mánudagur, 31. janúar 2011

jæja

nú bara verður eitthvað að fara að gerast í heimabankanum....... og ísskápnum

föstudagur, 28. janúar 2011

þegar maður telur sig hafa séð allt

stundum er maður nú bara alveg sleginn út af laginu, þetta er allt svo asnalegt að ég fæ mig varla til að tala um það en samt er ég svo yfir mig undrandi að ég fæ ekki orða bundist, nauðsynlegur formáli að þessum texta er að ég á bróður sem er mikið afbragðs eintak af manneskju þó hann sé þeim fáránlega galla gæddur að hafa slíkan viðbjóð á agúrkum að hann segist ekki þurfa nema finna af þeim lyktina þá verði honum mál að kasta upp, ég veit ég veit nú spyr fólk sig alveg stúmm "bíddu er lykt af gúrkum?" og "hvers konar fólki býður við gúrkum?", sjálf hef ég fullan skilning á að fólki geti fundist ýmislegt ógeðslegt eins og ansjósur og sushi jafnvel og já meira að segja ólívur þó ég sé því ekki sammála en í almáttugs bænum gúrkur! ég meina er hægt að finna meinlausari meðlim innan grænmetisfjölskyldunnar? ég hef - eins og fólki finnst vonandi skiljanlegt - alltaf gert afar lítið úr þessu röfli bróður míns og sagt honum að hætta þessu helvítis miðjubarnsvæli, hann sé bara reyna að draga að sér athygli og vera með vesen, það sé varla bragð af gúrkum hvað þá lykt! hvort hann haldi virkilega að hann sé með svo ofboðslega spes, hárnákvæm og ofurnæm skynfæri að hann greini einhver hárfín blæbrigði í lykt og bragði sem við hin séum bara ekki nógu þróuð til að finna, svona hef ég djöflast í manninum ekkert nema hrokinn og yfirlætið og ekki efast í kvartsekúndu um að ég hafi allt til míns máls en hann ekkert, mér hefur fundist þetta svo mikil þvæla að ég hef reglulega steingleymt þessum dintum hans og boðið honum uppá indverskan mat með æðislegu raita sem ég bý til úr - vel að merkja - nánast engu nema gúrkum, en það er auðvitað alveg dæmigert þegar maður er svona viss á sinni sök að þá rennur maður á rassgatið með allt heila klabbið og finnur sig í einhverjum afar óþægilegum aðstæðum, málið er að nýlega færði indæli húsvörðurinn í vinnunni minni mér ilmkerti til hafa í skólastofunni minni, skólastofan mín lyktar eins og myglusveppur og húsvörðurinn var svo sniðugur að taka upp á því að hafa alltaf kveikt á ilmkerti til að gera þetta bærilegra, hingað til hafa kertin öll verið með vanilluilmi sem ég ef mikinn unað af, dásemd dásemd, en síðast þegar húsvörðurinn fór í búðina til að kaupa kerti voru vanillukertin ekki til, svo hann keypti annars konar kerti, gúrkukerti, og vill þá kannski einhver segja mér hver í veröldinn tekur uppá því að framleiða agúrkuilmkerti? hvað í andskotanum er næst... paprikuilmur? en sem sagt málin standa þá þannig - þökk sé einhverjum hryllilega lélegum ilmkertaframleiðanda - að ég er núna í þeirri vandræðalegu stöðu að þurfa kannski að endurskoða afstöðu mína frá grunni - sem ég hingað til hef ekki einu sinni viljað skilgreina sem afstöðu heldur sem staðreynd - það sé eftir allt saman lykt af gúrkum og ég verði því að viðurkenna fyrir bróður mínum að ég hafi haft rangt fyrir mér í öll þessi ár, þessi rökræða er sko búin að vera í gangi síðan ég man eftir mér, ég sé fyrir mér að hann heimti að ég biðjist afsökunar - hugsanlega opinberlega - og bæti honum það svo einhvern veginn upp að hafa beitt hann þessum órétti og skoðanabælingu árum saman, það gæti til dæmis falist í því að hann megi framvegis alltaf ráða hvað er í matinn þegar fjölskyldan borðar saman og þá megi ekki vera neitt grænmeti á boðstólnum og alls alls ekkert úr spelti, líka þó það sé í mínu eigin ammæli eða ammæli barnanna minna, best að vera bara ekkert að minnast á þetta við hann, það er samt dáldið fúlt því mig blóðlangar til að gefa honum svona gúrkuilmkerti í ammælisgjöf sem the ultimate revenge fyrir gallabuxurnar sem ég gaf honum einu sinni og hann gekk aldrei í, en vá hann myndi brjálast

mánudagur, 24. janúar 2011

minni mentor meira tapas

ef ekki væri fyrir allar þessar einkunnir sem ég þarf að slá inní mentor væri ég tiltölulega hamingjusöm manneskja, mentor er agalegt fyrirbæri sem fær hrikalega mikið út úr því að loka á mann eða slökkva á sér áður en maður nær að vista það sem maður var að gera, sumir eru bara með svo ótrúlega sjúkan húmor, ég komst í gegnum daginn á því einu að hafa átt dásamlegt gærkvöld með fíu minni á tapas barnum hvar við snæddum að hálfu í boði davíðs oddssonar (who knew he had it in him), tapas er aldrei ógeðslegt og við átum svo mikinn humar að mér fannst ég hreinlega öðlast einhvers konar djúpspekilega innsýn í vitundarlíf skeldýra, þetta var fyrst og fremst andleg upplifun.....djók, ég var svo södd að ég þurfti að vanda mig við að æla ekki yfir allt og alla eins og feiti maðurinn í the meaning of life, það hefði verið svona dáldið leiðinlegt, sérstaklega fyrir settlega franska fólkið á næsta borði, einn maðurinn var með hvítan trefil og allt, hann batt trefilinn meira að segja um höfuðið á sér á meðan hann borðaði svo hann myndi nú örugglega ekki subba hann út með öllu þessu smjöri og pestói sem hann var að borða, skynsamlegt, samt ekki trix sem ég get nýtt mér því ég myndi þurfa að vefja alklæðnaðinum um hausinn á mér ef ég ætlaði að komast hjá því að bía mig út við matarborðið, og þá væri þetta kannski svona búið að missa dáldið marks er það ekki?

laugardagur, 22. janúar 2011

miðvikudagur, 19. janúar 2011

mrs. love

fyrri tepokinn minn í dag færði mér skilaboðin "live your strength", sá seinni "your greatest strength is love", pfffff tell me something i don´t know!

mánudagur, 17. janúar 2011

ég bað um tónlist og guð gaf mér jónas

ég er alveg ótrúlega upptekin, eitthvað við vinnu og almennt heimilishald en mest af öllu við að hlusta á hann jónas sigurðsson, eftir að hafa heyrt annan hvern mann mæra þennan jónas í hástert allt síðasta ár og geta ekki svarað með neinu nema "hver í andskotanum er þessi jónas?" ákvað ég loksins að láta það eftir mér að kaupa mér diskinn hans og kynnast manninum af eigin raun, síðan hef ég komist að því að maðurinn sé fyrrum sólstrandargæi og guð má vita hvað annað sem maður vill kannski ekki endilega vera viðriðinn en herra minn herra minn hvílíkt partý sem þessi diskur er, ég er búin að djöflast svo linnulaust í stofunni og hoppa svo tryllt í sófanum að ég bara bið í guðs almáttugs bænum vill einhver stoppa mig! ég er þegar búin að pranga gripnum inná einn fjölskyldumeðlim og spila hann óþægilega hátt fyrir gesti og gangandi að þeim óforspurðum og reyndar án þess að skeyta nokkuð um hvað þeim finnst, ég veit ekki hvar þetta endar, ég bið fólk að sýna skilning, ég get ekki hætt, ég bara verð að spila jónas

laugardagur, 8. janúar 2011

sálarþarfir (og kvalir)

mig vantar svo nýja tónlist að mig hreinlega verkjar, mig vantar reyndar líka bækur en ætla ekki að láta það eftir mér fyrr en ég er búin með búnkann á náttborðinu, auðvitað ætti ég fyrst og fremst að kaupa mér nýja dúnúlpu en þegar peningar eru af skornum skammti verður maður bara að gjöra svo vel að forgangsraða og hvaða máli skiptir það þó manni sé kalt ef maður er með almennilega tónlist í sálinni, ég las það líka einhvers staðar að kuldi sé bara hugarástand svo það tekur því ekki að reyna að klæða hann af sér, betra að finna sér ástríðufulla músík og hita sig upp innan frá, það ætti líka að slá eitthvað á kvíðaraskanirnar og svefnleysið sem er mig lifandi að drepa þessa dagana, rosalegt hvað maður verður örmagna af því að liggja alla nóttina uppí rúmi og ofanda, ég er öll í því að vera heilsufarslega ábyrgi einstaklingurinn og keypti mér spirulina á offjár til að passa uppá orkubúskapinn í skammdeginu en einhvern veginn fór það alveg framhjá mér að lesa ráðleggingarnar um hámarksinntöku, nú einni viku og hátt í hundrað spirulina töflum síðar líður mér eins og taugakerfi mitt sé þyrluspaði, best að kíkja við í smekkleysu og biðja um eitthvað sem hægir á hjartslættinum áður en maður dettur niður dauður

mánudagur, 3. janúar 2011

kreisí bjútifúl

þannig á 2011 að vera, kreisí kreisí bjútifúl, með mikilli inspírasjón og hamslausri framkvæmdaorku, 2011 verður árið sem þekkir ekki þreytu og andlegt slen heldur ólmast og iðar af lífsorku og hugmyndaauðgi þess sem lætur ekkert stöðva sig, ég viðurkenni það fúslega að ég er yfirleitt með deprimeraðra móti um áramót og eyði óþarflega mikilli orku í að argast í sjálfri mér yfir öllu sem hefði mátt betur fara á árinu en ég er að hugsa um að hætta því eitt augnablik og leyfa frekar jákvæðu hliðinni minni að lesa aðeins yfir hausamótunum á þeirri neikvæðu og benda henni á hvað ég ætti að hafa með mér núna þegar ég flyt út úr hótelherbergi 2010 yfir í það við hliðina

(jákvæða hliðin, mjög hressileg en samt án þess að vera pirrandi hress)

þú passaðir þig á markalausu fólki og hélst þig við góðar manneskjur sem kunna að meta þig og gefa gott af sér, gott fólk er æðislegt, sleppum hinu all together

þú varst ótrúlega einbeitt í hollum lífsháttum og sinntir því merkilega áreynslulaust að vanda þig í umgengni þinni við líkama þinn, maður á að fara vel með það sem guð gefur, áfram svona

þú reyndir fyrir þér við að skrifa skáldskap, eitthvað sem þér fannst fullkomlega fáránlegt að þú af öllu fólki færir að fikta við, þér fannst það skemmtilegt og það snéri uppá hausinn á þér á alveg nýjan hátt, sem er alltaf gott, snúa meira uppá hausinn á sér

þú varst vandfýsin, þú hugsaðir þig vel um áður en þú eyddir peningunum þínum og einsettir þér mottóið minna magn-meiri gæði, gott gott, less is way way more and a bit more than that!

þú last eins og brjálæðingur og hundsaði sjónvarpið að mestu, sérstaklega fréttirnar, ég er stolt af þér

þú tókst skemmtilegar skyndiákvarðanir (eitt stykki mjög bleikt forstofugólf til dæmis) sem er alltaf hrikalega hressandi, hætta að pæla svona mikið í öllu og láta bara vaða, skyndiákvarðanir rúla

þú dróst saman í eina setningu það sem gerir þig hamingjusama og grundvallar alla þína sýn á lífið; búa til eitthvað fallegt, einbeita sér nú að því í sem víðustum skilningi að búa til eitthvað fallegt, fegurðin bjargar heiminum!

þú slóst kannski ekki þitt eigið met í færslufjölda hér á þessu bloggi en þó þér hafi á köflum þótt þetta svo léleg sögusjoppa að þú hafir íhugað að loka pleisinu þá eru þessi húsmæðraskrif (hvort sem þau eru góð eða slæm þann daginn) eitthvað sem heldur soldið uppi í þér flæðinu, hugmyndir fæðast í flæði og án hugmynda er allt glatað svo áfram veginn bara

jess sör, áfram veginn

laugardagur, 1. janúar 2011