins sem býður manni að kenna lífinu um alla hluti, lífið er auðvitað ekki flókið, það er manneskjan sem býr til úr því teygjutvist og flækir það út í hið óleysanlega, er það ekki einmitt hámark stjórnseminnar kæri guð, að telja sér ekki sjálfrátt? og er það ekki skýrt teikn um að hjartað hafi oltið útbyrgðis þegar maður gengur inní strætó og ætlar sér að borga með húslyklum? ég veit að sumt hefur ferðast til mín um langan veg og ég veit að fólk á ekki að ganga um með svona mikinn farangur, klifjað fólk er hvergi vinsælt, það tekur of mikið af plássi annarra, ég vildi að ég gæti beðið þig um taka eitthvað af þessu frá mér en líklega verð ég sjálf að finna þessu einhvern stað, að trúa því að það takist er að treysta þér, og þú veist að þar er ég á hælum akkílesar, eins og einhvern tíman þarna í upphafi þegar frumurnar skiptu sér hafi eitthvað farið svo kyrfilega í tvennt að það grói aldrei um heilt, samt veistu hvað ég er veik fyrir frelsaranum og upprisunni, að nýr dagur sé regluleg áminning um óumflýjanlegt kraftaverk, að það geti ekki öðruvísi verið