fimmtudagur, 30. desember 2010

ekki fyrir viðkvæma


af öllu því sem maður gæti hugsanlega tapað á milli jóla og nýárs er þyngd - hér í merkingunni kíló af líkamsþyngd - ekki það sem maður myndi helst veðja á ef maður myndi af einhverjum ástæðum þurfa að giska á slíkt (sem er auðvitað frekar ólíklegt þegar ég spái í það), en þrátt fyrir að allar aðstæður bjóði uppá hið gagnstæða og þó ég hafi ekki með nokkru móti ætlað mér neitt í þá veruna er samt sem áður svo undarlega fyrir mér komið nú á næstsíðasta degi ársins að það hanga varla upp um mig spjarirnar, reyndar hangi ég sjálf varla uppi ef út í það er farið, skýringin á þessu - því auðvitað er skýring, ekki gerast svona hlutir af sjálfu sér - er svo ólekker að ég ætti auðvitað ekki að vera að gera neina grein fyrir henni hér en þið fyrirgefið mér, manni er ekki alveg sjálfrátt eftir það sem á undan er gengið, atburðarásin hófst á þriðjudag sem framan af var ekki ólíkur öðrum þriðjudögum þó annað ætti eftir að koma á daginn, ég stundaði mína heilnæmu heilsurækt og át hvítlauks og chilli ristað grænmeti bragðbætt með döðlum, kóríander og hvítlauksosti, réttur sem mér þykir afar góður og hef reyndar tilhneigingu til að borða ívið of mikið af, að því loknu dreif ég mig heim til systur minnar til að undirbúa för okkar í stórfjölskyldufögnuð sem systir mín stóð sjálf fyrir, við höfðum ákveðið að sameinast um framlag okkar á veisluborðið og verandi heilbrigðisfulltrúar fjölskyldunnar (hlutverk sem bróðir okkar sniðgengur af einbeitni) ætluðum við að "henda í" delíkatessen kjúklingasalat með kryddjurtum og kasjúhnetum sem mig persónuleg hlakkaði mikið til að borða, þrátt fyrir þann ásetning að "henda í" eitt salat vill það nú einhvern veginn verða þannig þegar við systurnar baukum eitthvað saman og ekki síst ef matur kemur við sögu að allt er í einum seinagangi og á heilli heljarinnar heljarþröm ef svo má að orði komast, við rétt náðum í tæka tíð í partýið og ég náði ekki einu sinni að smakka salatið til, í partýinu tóku veisluföngin að hlaðast upp, einhver kom meira að segja með tartalettur með hangikjöti sem mér þykja svona í gómsætara lagi og annar með sænskar kjötbollur í súrsætri, hvílík veisla, það olli mér því gífurlegum vonbrigðum að finna hjá sjálfri mér eitthvert óútskýranlegt áhugaleysi þegar það loksins kom að því að fá sér á diskinn og gott ef mér þótti salatið ekki alveg sérstaklega ókræsilegt, ég ákvað því að hinkra aðeins með matinn og reyna í staðinn að tjónka eitthvað við ellabjé sem var brjálaða barnið í boðinu og gerði allt sem hann gat til að sturla litlu systur sína og gekk það vel, en það var sama hvað ég beið eftir að hungrið segði til sín ekkert gerðist og þess í stað fer mig eins og að klígja við tartalettunum og flatbrauðinu (eins og það sé kurteisi!) og þó ég geri tilraun til að stinga upp í mig bita og bita fylgir því ekki nokkur einasta ánægja, það fer því svo að parýið líður undir lok án þess að ég hafi komið neinu af ráði niður en líður þó eins og það litla sem endaði í maga mínum þenjist út og verði einhvern veginn fyrir mér, eins og það vilji ekki gefa sig meltingunni á vald heldur tregðist við ofarlega í maga mínum og ætli út aftur, að partýinu loknu versnar málið til muna þegar mágkona mín bíður mér heim í fríkeypis rauðvín og kokkteila, jafnvel tilhugsunin um ískaldan kokkteil stútfullan af maukuðum jarðaberjum kom ekki af stað neinum spenningi innra með mér og það er eðlilega þarna sem það fer að renna upp fyrir mér að það hljóti að vera eitthvað annað og meira á bak við magaóþægindi mín en venjuleg andmæli gegn makkíntossmolunum sem ég hafði tínt uppí mig yfir daginn, eitthvað mikið hljóti að vera að, þann grun fæ ég svo staðfestan stuttu síðar inná salerninu heima hjá mér hvar ég hef eytt umtalsverðum tíma síðustu daga (og engum kvalitítíma skal ég segja ykkur) jökulköld og þó rennandi sveitt af þeim átökum sem því fylgja að hreinsa meltingarfæri sín og maga af öllu því sem þar var að finna, óskaplega óskemmtilegur gjörningur enda smakkast makkíntoss engan veginn eins vel á leið út um munninn eins og þegar það fer þá leið sem því er ætlað að fara, í þokkabót hefur þetta uppistand mitt hlotið afar dræmar undirtektir heimilisfólksins en husband sérstaklega veit ekkert viðbjóðslegra en uppsölur og gildir þá einu hvort þær eru hans eigin eða annarra, svo mjög bauð manninum við ástandi mínu að hann sendi eldra barnið af heimilinu svo hann gæti flutt inn til hennar og skilið mig eftir eina í svefnherberginu, það er ekki laust við að manni sárni þó maður beri sig vel, eins og alltaf er það kríuljósið sem lýsir upp veröldina og lætur ástand móðurinnar ekki vekja hjá sér neinn viðbjóð að ráði heldur kvartar einungis yfir því að fá ekki að drekka með mér gatorade drykkinn sem eiginmaðurinn sótti í sjoppuna svo ég þornaði nú ekki alveg upp, fólk er sem sagt svona misspennt fyrir því að skiptast á líkamsvessum við mann í augnablikinu og ætli maður verði ekki bara að reyna að taka því, allir hafa jú sín takmörk

sunnudagur, 26. desember 2010

gott að maður er ekki einn

I´m tired of my life, my clothes, the things I say. I´m hacking away at the surface, as at some kind of gray ice, trying to break through to what is underneath or I am dead. I can feel the surface trembling - it seems ready to give but it never does. I am uninterested in current events. How can I justify this? How can I explain it? I don´t want to have the same vocabulary I´ve always had. I want something richer, broader, more penetrating and powerful. (James Salter)

laugardagur, 25. desember 2010

hvílík dásemd og draumur

gleðilega hátíð elskurnar, jóladagur er yndislegastur allra daga og þegar hann vekur mann með jólasnjó og angan af eplailmolíu leggur um heimilið er ómögulegt að verða annað en alveg póstkortavæmin og langa ekki til að gera neitt nema hringja í mömmu sína, best er þó að barnið sem var að fara á límingunum í gær og skoppaði um allt hús með fjörfisk í öllum vöðvum liggur nú hljótt og blítt í sófanum eins og eftir vænan skammt af deyfilyfjum og virðist ekki ætla að fara fram á nokkurn skapaðan hlut í dag nema horfa á barnatímann, aðfangadagur er auðvitað hreinasta tortjúr fyrir lítið fólk og sjálfsagt hefur það endanlega ært óstöðugan að sjá pakkann frá foreldrunum sem var þannig í laginu að hann gat eiginlega ekki innihaldið neitt nema hinn langþráða stjörnukíki, vesalings barnið var gjörsamlega að tryllast úr spenningi og hægagangurinn í móðurinni sem var enn á handklæðinu og búin að festa rúllurnar í hausnum þegar bjöllurnar hringdu inn jól og maturinn kominn á borðið hjá tengdó var ekki að afla neinna vinsælda, ég fékk að heyra að ég væri óþolandi, maður þurfi ekki alltaf að vera að dedúa við hárið á sér og setja á sig maskara þegar önnur og meira aðkallandi verk bíði manns, ég var nú samt fegin að hafa lappað aðeins uppá mig þegar ég opnaði gjöfina frá eiginmanninum sem innihélt sjúklega glamörös partýkjól og ástmögur minn braga ólafsson, eru engin takmörk fyrir því hvað ein kona getur verið heppin spyr ég nú bara, ég er harðákveðin í að vera í dressinu öll jólin og bæta á varalitinn enda ekki braga bjóðandi að maður lesi hann í sjoppulegum náttkjól og illa til hafður, sér í lagi ekki á jóladag svo það er eins gott að maður komi sér í sparigallann og gera sig kláran í hangkjötið, þó að reykt kjöt freysti mín engan veginn óbærilega hlýt ég að geta komið niður eins og einni sneið af því enda hef ég nú þegar með einhverju ofurmannlegu afli brotið bjarg af oflæti mínu og sniðgengið hinn hefðbundna banana og hnetusmjörs morgunverð í staðinn fyrir jólabland og makkíntoss, hvílíkur sveigjanleiki, ég er ótrúleg

föstudagur, 24. desember 2010

gleðileg jól

ljúfar stundir kæra fólk, ljós og friður til ykkar

mánudagur, 20. desember 2010

beauty is truth, truth is beauty

yndislega litla barnið lagði af stað á jólaball í nýja hippa/pocahontas/þjóðlagasöngkonukjólnum og bleiku glimmer sokkabuxunum sem hún fékk óvænt að gjöf í gærkvöldi frá glysgjörnu mömmunni sinni, hún tók svo outfittið á algjörlega annað level þegar hún náði sér í skærbleikt blóm á stærð við hálft höfuðið á sér og nældi í hárið, þar fer sannarlega dóttir móður sinnar, sjálf er ég algjörlega veik í sálinni af þrá eftir jólakjól þó enn einn kjóll sé um það bil það síðasta í veröldinni sem mig vantar en það verður líklega seint um mig sagt að ég sé þræll skynseminnar, ég er búin að búa kjólinn til í höfðinu á mér ásamt fjaðraeyrnlokkunum sem myndu passa fullkomlega við hann og ég myndi ekki neita því sjö sinnum að dæmið sé dáldið bleikt, en þar sem ég kann ekki á saumavél og á enga peninga og afar litla plastpeninga þá ætla ég bara að drattast í leikfimi og hætta að pæla í þessu, munum samt að fegurðin bjargar heiminum og að því tilefni mæli ég með að allir lesi greinina eftir jón kalman sem birtist í fréttatímanum á föstudaginn og minnir á mikilvægi fegurðarinnar í heimi ljótleikans, maðurinn minn sem er klárlega raunsæi aðilinn í okkar hjónabandi bendir mér stundum á hvað við mannfólkið séum ömurleg tegund, að við séum eina dýrið sem hafi ekkert hlutverk í hringrásinni, það sé enginn að fara að éta okkur og við kunnum ekkert nema að eyðileggja, einfeldningurinn ég bendi þá á að hlutverk mannsins verði að vera það að búa til fegurð, búa til fegurð og elska, er það ekki jafngott og hvað annað?

föstudagur, 17. desember 2010

jólafríííííí........

....og herra minn í himnahæðum hvað ég er búin að vinna fyrir því, starf kennarans er nefninlega töluvert frá því að vera þessi þægilega innivinna sem margir gera sér í hugalund, jólamánuðurinn er vægast sagt strembinn í kennslustofunni og maður má hafa sig allan við til að parýið endi ekki með ósköpum, jesúbarnið virðist ekki vera vinsæl fyrimynd unglinga í dag og eftir að hafa farið í gegnum jólaball í gærkvöldi og litlu jól í morgun þar sem hvellhettur, kveikjari og kartöfluflögur fengu nýtt og aukið skemmtanagildi gat ég ekki annað en limpast niður við eldhúsborðið heima hjá systur minni og troðið mig út af osti með rababarbíu, af hverju hefur manni aldrei dottið til hugar að grilla snakkið sitt með kveikjara og mylja það svo út um öll gólf heima hjá sér? hvað er eiginlega að manni? að sama skapi hefur mér aldrei hugkvæmst að tæta bréfið utan af makkíntossinu niður í agnarsmáar ræmur og fleygja því út um allt, sem er synd því ég sé það núna að þetta er tilltölulega billeg leið til að hressa uppá heimilið fyrir jólin ef maður væri bara ekki svona fastur inní kassanum, meira hvað það er ömurlegt að vera svona steríll og döll

af ólíkum og allt öðrum toga er sú staðreynd að það er í meira lagi hugsanlegt og eiginlega bara alveg gefið að ef ég spili nóttin var sú ágæt ein með dikta einu sinni enn muni talvan mín drepa sig

sunnudagur, 12. desember 2010

ekki aftur!

barnið á ekki orð yfir smekkvísi jólasveinsins sem stakk frábærlega litríkum röndóttum hnésokkum í skóinn hennar í nótt, nákvæmlega eins sokka og hana hefur alltaf langað í, ég læt í ljós einlæga undrun mína yfir ótrúlegu innsæi sveinsins og reyni að gera sem mest úr því hvað þetta er allt saman undarlegt, það þurfi enga smá skipulagshæfileika og afar skilvirkt skráningarkerfi til að halda yfirsýn yfir öll þessi börn og allar þeirra sérstöku óskir, maður hljóti hreinlega að þurfa að vera fjarskyggn, en ekkert stoðar, þó ég hafi bundið miklar vonir við að barnið væri búið að átta sig á hinum augljósu brestum í svikamyllunni um jólasveinana virðast þær vonir mínar hafa verið ótímabærar, það þarf greinilega meira en greind til að sjá í gegnum blekkinguna og mig grunar að þetta meira sé vilji því ekki skortir barnið greind, yfir fréttatímanum í gær smíðaði hún til dæmis afar lógíska skýringu á því hvers vegna útlit sveinanna breytist svo mjög frá ári til árs, það er vegna þess að allir jólasveinar nema þeir sem setja í skóinn eru gervi, eðlilega, sá sem hefur svo annasömu starfi að gegna og þarf auk þess að fara leynt við að sinna því starfi fer ekki að blása sig út í fjölmiðlum og sóa sínum dýrmæta tíma í kjaftasnakk og óþarfa públisití, frægasti maður í heim þarf ekki á slíku að halda og þess vegna eru það bara gervijólasveinar sem sjá um að koma fram í fréttum, mæta á jólaböll og annað þess háttar tilfallandi sem hinn störfum hlaðni og metnaðarfulli ósvikni sveinn getur ómögulega sinnt, vissulega rökrétt og maður bara kinkar kolli og blótar í hljóði, þessi vitleysa virðist engan endi ætla að taka og framundan eru langir og pínlegir tólf dagar og ítrekuð brot á níunda boðorðinu, hvílíkt böl að vera svona lélegur lygari

föstudagur, 10. desember 2010

þú ert sko vinur minn

ég á leynivin í vinnunni, algjörlega æðislegan leynivin, svo æðislegan að ég get eiginlega ekki beðið eftir að mæta í vinnuna á mánudaginn og eitthvað er það nú ótrúlega erlendis gott fólk, gjöfin sem leynivinurinn minn sendi mér í dag var nefninlega svo dásamlega vel valin og smekklega over the top glamörös innpökkuð að ég vissi hreinlega ekki hvert ég ætlaði, leynivinurinn hafði haft fyrir því að föndra gylltan (nota bene gylltan!!!) þríhyrning og umvefja hann skærbleikum (nota bene skærbleikum!!!) borða, utan á pakkanum hékk stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag reiknuð út af vísindalegri nákvæmni út frá fæðingardegi mínum og inní honum voru ójáójáójáójá heilsunammi og guðdómlegar hárspennur með fjólubláum (nota bene fjólubláum!!!) steini, það er deginum ljósara að leynivinurinn er annað hvort meðvitaður um mína fíkn í fegurð eða sjálfur jafnilla haldinn af kvillanum, ég átti ekki orð en var svo þakklát að ég henti mér á verkefnabúnkann minn sem ég vægast sagt hef forðast að eiga samræði við alla vikuna og elskaðist með honum daglangt án þess að finna að nokkru ráði fyrir því að langa í leikfimi,ég þyrfti að eiga þennan leynivin alltaf, ég elska þig leynivinur, plís vertu vinur minn að eilífu

þriðjudagur, 7. desember 2010

meira glimmer!

husband er niðursokkinn í að kanna hvaða áhrif það hafi á upplifun manns af alien myndunum að horfa á þær í öfugri röð, nokkuð sem mér finnst ekki vera að gera neitt fyrir the christmas spirit þó ég þegi bara og bæti á jólaskrautið, hvað get ég sagt, ég er veik fyrir manninum og get ekki neitað því, sérstaklega þegar hann er í lopapeysunni sem ég gaf honum í fyrra og gerir ekkert nema ýkja hans meðfæddu fegurð, mér líkar muchos! en já, ooops i did it again, enn eitt árið í röð hef ég farið gjörsamlega fram úr mér í jólaskreytingunum og eytt hreint undarlegum upphæðum í greni, ég hugsa að það væri alls ekki svo fjarstæðukennt að segja að meðalstór íkornafjölskylda gæti hæglega hreiðrað um sig hjá okkur án þess að við yrðum vör við það að nokkru ráði, það er svo annað mál og ekkert til að hreykja sér af að þetta árið hefur mér endanlega tekist að mála mig út í horn hjá litlu manneskjunni minni sem gafst upp á að skreyta með mér af því ég er svo tryllingslega stjórnsöm og leiðinleg, husband er löngu hættur að skipta sér af þessum jóladillum mínum en ég er ansi hrædd um að eldvarnareftirlitið (er það til?) hefði ýmislegt við allt þetta greni og óvarið kertaljós að athuga, notkun rafmagnsljósa er í sögulegu lágmarki hér á heimilinu og ég hyggst bæta um betur því mér reiknast svo til að ef ég bæti nóg við glimmerið muni myndast nægt endurkast til að lýsa upp heimilið án þess að ég kveiki á einni einustu peru, ég elska þegar ég hugsa í lausnum

sunnudagur, 5. desember 2010

þegar barnið kemst í tölvuna

hæ mamma ég elska þig það er gaman að vera með þér elska ikur öll kv. kría sól xoxoxoxoxo ég á erfit með að muna hvar stafirnir eru en það er samt gaman að skrifa í tölfuni en það er en skemti legra að horfa kv. kría sól bæ.

miðvikudagur, 1. desember 2010

ég bíð enn

þá er hann kominn, desember það er að segja ekki snjórinn, hann er víst upptekinn við að falla í útlöndum og skapa samgönguusla, ég bíð þá bara áfram, ætli það sé einhvers staðar ennþá hægt að fá svona gamaldags níþrönga skíðagalla í stíl við gönguskíðin? bara svona ef ske kynni, já og launaseðillinn kom auðvitað líka í dag þó það taki því nú varla að minnast á það, ég skil ekki hvernig launaseðillinn minn nær að raungerast og verða sýnilegur miðað við hvað innihaldið er agnarsmátt, eins gott að maður nærist ekki á neinu nema ást og lestri, ég sit og horfi á kiljuna og öfundast út í fólk sem fær launaseðil fyrir að lesa bækur, ekki það að ég væri góð í svoleiðis vinnu, til þess er ég alltof sérhlífinn lesandi og fæ mig ómögulega til að lesa annað en það sem ég hef unun af, ég álása sjálfri mér til dæmis oft fyrir það hvað ég er áhugalaus og löt við að lesa ævisögur en ég hef bara svo gasalega takmarkaðan áhuga á raunveruleikanum að ég tek mig aldrei á, má ég þá frekar biðja um töfraraunsæið, ja eða bara töfra.....töfralaunaseðil kannski, já og svo þennan snjó