miðvikudagur, 28. júlí 2010

guð hjálpi okkur öllum

elsku litla jesúbarn, hjálpaðu mér, eitt árið í viðbót stend ég frammi fyrir því að þurfa að takast á við þennan verslunarmannahelgarviðbjóð og ég bara hef ekki þrek til að gera þetta ein, metnaðarleysi mitt er algjört, mér verður flökurt við það að hugsa um umferð og mannmergð og yfirtroðnar bensínstöðvar og útilegulög, eiginmaður minn deilir að vísu áhugaleysi mínu en unglingurinn gjörsamlega skilur ekki hvernig einhver getur ekki verið að deyja úr spenningi yfir því að liggja einhvers staðar í rökum svefnpoka og hlusta á kærustuparið í næsta tjaldið rífast um hluti sem koma manni á engan hátt við, ég reyni ekki að rökræða þetta, hvað getur maður sagt, blessað barnið hlýtur bara að vera með svona rosaleg léleg gen, ég kreisti aftur augun, einbeiti mér af öllu afli og bið þess að mér takist að tilflytjast eitthvert þar sem verslunarmannahelgin er ekki til, hefur maður einhvern tímann þurft meira á því að halda að vera týndur í barcelona með elskunni sinni?

mánudagur, 26. júlí 2010

maður er svo misskilinn

mín bíða sorpuskyldur, kalda geymslan mín er svo smekkfull af...ja ég gæti sagt öllu mögulegu en sannleikurinn er sá að þar eru aðallega tómar bjórflöskur með mygluðu lime, það er greinilegt að börnin í sunddeildinn eru í sumarfríi því þau hafa ekki komið að snýkja flöskur síðan í vor, annars koma þau mjög reglulega og húsið mitt er örugglega á einhverjum lista hjá þeim yfir heimili bæjarins þar sem mikið er drukkið, ég ber blendnar tilfinningar til flöskusöfnunar sundbarnanna, vissulega er ég þakklát fyrir að einhver sé tilbúin til að taka af mér ómakið sem fylgir sorpuferðum en það vandræðalega er að sundbörnin eru flestöll nemendur mínir og það er einhvern veginn ofsalega pínlegt að opna troðfullu geymsluna sína fyrir framan nemendur sína og horfa svo á eftir þeim rogast út götuna með bílfarma af manns tómu áfengisflöskum og þurfa að kalla eftir aðstoð og hjólbörum og guð má vita hverju til að flytja draslið á brott, svona verða kjaftasögurnar til, skrítni enskukennarinn á númer fimm er rosaleg fyllibytta og á subbulegust geymsluna í hverfinu, hún er alltaf svo full og löt að maður græðir geðveikt á að fara heim til hennar og snýkja flöskur, svo er hún líka alltaf rosa hress þegar maður kemur og kjaftar og djókar og er rosa glöð að sjá mann, af því hún er alltaf svo hrikalega full

sunnudagur, 25. júlí 2010

þessi mynd er það fallegast við þennan póst (restin er leiðinleg)

ég er ólýsanlega löt, það eina sem hugsanlega gæti fengið mig til að hreyfa mig er ef hið ómögulega myndi gerast, það er að maðurinn minn myndi fyrirvaralaust hendast upp úr sófanum og segja " heyrðu elskan eigum við ekki að skjótast niður í eymundsson og kaupa okkur þessar bækur sem voru að koma út hjá bjarti", en það sem það er alls ekki að fara að gerast ætla ég bara að venjast þeirri tilfinningu að finna rassinn á mér fletjast út á eldhússtólnum og breiða þar úr sér eins og úthaf af fitufrumum með sundbuxnafar, ég get nýtt tímann til að æfa mig í að sætta mig við slakan árangur minn í uppeldi, þrátt fyrir fjölmarga fyrirlestra og gott fordæmi um heilbrigt líferni hefur eldra barnið ekki áhuga á neinu öðru en að hanga í partýum fram undir morgun og litli skítur er helsjúkur af slikkeríissýki, ég neitaði henni um ís í morgunmat og staðfesti með því fyrri grunsemdir hennar um að ég sé alheimsins leiðinlegasta mamma, hún er nýkomin heim eftir að hafa eytt tveimur dögum í sveitinni hjá systur minni og ég kem vægast sagt illa út úr samanburðinum, hvers á maður að gjalda fyrir að gera sitt besta við að ala upp þokkalega nothæfa þjóðfélagsþegna, ég loka eyrunum og teygi mig í bókina sem ég er að gera mér að góðu þangað til ég á pening til að kaupa mér dásemdina frá bjarti sem mér er búið að takast að hemja mig um að kaupa í heila viku þó ég finni til líkamlegra óþæginda fyrir vikið, ég kem mér ekki í að endurnýja bókasafnsskírteinið þó það myndi hjálpa í stöðunni, eitthvað við tilhugsunina um að lesa bók sem hugsanlega hundruðir annarra eru búnir að káfa á vekur í mér minn innri michael jackson með hönskum og öllu, betra að æfa sig í zen búddisma og afneita öllum sínum dýpstu þörfum á meðan krakkarassgatið níðir af manni skóinn og eiginmaðurinn sekkur sér í kvikmynd sem fyrir staka tilviljun skartar aðalleikkonu með mjög stór brjóst, ljúft

föstudagur, 23. júlí 2010

að ofmetnast hefnir sín

ég er illa sofinn eftir að hafa reynt að sofa í sömu stellingunni í alla nótt, ég missteig mig svo illa eftir æfingu í gær að ég gat ekki hreyft mig í rúminu öðruvísi en að hálfveina af sársauka, sem ég vildi síður af tillitsemi við manninn minn, maður ætti kannski ekki að ganga svona frá sér á æfingum, ég hefði kannski átta að taka því sem aðvörun þegar ég var orðin heiðblá á vörunum og farin að hríðskjálfa af þreytu, þá hefði ég hugsanlega ekki hrasað í stiganum og hálftekið af mér fótinn við ökkla í leiðinni, málið er að ég er að djöflast við að fylgja æfingakerfi frá einkaþjálfaranum hennar madonnu og það er svona...dáldið erfitt, ég sem hélt að ég væri í svo gasalega góðu formi að mínar einu áhyggjur voru að þetta væri alltof auðvelt fyrir mig, maður á nefninlega aldrei að lyfta meiru en einu og hálfu kílói, ha ha ha hugsaði ég og hafði verulegar áhyggjur af því að ég yrði bara feit og out of shape af þessu dútli (eins og madonna þið vitið), ég virðist hafa haft rangt fyrir mér, svona fer fyrir þeim sem líta stórt á sig, þú ættir kannski að lækka aðeins flugið íkarus minn

miðvikudagur, 21. júlí 2010

orðin í höfðinu

ég hristi af mér tilfinningasemina í morgun og hreinsaði kóngulóarvefina af pallinum, bar stofublómin út á pall og fyllti tóma djúsbrúsa með vatni, á meðan ég vökvaði blómin hugsaði ég um litlu blómabúðina sem mig langar til að eiga og orðin hans paulo coelho um hvað það sé hættulegt að vilja vera eins og annað fólk, hugsaði um hvað óttinn kripplar fólk og hvað maður kemst langt á sólarljósinu einu saman, sólarljós og fullþroskað avocado kemur manni langleiðina hvert sem er, ég lagði nýju sögunni minni í gær og byrjaði að sauma inní aðra sem ég skrifaði fyrir nokkrum mánuðum, hún er um mann sem er svo einmana að hann stelur póstsendingum ókunnugs fólks til að hafa eitthvað að hlakka til, mér þykir dáldið vænt um hann, kannski komumst við eitthvert saman þó ég sé nokkuð viss um að ég geti ekki gert hann hamingjusaman, það gerir mig samt dáldið hamingjusama að skrifa um hann, sem er ljótt því maður á ekki að nýta sér neyð annarra

mánudagur, 19. júlí 2010

áfall

ég er óhuggandi, ég skil ekki hvað ég er að gera rangt, ég fylgi öllum settum reglum og geri ekkert öðruvísi en áður en samt næ ég ekki að freyða mjólkina í kaffið af minni fyrri snilld, fullkomin hnausþykk mjólkurfroða hefur verið mitt trademark í kaffigerð en nú lýtur kaffibollinn minn út dag eftir dag eins og hver önnur kommon uppáhelling, ég er niðurbrotin, i have lost the touch, byggi ég í ammríku gæti ég örugglega hringt í the coffee emergency hotline og fengið einhvern til að tala mig í gegnum mjólkurfreyðingarferlið þar til ég hefði endurheimt mína fyrri yfirburði en eins og við vitum öll búum við ekki í landi hinna frjálsu þar sem þarfir fólks eru í fyrirrúmi og grunnþjónustan er mannsæmandi, hér þarf fólk að mæta svona hörmungum eitt og óstutt, hneisa

sunnudagur, 18. júlí 2010

lífsháski

ég hangi í sólbaði og reyni að stabilísera taugakerfið eftir að hafa verið nánast étin lifandi af fjórum lömbum í gær, "það er til nóg handa öllum" er greinilega ekki í orðaforða lítilla lamba sem svífast einskis til að komast að pelanum sínum, því fékk olnboginn minn að kynnast í gærmorgun þegar hann var tekin í misgripum fyrir pelatúttu, flestir sem hafa einhvern tímann komist í tæri við lamb eru líklega sammála um að þau séu ómótstæðilega sætt ungviði en hlustið á orð mín fólk þegar ég segi ykkur að sjarminn fer alveg af þessu þegar maður er króaður af og bitinn í olnbogann af snarvitlausum krullukrílum sem öll eru útbíuð í sínum eigin saur (hvað er þetta eiginlega með rollur og sóðaskap í kringum hægðir?!), í alvöru þetta var verra í raun en ég læt það hljóma....hvar er sólarvörnin, en frá útskitnum lambsrössum og yfir í fegurðina, tópashornið sem hangir yfir hengirúminu er í svo fullkomnum bleikum lit að mig langar stöðugt til að troða því einhvern veginn á hausinn á mér, lífið á pallinum mínum væri svo gott sem fullkomið ef nágranni minn gæti hætt að slá grasið og góla á börnin sín að vera ekki með þennan fíflagang með garðslönguna, hluttekning mín með kóngulóm gerir það að vísu að verkum að það er full margt um manninn hérna úti (nú er nágranninn byrjaður að saga eitthvað, vá hvað ég er pirruð á þessum manni, hvers konar andskotans sansleysi er þetta, sér maðurinn ekki að ég er að reyna að vera ein í heiminum hérna?), ég fæ það bara ekki af mér að eyðileggja alla þessa meistaralega smíðuðu vefi, í hvert skipti sem ég lyfti sópinum til að fjarlægja þá verð ég heltekin af hugsunum um hvernig mér myndi líða ef einhver eyðilegði með einu handtaki eitthvað sem ég væri búin að leggja svona mikla vinnu í (hvurn djöfulann er þessi maður nú að smíða???!!) maður getur spurt sig hvar maður sé staddur í tilverunni þegar tilfinningalíf kóngulóa er eitthvað sem maður lætur sig varða en ég hef um annað mikilvægara að hugsa, til dæmis það að ég er svo leiðinleg þessa dagana að ég voga mér varla út úr húsi, leiðinlegheit mín gætu vel hugsanlega verið á klínísku stigi, ég ætla að gúgla þetta, augnablik.......ah já, "clinically boring people eða homos horribilis boringus er sjaldgæft en þekkt fyrirbæri innan geðlæknisfræðinnar, sjúkdómurinn lýsir sér með því að sjúklingurinn virðist með öllu ófær um að halda uppi áhugaverðum og vitrænum samræðum við aðra af sinni tegund og er að öllu leyti ólýsanlega leiðinlegur, fólk sem hefur átt samskipti við horribilis boringus er sammála um að í návist þeirra verði maður í fyrsta sinn raunverulega hræddur um að drepast úr leiðindum, leiðinlegaheitin séu svo massív að maður hreinlega óttist um líf sitt, það eina góða við heilkennið er að yfirleitt virðast þeir sem þjást af því vera nokkuð meðvitaðir um ástand sitt og halda sig út af fyrir sig við lestur og sólböð, það slæma er að sjúkdómurinn er nánast ólæknandi og getur dregið fólk til dauða", þá veit maður það, ég hefði betur bara leyft lambkvikindinu að naga mig inn að beini, ég hugga mig við að ég verð alla vega sólbrúnt lík

laugardagur, 17. júlí 2010

allt í partýi

laugardagskvöld, prince í botni, ef ég væri ekki astmasjúk myndi ég kannski reykja prince líka...djók, bacardi flæðir um allt, ég er með blásið hár og varalit...........ókei smá ýkjur, við aþí erum einar heima að horfa á twilight... aftur, pöððetikk

fimmtudagur, 15. júlí 2010

í sjálfheldu

þó tíminn sem hreyfir veröldina utan við líkama minn virðist fljúga með hraða hjarta kólibrífuglsins er eins og innra með mér ríki lögmál tregðu og gagnslausrar áreynslu, taugaboð mín ferðast löturhægt í gegnum líkamann eins og maður sem veður leðju upp að hnjám í fullum sjóklæðum, fingurnir rekja lausa enda hnykilsins sem stendur út úr brjóstinu en finna aldrei hinn endanlega enda, hugsunin svamlar í mjólkurlitum vökva, heldur ekki í við hraðann fyrir utan og missir af skilaboðunum, heimska skynlausa skepna hvíslar röddin sem nærir trúnna á að lykillinn að breytingum sé að hafa nægilega óbeit á sjálfum sér, hið kvenlega harakiri, jafnbanvænt og sverð samúræjans þó dauðdagninn sé hægur, pílavætturinn kýs að treina sér sársaukann eins lengi og unnt er, þannig telur hann sér trú um að líf hans hafi tilgang

þriðjudagur, 13. júlí 2010

svar óskast

hvað er það sem þig raunverulega hungrar í?

föstudagur, 9. júlí 2010

kellingaröfl

hvernig í veröldinni stendur á því að heimabankinn minn sýnir mér svona asnalega tölu?! þetta er gjörsamlega óskiljanlegt og óþolandi, það er ekki eins og ég éti ekkert nema trufflusveppi og saffran andskotinn hafi það, ég er hrædd um að ég geti ekki látið það eftir mér að fara aftur á vampíruvelluna mína í bíó um helgina enda væri það svo sem sóun á peningum þar sem ég er svo gott sem blind af ofnæmi þessa dagana, grínlaust það er eins og ég sé með þykkt lag af tjulli fyrir augunum, spurning um að tjékka á því hvort augndroparnir séu útrunnir svo maður sé ekki gangandi á veggi og nágrannarnir fari að slúðra um kannabiskellinguna á númer fimm, talandi um kellingar, það skal formlega tilkynnt að ég er orðin ein slík, ég komst að því í gær inní borð fyrir tvo þar sem ég fann matarstell sem ég er sjúk í að safna en að safna matarstelli hefur mér hingað til þótt óyggjandi sönnun þess að maður sé orðin kelling, ég bið því fjölskyldu meðlimi um að vígja mig inní alheimsklúbb matarstellsafnandi kellinga á þrjátíuogfimm ára afmælinu mínu í næsta mánuði og gefa mér diska í fyrrnefndu stelli í afmælisgjöf, þangað til ætla ég að æfa mig í að setja rúllur í hausinn á mér og raspa á mér hælana

miðvikudagur, 7. júlí 2010

tæpa gellan

hef gjörsamlega misst tökin á tilverunni eftir bíóferðina á mánudag og er ásamt öðrum fjölskyldumeðlim að skoða möguleikana á að breyta nafninu mínu í mrs. cullen, spurning hvernig þetta leggst í husband......er að öðru leyti frekar slök þó að líkt og hross eigi ég það til að verða hálftaugaveikluð í svona miklu roki og hafa þar af leiðandi ekki úthald í annað en að lesa og safna spiki, það verður einhvern veginn erfiðara að henda reiður á sjálfum sér (eins og maður megi við því) þegar manni er feykt svona stjórnlaust í allar áttir og ég verð bara alveg uppgefin við það eitt að fara með þvott út á snúru (sem ég geri í trássi við öll ofnæmislög því þurrkarinn minn býr til svo mikið ryk að það lítur út fyrir að hafa snjóað hérna inni), verð samt að fara að koma mér í að klára forstofuna þó að maníska sessjónið með smjörhnífinn virðist hafa valdið varanlegum skemmdum á vísifingri hægri handar sem nú er að stórum hluta dofinn, bið fólk að afsaka það hvað ég geri lítið af því að taka upp símann og vil taka það skýrt fram að vandamálið ert ekki þú heldur ég (mér hefur bæði verið sagt upp með þessari línu og notað hana sjálf til hins sama, púkalegt), sósíalíseringar mínar takmarkast við að sitja í sófanum hennar systur minnar og drekka allt áfengið hennar á meðan við orgum okkur hásar yfir so you think you can dance, uppáhaldsdansarinn minn komst ekki í tíu manna úrslitin í síðasta þætti og ég er búin að vera að reyna að stramma mig af í að brjóta hluti síðan, mest af öllu í heiminum langar mig til að lesa the imperfectionists eftir tom rachman en hún fæst ekki í einni einustu bókabúð í bænum og ég er búin að láta loka visakortinu svo ég get ekki keypt hana á amazon, uppástungur.....?

sunnudagur, 4. júlí 2010

um staðreyndir

ég er bara að reyna að láta þennan dag líða með öllum tiltækum ráðum, eins og til dæmis með því að éta hálft kíló af kirsuberjum (sem mun örugglega leiða til þess að ég verði mjög upptekin á klósettinu í kvöld, score!) og hengja út þvott þó að það séu nákvæmlega engar líkur á því að það haldist þurrt í dag, málið er nefninlega að ég er svo spennt fyrir morgundeginum að ég bara veit ekki hvernig ég á að halda þetta út, loksins loksins er þriðji hlutinn af the twilight saga (cause it´s like epic you know) komin í bíó og ég þurfti að halda í mér alla helgina með að fara á hana því bæði var krakkinn í útileigu og ég ekki búin að að mennta systur mína í fyrri myndunum tveim svo hún gæti komið með og orðið gjaldgengur meðlimur í deilunni um hvor sé heitastur í heimi, vampíran eða varúlfurinn (við deilum af fullri alvöru um svona hluti innan fjölskyldunnar), eins og ég óttaðist er hún í úlfaliðinu og færir fyrir því mórölsk rök eins og að bella sé að fara svo rosalega illa með aumingjans jake, hún sé algjör drusla og hann eigi svo bágt (eins og það komi málinu eitthvað við), ég reyni að láta það ekki sjást hvað ég ranghvolfi augunum og gef þessu prik fyrir það eitt að vera skárra en komment unglingsins um að edward sé svo glatað fööölur (andskotans tanorexían í þessu barni), kríuljósið reynir að vera frekar hlutlaus í málinu og lætur nægja að segja að þetta sé bara allt í veseni hjá þessu fólki og hún ætli sko aldrei að standa í svona drama, ég hef lítið (öllu heldur ekkert) umburðalyndi gagnvart skoðunum annarra á málinu, fyrir mína parta er þetta ekki flókið, team edward foreveeeeeeer!!!!!!!

fimmtudagur, 1. júlí 2010

bara af því þetta er sjúkt fyndið




huggun í rigningu

það er aldeilis að júlí fer vel af stað, fyrsti í pollagalla og ég sem ætlaði á tónleikana í hljómskólagarðinum í kvöld, ég er samt mjög þakklát fyrir að þetta veður gefur mér ástæðu til að hanga í tölvunni, borða ristað brauð með mole og tómötum og lesa hið frábæra blog hula seventy sem ég var að finna og er utterly in love with, hula seventy er skrifað af konu nokkurri í portland (hvar ég þrái að eyða eins og einu sumri við að ráfa á milli vintagebúða og hanga á lífrænum kaffihúsum) sem tekur guðdómlegar polaroid myndir og skrifar fáránlega skemmtilega lista um allt milli himins og jarðar, mér finnst hún svo fyndin og æðisleg að mig langar til að senda henni email og spyrja hvort hún vilji vera memm, tvennt þarf ég þó að gera í dag, bæta elsku mági mínum það upp að ég snuðaði hann um afmælisgjöf í gær (sem var bankanum mínum að kenna en ekki mér) og bjóða litla skít á eclipse sem hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, það skal þó tekið fram að ómögulegt er að samþætta þetta tvennt þar sem mágurinn hefur ekki verið bitinn af vampírunum í forks eins og við mæðgur, því skal svo bætt við að skrif gengu betur en ég hafði þorað að vona eftir panikkkastið sem ég fékk í gærmorgun og var blygðunarlaust birt hér neðar, þakka hvatningarkommentin og ég elska ykkur í drasl, í alvöru