laugardagur, 30. apríl 2011

um veður sem fer árstíðavillt og konur sem kunna sig ekki


fyrir utan gluggann minn á sér ýmislegt stað sem gjörsamlega ofbýður umburðarlyndi mínu, samt lét ég það eftir hundinum að fara út að hlaupa og missti fyrir vikið næstum sjón á báðum augum þegar tröllvaxin snjókorn réðust í hundraðatali á óvarin augu mín, ég reyndi blindhlaup en komst að því að það er stórhættulegt, jafnvel á beinum kafla og þó maður sé með hund með sér.......  eða kannski sérstaklega þegar maður er með hund með sér, ég komst við illan leik heim til mín og fann nokkra hugarró við uppvaskið þó ekki gengi allt eftir í þeim efnum því ég fór fljótt að finna til hungurs, í ísskápnum reyndist fátt um góðan kost en ég er lítið fyrir dijon sinnep með engiferrót og worchestersósu þó mér finnist dijon sinnep ekki vont per se, einhvern veginn er það þannig að fátt æsir jafn ofboðslega upp í manni hungrið og vitneskjan um að nærumhverfi manns sé gersneytt öllu ætu, eðlilega var ég því fljótlega orðin algjörlega viðþolslaus af löngun í allt mögulegt matarkyns sem ég var sorglega meðvituð um að fyrirfinndist víða milli himins og jarðar á þessu andartaki þó ekki væri það tiltækt í mínum eigin ísskáp, sem gefur að skilja var því voðinn vís þegar ég nokkru síðar settist við borðstofuborðið heima hjá mömmu minni sem hún hafði af sinni rómuðu eldhússnilld þakið með eintómum unaði, þar á meðal guðdómlegri sítrónumarenstertu sem ég viðurkenni að hafa borðað dónalega mikið af og ætti eiginlega að  skammast mín, mamma er alveg hætt að banna mér að leggjast á eina sort og ekki getur maður alltaf verið að hafa vit fyrir sjálfum sér, alla vega ekki þegar maður er svona svangur og illt í augunum eftir árásargjarna snjókomu daginn fyrir fyrsta maí   

mánudagur, 25. apríl 2011

beauty in the mundane (það er mitt hösl)

mér finnst eitthvað hrikalega fyndið við það að flestir rambi hingað inná þessa síðu í gegnum leitarorðin "tartalettur með hangikjöti", fast þar á eftir kemur orðið "skenkur", dásamlegt

sunnudagur, 24. apríl 2011

gleðilega páska

njótið magakvalanna

laugardagur, 23. apríl 2011

maður er alveg til hliðar við sig

ég steingleymdi að óska fólki gleðilegs sumars, ég steingleymdi líka að gefa barninu sumargjöf, reyndar steingleymdi ég sumardeginum fyrsta í heild sinni með húllahringjum og öllu, ekki það að mér finnist yfirvofandi árstíðarskipti svo ofboðslega framandi og ósennileg að þau nái hreinlega ekki inní vitund mína, langt í frá því ég er löngu búin að ákveða að það sé að koma sumar, ég ákvað það einhvern tímann í mars svo þetta kemur mér ekkert á óvart, það sem flækti málið og orsakaði minnisleysið mitt var þessi óvenjulegi samruni sumarkomunnar og skírdags, svona varíasjónir eru aðeins meira en litla höfuðið mitt ræður við og af því að ég er jesústelpa af guðs náð þá var hugur minn auðvitað allur við skírdaginn og syndaaflausnina en ekki húllahringi og sippubönd, minnisglöp mín virðast reyndar ekki ríða við einteyming því mér láðist að fasta í gær á föstudaginn langa þó ég vilji svo til alfarið skrifa það á systkini mín sem píndu mig til að drekka rauðvín og troða svínalundir út af osti og kryddjurtum, ég veit ekki hvort þetta gæti verið verra, ekki nóg með að maður vanvirði föstuna heldur velur í þokkabót að éta svín, best að koma lambinu í marineringuna og reyna að gleyma þessu


............já og gleðilegt sumar

þriðjudagur, 19. apríl 2011

síðdegis


vatnið sýður, ég flýti mér að slökkva á hellunni og helli varlega úr pottinum í tebollann, stend smástund yfir bollanum og fylgist með litnum sem breiðir úr sér útfrá tepokanum, fyrst er hann fölbleikur en dökknar hratt  yfir í rósrautt, ilmurinn samt þrungnari af sætri vanillu en rósarblöðum, textinn utan á umbúðunum lofar því að teið komi streittum konum í jafnvægi sem ég vona að gangi eftir því einhverra hluta vegna er ég skyndilega gripin einhverri ólund, hugsanlega stafar ergelsi mitt af því að ég var að klára wuthering heights sem gjarnan er titluð mesta ástarsaga allra tíma (meðal annars af manninum sem seldi mér hana) og um það ætla ég það eitt að segja að þetta var nú meira andskotans antíklímaxið, ég sýp á teinu og mislíkar ekki bragðið þó mér finnist gyllti miðinn á pakkanum sem vottar að þetta te hafi fengið "great taste award" allnokkuð oflof, ég ákveð samt að staldra ekki frekar við það heldur set tamari ristaðar möndlur og trönuber í skál því ég á það skilið að gera vel við mig, ergelsið magnast upp í mér því auðvitað hefði ég kosið bita af eftirlætis svarta chilli súkkulaðinu mínu með tebollanum en hagkaup snuðaðið mig um það í fyrradag, "allt búið, því miður" sagði afgreiðslustúlkan eins og þetta væri ósköp smávægilegt og ég skyldi bara kaupa eitthvað annað í staðinn, sumu fólki lærist augljóslega seint að greina á milli aðal- og aukaatriða! ég klára tebollann og fæ mér rauðvín í staðinn (allt hagkaupum og þessari kassadömu að kenna) og við það gufar megnið af ólundinni upp, ég kveiki á víðsjá og hugsa með mér að allt verði gott aftur þegar ég byrja á sýrópsmánanum eftir eirík guðmundsson sem lætur einmitt móðan mása í víðsjá í augnablikinu á milli þess sem hann spilar jassmúsík, eiríkur er kannski ekki með neinn gylltan miða í skyrtukraganum sem segir "great words award" en ég efast ekki um að ef svo væri stæði hann betur undir því en teið undir sínum miða, í þessu birtist husband í gættinni með meira rauðvín, ég kyssi hann á skeggið og ákveð að búa sem fyrst til gylltan miða handa honum sem á stendur "great husband award", finn ost í ískápnum og allt í einu er ólundin með öllu horfin

mánudagur, 18. apríl 2011

um mikilvægi þess að vanda valið á því sem maður veitir athygli sína

ég held að svona almennt séð - ég er alls ekki með neinn sérstakan í huga heldur fólk yfirleitt - þá eyði fólk ekki nærri því nægum tíma inn á ted, sjálf er ég tedfíkill og þetta er eina síðan sem ég get hangið á útí eitt án þess að finnast ég hafa sólundað tíma mínum í eitthvað sem geri mig ekki ríkari að innan á eftir, í dag er ég búin að horfa á jamie oliver tala um skólamötuneyti og hnignun í matarmenningu vesturlanda, ástríðufullan félagsfræðing útlista niðurstöður rannsóknar sem hún gerði á nánd og tengslum, nígerískt skáld fjalla um mikilvægi sagna í mótun sjálfsmyndar og síðast en ekki síst stórkostlega hugvitssamar konur sem báðar reka lítil fyrirtæki byggð á risavaxinni hugsjón, önnur heldur úti síðu sem lánar fólki í þróunarlöndum litlar fjárhæðir til að koma á fót einhvers konar rekstri sem það getur byggt sér framtíð á og hin er hönnuður búsett í pínulitlum bæ í bandaríkjunum sem er óðum að hverfa sökum fátæktar og vegna þess að allt unga fólkið flytur burt því það fær enga vinnu við hæfi (vestfirðir einhver!), til að sporna við þessari þróun tók hún uppá að kenna hönnun og arkitektúr í gagnfræðaskóla bæjarins og beintengja það nám við uppbyggingu á hvoru tveggja skólasvæðinu og bænum sjálfum, tilgangurinn er  að auka gæði menntunar og innvinkla um leið unga fólkið í verkefni sem tengir það betur umhverfi sínu og sem bæði það sjálft og samfélagið græðir á, hvílík hugvitssemi! fólk er nefninlega svo frábært og innspírandi þó stundum finnist manni allt benda til hins gangstæða, vandinn er að í þessum heimi er það alltof oft þannig að sá sem talar hæst fær flesta til að hlusta og því miður virðist það vera ófrávíkjanleg alheimsregla að sá sem sækist eftir því að tala hæst sé mesta fíflið, það er eiginlega alveg gefið, ég held að heimurinn yrði betri ef við hlustuðum meira á þá sem nota bara inniröddina.......eða það sem best væri, þá sem hvísla

miðvikudagur, 13. apríl 2011

bráðum

eldhúsklukkan er stopp á tvær mínútur yfir átta en samt verð ég að halda áfram að mæta í vinnu og reka á eftir barninu og ná í búðina fyrir lokun, sem ergir mig ekkert að ráði því eftir tvo sólarhringa verð ég komin í páskafrí og get hagað mér eins og ég sé yfirmaður tímans en ekki öfugt, ég ætla fyrst og fremst að lesa, ég er ekki ennþá komin í gegnum búnkann sem ég keypti á bókamarkaðnum og efstur í þeim búnka er gyrðir hinn dásamlegi, hver þarf páskaegg þegar hann hefur gyrði og getur hangsað eins lengi yfir morgunkaffinu og honum lystir, engir nema heimtufrekir held ég

mynd: hulaseventy

sunnudagur, 10. apríl 2011

horfðu!




í alvöru horfðu! sérstaklega ef þú ert kennari eða átt barn sem finnst leiðinlegt í skólanum eða ert heltekinn af þeirri hugmynd að þú sért ekkert sérstaklega klár

horfðu!

föstudagur, 8. apríl 2011

teprulega kennslukonan

aumar tær og þreyta í mínum kroppi eftir árshátíð elskulegu nemendanna í gærkvöldi, plötusnúðurinn sem þykir sá smartasti í bransanum tryllti uppábúin börnin með sóðalegri poppmúsík þar sem meira fór fyrir stunuhljóðum og dónaskap en hljóðfæraleik, ég horfði á nýfermda sakleysingjana dansa tryllt í sparifötunum sínum við söng hins afar ógeðþekka iglesias yngri (hryllilegur maður, af hverju gerir hann ekki eitthvað í þessu með þennan fæðingarblett?!) og fannst eitthvað ömurlega bogið við þetta, ég hugleiddi að vaða uppá sviðið og draga þennan skífuþeyti á eyrunum inná skrifstofu hjá skólastjóranum og veita honum smá tiltal, hóta jafnvel að hringja í mömmu hans og ræða það við hana hvort henni finnist allt í lagi að sonur hennar sé að spila klámmúsík og kvenfyrirlitningarrapp fyrir börn útí bæ sem varla eru búin að kyngja messuvíninu! ég gugnaði samt á þessu þegar ég sá fyrir mér að verða kosin óvinsælasti kennarinn á útskriftinni í vor, ég hlýt að vera orðin svona ofboðslega gömul, stundum hef ég til dæmis verið komin á fremsta hlunn með að spyrja mér meiri skvísur - í sakleysi mínu og kellingaskap - hvort þessi flík sem þær klæðist sé virkilega pils........ eða bara belti?

mynd: jen gotch

mánudagur, 4. apríl 2011

upp upp mín sál

þó bleiku fjaðraeyrnalokkarnir sem rötuðu til mín á laugardaginn ættu að koma mér hálfa leiðina til himna sitja spikfeitir kvíðapúkar á hugsunum mínum og hefta för, þeir virðast éta blý í öll mál og engin leið að fá þeim haggað, ég fínkembi vopnabúrið og brúka öll tiltæk tól, mest hið óbrigðula ráð að halda sér mjög, mjög uppteknum, sem til lengdar hefur reyndar þann ókost að gera mann hryllilega þreyttan, maður er ekki próduktívur þegar maður er þreyttur, og ekki hugaður heldur, kannski sofna þessir feitu skrattar líka ef ég bara hvíli mig aðeins, þá skelli ég fjaðralokkunum í mig og tekst á loft, hátt hátt þangað sem allt er mögulegt