fimmtudagur, 29. desember 2011

langt í burtu

stundum þegar maður fer á fætur í myrkri, trén fyrir utan búin að fenna í kaf og göturnar tómar og hljóðlátar, er næstum því ómögulegt að trúa því að einhvers staðar þarna úti sé heimur sem snýst, fólk að bíða á umferðarljósum, opna hurðar, hrasa á gangstéttum, taka strætó, gleyma skiptimiðanum, á slíkum morgnum er eins og húsið manns sé eina húsið í veröldinni  

miðvikudagur, 28. desember 2011

veimiltítan með vömbina

eftir að hafa glímt við þessi dæmigerðu hátíðarvandamál síðustu daga – eins og lúffuputta, hjartsláttartruflanir og hryllilega hæga meltingu – fór ég á fætur í morgun og sór þess eið að borða ekkert nema gufusoðinn fisk fram að næstu jólum (í augnablikinu er ég reyndar að borða dáldið af laufabrauði en það er næstum ekki neitt, bara smá flís, næstum því ósýnileg), ég er argasti aumingi þegar það kemur að óhóflegu áti og má eiginlega ekki leyfa mér nokkurn skapaðan hlut öðruvísi en að borga tífalt fyrir það með slíkum kvölum og slappleika að það er á mörkunum að mér finnist þetta fyrirhafnarinnar virði, ég er kannski búin að gíra mig upp í ofsalegt sukk og alls konar óhóf, kaupa allt mögulegt og troða ísskápinn svo út að ég þarf að beyta allri minni rýmisgreind til að geta lokað honum en svo þegar til kastanna kemur og átið á að hefjast kem ég andskotann engu að ráði niður og oftar en ekki ratar megnið af matnum í ruslið eða í dall hundsins, viljinn er sem sagt alveg til staðar, það skortir bara dáldið á getuna, með öðrum orðum er andinn sterkur en holdið veikt, holdið vill líka verða meira um sig þegar maður borðar konfekt í morgunmat og hangikjöt milli mála, staðan er þannig að mér sýnist ég komin með aðkenningu að vömb og það þykir mér leiðinlegt, þess vegna flýtti ég mér í leikfimi í morgun þar sem ég rakst á manninn sem þessi kvöldin malar mig í svefn; engilblíðan jón kalman skáld og stórhlaupara (alveg vambarlausan), í leikfimisalnum var töluvert af sveittu fólki en þó enginn jafnsveittur og við jón sem djöflaðist svo á einhverju þoltæki fyrir aftan mig að mér varð hálf partinn um og ó, enn jók á furðu mína þegar maðurinn fór að teygja á og það verður að segjast eins og er að skáldið er lygilega liðugt og ekkert venjulega af karlmanni þykir mér, sjálf er ég með ansi hreint sveigjanlegan skrokk og ég gat ekki annað en hugsað að það væri nú aldeilis gaman ef við jón ættum eitthvað meira sameiginlegt en vel teygðan gluteus maximus, eins og tildæmis að vera bæði skáld, en það er auðvitað ekki þannig, jón er skáld, ég er amatör ... hann kemst samt ekki í splitt    

laugardagur, 24. desember 2011

ó dýrð í hæstu hæðum


þér fallega manneskjuögn sem og úniversinu í heild sinni sendi ég tendraða jólakveðju með ljósbylgjunum, konfekt og kærleikur, alheimsást

fimmtudagur, 22. desember 2011

mother christmas is behind schedule, i must away


enn einu sinni er það leitarorðið tartalettur sem leiðir flesta inn á þessa síðu og hefur meira að segja all nokkra tölfræðilega yfirburði yfir orðið nekt sem er þó alltaf á topp þrem sama hvaða árstíð er, á þessum árstíma eru tartalettur auðvitað sérlega ofarlega í huga fólks og því kemur þetta svo sem ekki á óvart en það er ekki laust við að ég hafi ögn slæma samvisku yfir því að fólk sé að fara erindisleysu inná þessa síðu núna þegar tíminn er af skornum skammti hjá flestum og alltof mikið við hann að gera, ef þú sem lest þetta ert að leita þér að uppskrift að tartalettum þá bið ég þig innilegrar afsökunar á því að hafa lokkað þig hingað inn á fölskum forsendum, ég hef ekki hugmynd um hvernig maður býr til tartalettur, ég elska bara að borða þær, hér eru heldur engar myndir af tartalettum, það er ekki nógu mikið glimmer í þeim til að ég geti réttlætt slíka myndbirtingu núna rétt fyrir jól, en hvað dundar maður við annað en auðvirðulega blekkingaleiki um hvað megi lesa á þessu bloggi ... svei mér þá ég bara veit það ekki, jú eitthvað hef ég gert af því að versla jólaskraut fyrir upphæðir sem ég mun aldrei, ég endurtek aldrei, deila með manninum mínum, fólk getur bundið mig niður, plokkað af mér táneglurnar og spilað celine dion á hæsta styrk eða hvað það er sem yfirleitt er gert til að pína svör upp úr fólki, ég hef með sértstökum djúpsálfræðilegum sjáflssefjunaraðferðum gleymt upphæðinni og mun aldrei getað ljóstrað henni upp, eitthvað hef ég líka gert af því ræða þyngdaraukningu hundsins míns bæði við hann sjálfan og aðra, dýrið hefur fitnað leiðinlega mikið í desember og ég útskýrði fyrir honum að ef við tökum ekki í taumana geti þetta orðið varanlegt vandamál, við fórum yfir nokkrar af ástæðum þess að hundar fitni, eins og til dæmis að aukabitar sem hundur stelur af eldhúsborði – harðfiskur, smákökur, brauðskorpur – í bland við það að hreyfa sig ekki á hverjum degi eru algengustu orsakir þess að maður fái björgunarhring og verði mikill um afturendann, dýrið vill lítið ræða þetta, lítur undan og gengur jafnvel svo langt að beina athygli minni að einhverju öðru með því að sýna óþekkt og vera með stæla, ég verð að segja að ég hef áhyggjur, einhvers staðar innra með mér grunar mig að ég eigi að vera mjög stressuð yfir einhverju, hugsanlega því að það eru jól ekki á morgun heldur hinn og ég ekki búin að gera nánast neitt til tryggja að sá atburður gangi fyrir sig með þeim hætti sem fólk gerir almennt kröfu um – þ.e. að börn fái gjafir og þess háttar, kannski að ég rjúki, bless

sunnudagur, 18. desember 2011

fjórði

englaspilið snýst hring eftir hring yfir kertalogunum ekki ósvipað og ellibjé gerði upp í rúmi fyrir nokkru og olli okkur litlu músinni töluverðri sjóriðu, ellibjé er frænkubetrungur í morgunfjöri og þó hann þyrði ekki annað en að hlýða og halda sig í rúminu þegar hann spratt upp klukkan sex í morgun kostaði það meiri sjálfstjórn en lítill maður hefur yfir að búa – skórinn út í glugga í næsta herbergi og svona – og fyrir vikið hentist hann kveinandi enda á milli í rúminu eins og óður tarfur svo lá við slysum og skemmdum á innanstokksmunum, til allrar guðs lukku hafði jólasveinninn sett vatnsliti í skóinn en litir, skæri og lím virka betur en nokkur dáleiðslumeðferð á bola litla og ég gat lagt mig aftur, ekki að það hafi verið leiðinlegt að fara fram úr, herra minn himinhár langt því frá, í eldhúsinu beið piparkökuhúsið sem husband eyddi gærkvöldinu í að skreyta og ég gæti hreinlega hugsað mér að flytja inní, húsið er svo rúmgott og háreist að þar mætti hæglega koma fyrir rólu í risinu og að minnsta kosti þremur hundum í stofunni, franskir gluggahlerar og strompur og ég veit ekki hvað og hvað og hugsa sér ilminn sem leggur um húsið þegar kveikt er upp í arninum, mitt hlutverk nú þegar húsið er risið er svo að planta dáldið af greni í garðinum því það hefur enginn áhuga á að hafa fréttablaðið sem undirlag á flötinni sinni, kveikja svo á kerti á tröppunum og láta snjóa vel yfir grenið, kannski ég finni mér nokkur hreindýr í dag, mér hefur alltaf fundist ég þessi gerð manneskju sem hefur hreindýr í garðinum hjá sér  

þriðjudagur, 13. desember 2011

þriðji


hef nú skilað af mér lokamöppum í öllum fögum og þar með klárað mína fyrstu önn í grafalvarlegu mastersnámi sem ég vil nú kalla fagurskrif en ekki ritlist, einhvern veginn hefur manni verið svo rækilega innrætt að rithöfundar séu svo alvarlegt og djúpþenkjandi fólk að ég er sannfærð um að ég geti aldrei tilheyrt þeirri stétt en fagurskrifari er starfsheiti sem ég gæti vel fellt við mig

einhver (kannski sessunautur í matarboði): „halló“ 
ég: „halló“
einhver: „bla bla bla“
ég: „bla bla bla“

smá þögn

einhver: „hvað gerir þú?“
ég: „ég er fagurskrifari“

smá þögn

einhver (nú skrítinn á svipinn): „já ... það er nefninlega það“

mest undrar mig að þrátt fyrir að mér hafi liðið eins og hvítvoðungi í frjálsu falli síðustu þrjá mánuði séu allir útlimir á sínum stað og höfuðið óskaddað þó enn eimi eftir af óreglulegum hjartslætti og allt of hröðum andardrætti, ég er að hugsa um að láta prenta fyrir mig stuttermaboli með áletruninni: ég lifði af, ... og þó ég á ljóðakúrsinn eftir á næstu önn, best að hreikja sér ekki of snemma, áfanganum fagnaði ég í fyrsta lagi í frábæru jólapartýi með mínum fellow fagurskrifurum og hef í kjölfarið nóterað hjá mér að fjárfesta hið fyrsta í eins og einu ukulele því einhvern veginn er það hljóðfæri þeim galdri gætt að gera alla hluti skemmtilegri og fólk í leiðinni, mitt næsta verk var svo að baka spikfeitar súkkulaðismákökur sem ég skammast mín fyrir að viðurkenna að enduðu svo gott sem allar í mínum eigin maga, í gær voru skyndilega óhugnalega fáar kökur eftir á disknum og mér ofbauð svo svínslegt sukkið á mér að ég henti þeim í ruslið og sullaði uppþvottalegi yfir allt saman, hvað get ég sagt, maður er ekkert nema breisk manneskja og gerir ekki alltaf skynsamlega hluti, til marks um það er ég að hugleiða að baka nýja uppskrift í dag, gæti einhver hringt á fólkið í hvítu sloppunum?   

mánudagur, 5. desember 2011

annar

að hengja upp jólaljós og smekkfylla hýbíli sín af greni og könglum er beinlínis heilandi athöfn, eftir að hafa verið lokuð inni með tölvunni minni, orðunum mínum og því ömurlega fyrirbæri ritvinnsluforritinu word (hvernig í andskotanum varð einhver skrilljarðamæringur á því að hanna þetta rusl???) í fleiri daga en nokkurri konu er hollt, tók ég mér ótrúlega verðskuldað - að eigin mati alla vega - frí yfir helgina og sleppti gjörsamlega fram af mér beislinu við að umbylta heimilinu í hreiður fyrir jólaálfa, ég vil ekki hljóma eins og eitthvert monthæns en það er einfaldlega staðreynd að þegar þessi kona hérna fær í hendurnar greni og glitrandi glingur þá bara gerast hlutir! þeir ganga kannski ekki alveg slysalaust fyrir sig, maður er sjálfum sér auðvitað stórhættulegur með þessar greniklippur og fínhreyfingarnar svona í slappari kanntinum en ég hef alla vega vit á að senda heimilisfólkið að heiman á meðan svo ég slasi ekki aðra en sjálfa mig, þegar mér liggur mikið á og er öll einhvern veginn upp í lofti af spenningi á ég það til að handfjatla alla hluti eins og þeir séu brennheitir og missa þá þar af leiðandi stöðugt út úr höndunum og á mínar beinaberu ristar, klaufagangur er hugsanlega mitt helsta sérkenni og ástæðan fyrir því að næst á eftir rökfræðingum eru iðjuþjálfar líklega það fólk sem ég myndi síst vilja mæta í myrkri, en allt í góðu, maður bítur bara á jaxlinn, lætur sig hafa það og bölvar í hljóði svo jesúbarninu bregði ekki, ég er ekki manneskja sem lætur marðar ristar og sundurstungna fingurgóma stöðva sig í baráttunni fyrir fallegri heimi, allt fyrir fegurðina, það er heilög skylda mín og ég mun hvergi hlífa mér!