sunnudagur, 31. janúar 2010

afsakanir og annað röfl

lélegi bloggarinn skammast sín, niðurhalið er búið og það tekur mig margar, margar mínútur að hala þessari síðu niður, það lagast á morgun (annað en fjárhagsstaðan) og ég má alls ekki af mínútunum sjá því ég þarf að skrifa margt og mikið fyrir næsta ritlistartíma, ég náði ekki að klára nema annað verkefnið fyrir síðasta tíma en fékk ekki skömm í hattinn því sagan mín þótti svo gasalega vel smíðuð, indæla fólkið og dásamlegi kennarinn sögðu margt fallegt sem ég tíunda ekki hér því ég er svo vel upp alin en ég er samt mjög mjög montin, það er gott að gera eitthvað sem maður er stoltur af, það var orðið svo langt síðan að ég gerði eitthvað sem mér fannst ég geta verið stolt af að mér var farið að líða hættulega mikið eins og aumingja, sem er alltaf slæmt, annað sem er slæmt er að maðurinn í sófanum hefur ekki klipið mig í rassinn svo vel geti talist í marga daga, hvað á maður að lesa í það.....getur alls ekki talist gott, best að vera meira allsber og kaupa meiri bjór, segja honum að hann sé miklu meira sexý en þessi guðjón valur sem var víst kosinn kynþokkafyllsti maður landsins á rás 2 um síðustu helgi aðeins örfáum stigum á undan gunna vörubílsstjóra í keflavík, það eitt og sér er náttúrulega undarlegt en það sem hlýtur að teljast enn undarlegra og reyndar algjörlega óútskýranlegt er að það hafi enginn nefnt mitt nafn í þessu samhengi!!!! takk kærlega fyrir það

mánudagur, 25. janúar 2010

skrifiskrifiskrifi

fokk ég verð að byrja á verkefnunum sem ég á að skila á fimmtudaginn, ó já mér láðist að nefna að ég er á námskeiði í skapandi skrifum, maður er aðeins að reyna að ögra sjálfum sér sjáiði til, markmiðið er aðallega að reyna við önnur skrif en þetta gengdarlausa blaður sem ég leifi mér í sjálfsánægju minni að birta hér á þessu bloggi, þetta ætti að vera ágætis tilbreyting og holl og góð lexía í því að víkka aðeins sögusviði sitt, ekki veitir þessari konu af að drulla sér útúr eldhúsinu í sínum skrifum, fólk getur samt alveg verið rólegt, ég er ekkert að fara út í þetta af neinu handboltaofforsi, geng ekkert um hér heima og garga á heimilisfólkið að ég ætli sko að rúst´essu, neinei bara svona leifa þessu að koma og sjá hvar maður endar, fyrst þarf ég samt að gera eitthvað í því hvað ég er andfúl og þvo mér betur um hendurnar, þetta lyklaborð er farið að anga eins og svissneski osturinn sem ég var að éta

sunnudagur, 24. janúar 2010

gæðum guðs er geysilega misskipt milli manna

óskaplega er þessi kona með fallega kálfa, næst á eftir fallegum tám eru fallegir kálfar það sem vekur mesta öfund hjá mér í garð kynsystra minna (og hér talar kona í afar smáum brjóstarhaldara), ég er hugsanlega eina konan í heiminum hverrar kálfar gætu mjög auðveldlega verið teknir í misgripum fyrir kálfa davids beckhams þyrfti fólk að giska í fljótheitum hverjum þeir tilheyrðu, þeir eru kannski ekki ljótir, meira svona eins og þeim hafi verið púslað á rangan skrokk, ég er aftur á móti með afbrigðilega ljótar tær, algjör vanskapnaður sem verður verri með árunum vegna mikils álags sem skýrist af því að ég keyri ekki og nota mína fætur mikið og er ekki þessi týpa sem gengur um í sænskum heilsuskóm, en nóg komið af hégómahjali, hér hefur verið borin fram kvörtun, ég þyki ekki standa mig í stykkinu, hef verið fullmikið fjarverandi, ég bið fólk að afsaka en ég er bara svo gasalega upptekin, hef bara varla mínútu aflögu þessa dagana, ef ég vissi hvað ég geri við blessaðar mínúturnar gæti ég fært rök fyrir máli mínu en því miður eru hlutirnir töluvert mikið flóknari en svo, ég er nefninlega ekki að gera neitt af því sem ég á að vera að gera, þið vitið, mín bíður mílulangur listi yfir hluti sem þarf að gera en samt er ég ekki svona upptekin af því að ég sé að djöflast við að haka við allt á þessum lista, neineinei það er eitthvað annað sem ég er svona ofboðslega bussí við að inna af hendi, þetta er það sem fagmenn kalla lélega tímastjórnun og er eitthvað sem hefur kássast uppá líf mitt alveg frá því að ég fór að gera mér grein fyrir því að ein vika eru sjö dagar, einn mánuður fjórar vikur og eitt ár tólf mánuðir, maður á ammæli einu sinni á ári og þó einhver eigi ammæli í mars en ég í ágúst þýðir það ekki endilega að hann sé eldri en ég (þetta síðasta var ótrúlega erfitt að fatta), nema hvað ég kýs að nota ekki hugtakið léleg tímastjórnun heldur pirrast ég bara yfir því að það séu alltof fáir tímar í sólarhringnum miðað við allt þetta sem er heimtað að maður komi í verk, þannig kemst ég hjá því að þurfa að taka ábyrgð á málinu en því nenni ég alls ekki, það tæki of mikinn tíma og til þess er ég of upptekin.....þetta kallast líklega tótólógía en hver hefur tíma til að hengja sig á skilgreiningar

fimmtudagur, 21. janúar 2010

rigning í janúar er eins og boðflenna í jarðaför

man einhver hvernig ljós kemur manni fyrir sjónir? hvernig lítur birta aftur út? getur einhver rifjað það upp fyrir mér, janúar er hryllilega leiðinlegur mánuður, snjór og norðurljós eru það sem helst getur gert hann bærilegri en hvorugt er boðið uppá í augnablikinu, fyrir mína parta er þetta hömlulausa úrhelli tómur viðbjóður og þrumuveður á íslandi í janúar er bara asnalegt! og hvernig er það hefur enginn nema ég lamandi áhyggjur af grænlandsjökli?! veit fólk kannski ekki hvað gerist ef maður setur ísmola undir bununa í eldhúsvaskinum, ef ekki hvet ég alla til að framkvæma þá einföldu tilraun og setja svo niðurstöðurnar í dáldið mikið stærra samhengi, allt í kringum mig keppist fólk við að lofa hlýjindin og þakka guði fyrir að það sé nú ekki allt á kaf í snjó og krapi og klaka og öðru sem hamlar umferð bíla og þar af leiðandi losun kolefna, mér finnst þetta viðhorf vægast sagt ábyrgðarlaust, ástandið allt þykir mér afar óhuganlegt og þó ég geti ekki sagt til um það með neinni vissu held ég jafnvel að þessi óhugnaður geti verið skýringin á því að ég vaknaði í fyrrinótt svo holdvot af eigin svita að ég þurfti að skipta um náttkjól og snúa sænginni við til að geta lagst aftur til svefns, ég ætla að fletta upp í stikilsberjafinni og rifja upp hvernig maður býr til fleka

mánudagur, 18. janúar 2010

best að stilla sig

ég bið fólk að afsaka hömlulaust vælið hér neðar, einnig skammast ég mín einlæglega fyrir að hafa misst útúr mér það orð sem ég hafði svarið dýran eið að nefna aldrei á þessari síðu, þið vitið þetta þarna sem mér skilst að sé einhverskonar milliríkjadeila og forsetinn vill að ég hafi miklar skoðanir á en þær hef ég engar, þeim sem blöskrar kæruleysið er bent á að kíkja bara í heimsókn til egils helgasonar, mér skilst að sá maður sé vakinn og sofinn yfir málefninu þó sjálf geti ég ekki vitnað um það, veit það eitt að maðurinn er með fallegt hár og konan hans bakar fáránlega góða hafraklatta, ég ætla svo bara að treysta á að fegurðin tæli mig útúr hýðinu og í átt til vorsins, það verður einmitt einhverntímann í vor sem ég mun hugsanlega klára að borga jólavísareikninginn svo það verður aldeilis allt að gerast þá, halda bara niðri í sér andanum í nokkra mánuði og raka saman haframjöli og hrísgrjónum sem hafa dottið bakvið eldavélina og sullast niður í eldhússkápunum, kannski maður endurlesi önnu frank líka svona til að stytta sér stundir

ég svaf mjög mjög lítið í nótt og er ekki fyllilega með sjálfri mér

sunnudagur, 17. janúar 2010

ég er að reyna að telja mér trú um þetta, að þetta sé alls ekki svo slæmt, að þetta verði allt í lagi, það sé bara janúar og á eftir janúar komi febrúar, annað sé það ekki, óþarfi að vera með þessa örvæntingu, jú víst er það rétt að hugsunin er með hægara móti, dálítið eins og hún sé á ferð í gegnum leðju, skynjunin nokkuð skert og það sem er innbyrgt með eyrum, fingrum, augum og öndunarfærum finnur kannski ekki alltaf útgönguleið aftur, meltist illa og nær ekki að leiða af sér nýtt atferli, fullmikið gengið í hringi og ofaní sín eigin spor, tíminn eltir og andar köldu niður bakið, sorgarrendurnar safnast upp undir nöglunum og maður er orðinn votur í fæturna, vasahnífurinn bitlaus og raki kominn í eldspýturnar, ekki laust við að maður finni til þreytu....og hungurs

föstudagur, 15. janúar 2010

sóðakellingin

ég bauð dóttur minni í bíó í vikunni á vampíru og varúlfasápuna new moon, ég skammast mín ekki ögn fyrir að játa að líkt og margar aðrar mæður þessa heims fylgdi ég barninu á myndina af þeim sóðahvötum einum að langa til að slefa yfir poppið mitt í tvo tíma með robert pattison fyrir augunum, ég veit að þetta sæmir varla konu á mínum aldri en jöminn fólk ég verð bara að játa að mér finnst þessi drengur (og drengur er hann) seríöslí töff og myndi ekki hika við að lýsa honum sem mjög alvarlegu tilfelli af "ein stück sjúkt sexy mo-fo", skyldi hann vera fyrir eldri konur.....?

djöfull er annars eitthvað hljótt í ykkur, hvað þarf kona eiginlega að gera til að fá fólk til að kommenta, skrifa um icesave kannski? ekki að ræða það fólk!!!

þriðjudagur, 12. janúar 2010

smíðastelpan leggur á ráðin

nú þegar ég hef hangið heima í tvo daga með magaveikt barn og því haft nægan tíma til að stara á veggi angrar mig tvennt, annars vegar viðbjóðurinn í forstofunni sem á forsögulegu tímaskeiði handan míns minnis var gólfdúkur, hins vegar múrsteinslíkisógeðið sem einhverjum sem hafði ekki fyrir því að hugsa hlutina til enda hugkvæmdist að setja á milli efri og neðri skápanna í eldhúsinu, hvort tveggja hyggst ég fjarlægja og mála í einhverjum hressilegum og geðbætandi lit, hver hann er veit ég ekki en efast ekki um að ég geti leyst það ögrandi verkefni farsællega, aðeins eitt mun reyna að stöðva mig, eiginmaður með hallamál og tommustokk sem er þess fullviss að minnsta viðvik sem ekki er gaumgæfilega tekið út og skipulagt af alheimsbyggingaralmættinu (þ.e. hann sjálfur og faðir hans) sé stórhættulegur gjörningur sem gæti haft hræðileg óafturkræf áhrif á grunnstoðir hússins og leitt af sér stórkostlega skerðingu á raunvirði þess, við skulum nú sjá til með það

sunnudagur, 10. janúar 2010

ég viðurkenni vanmátt minn

mig langar að opna búð, í búðinni minni væri hægt að kaupa blóm, ilmkerti, interior bækur, fjaðrir í hárið, eyrnalokka og tútúpils, í þykjó væri ég rosagóð í bókhaldi og viðskiptavinirnir ættu nægan pening til að versla hjá mér allar fallegu ónauðsynjarnar sem ég hefði til sölu, það væri auðvitað mun skemmtilegra að geta sagt að mig langaði óstjórnlega til að afsala mér öllum mínum jarðnesku eigum og helga mig þróunaraðstoð en eftir að hafa átt mjög náin kynni af sjálfri mér síðustu þrjátíu og fjögur árin get ég fullyrt um að glysgirni og fegurðarsýki eru ótrúlega stöðugir persónuleikaþættir sem bara eldast ekki af manni, ekki frekar en helvítis eyðslutendensarnir

miðvikudagur, 6. janúar 2010

heima með hund

ókei ókei allra síðasta jólamyndin, mér finnst þetta hjól töff þó ég finni almennt ekki til neinna tengsla við hjól frekar en önnur farartæki, mér hugnast best að koma mér milli staða eins og guð upphaflega hugsaði sér, það er fótgangandi, þá gefst manni líka tími til að hugsa, sem væri afbragð ef maður hugsaði einhverntíman eitthvað af viti, sem er sjaldan en hendir þó, andfélagslegu tendensarnir yfirbuguðu mig í kvöld með þeim afleiðingum að ég beilaði á brennu og var úrskurðuð fjölskyldusvikari og lygalaupur af litlu manneskjunni minni sem er yfirleitt frekar afdráttarlaus í skoðunum sínum og lítið fyrir að liggja á þeim, afsakanir mínar um að vesalings hundurinn gæti ekki verið einn heima í þessu sprengjuregni vöktu ekki minnstu samúð þó loðni ræfillinn sæti skjálfandi og mændi útþöndum augum á óhugnaðinn þarna úti, hvar fékk fólk eiginlega peninga fyrir öllum þessum flugeldum spyr ég bara, eiga allir nema ég reikninga á tortóla eða...

þriðjudagur, 5. janúar 2010

dánarfregnir og jarðarfarir

síðasta jólamyndin, ég er að stappa stálinu í sjálfa mig fyrir morgundaginn, ég þoli ekki þrettándann, það er svo hræðilega sorglegt að taka niður jólaskrautið, sérstaklega jólatréð, þegar maður svo fullkomnar afhelgunargjörninginn og hendir trénu út á götu þar sem það bíður ruslabílsins líður manni næstum eins og maður sé að jarða jesúbarnið, kórinn þrumar sálumessuna í myrkrinu á meðan maður dragnast um húsið og gengur frá dánarbúinu, týnir hálfsnöktandi saman engla, snjókorn og köngla sem dingla neðan úr öllum hillum eins og eitthvað sem guð hefur gleymt og á nú hvergi heima, hræðilegt! desember var yndislegur, ég hefði virkilega þurft á tvöföldum desember að halda í ár, en þá auðvitað með tvöfaldri útborgun líka og mjög, mjög mörgum vísatímabilum, í fyrra lagði ég vísakortinu um jólin, á hverju nærðist ég eiginlega? könglum? en þó ég elski jól þá hef ég aftur á móti afar blendnar tilfinningar til áramóta, ekki bara vegna þess að þau minna mann á tímahelvítið og að janúar sé kominn með allan sinn óbærileika heldur er þetta partýdæmi einhvernveginn alveg dauðadæmt frá upphafi og bara ávísun á stemmingu sem er í besta falli undarleg, allir þrútnir af ofáti og búnir að rugla líkamsklukkuna til ólífs og þá ætlar fólk að fara að skemmta sér og vera svakalega villt, ömurleg hugmynd, þetta fer samt fyrst að vera verulega vont þegar maður eignast börn, og þá á ég ekki við þá napurlegu staðreynd að við búum í landi sem heimilar ölvuðum að umgangast flugelda heldur það sem verra er að áramót njóta hvergi jafn sjúklegra vinsælda og meðal unglinga, sem ég nota bene ku eiga aðeins eitt stykki af þó stundum virðist þau margfaldast í tvö, það er eitt að þurfa að kennslukonufrussa eins og fjandinn sjálfur yfir unglingnum um útivistatíma og þann plebbaskap sem fyllerí er en að þurfa í þokkabóta að húðskamma eiginmanninn fyrir að færa plebbaskapinn upp á hærra plan með því að týna tölu á bjórunum og vera ömurleg fyrirmynd er gjörsamlega annar handleggur og algjörlega til að gera mann fokkfúlan og ömurlega óvinsælan eftir því, ég hefði kannski átt að strengja áramótaheit um að vera skemmtilegri 2010 en ég strengi ekki áramótaheit, bæði vegna þess að ég er eðli mínu samkvæmt andsnúin slíkri hóphegðun og svo finnst mér þetta bara barnaskapur, ég er kannski ruglubuska og ringluhaus og allt það en ég er nú ekki svo snargalin að reyna að blekkja sjálfa mig með það að þó að ég sé svo sem kannski ekkert afbrigðilega lygin þá eru allar líkur á því að maður lofi langleiðina uppí ermina á sér komin á fimmta bjór og jafnvel einhver að hella kampavíni í glas í grennd við mann, kommon fólk er raunsæi ekki hin nýja dyggð íslendinga

hvíl í friði 2009
og þú líka litla jesúbarn

sunnudagur, 3. janúar 2010

skál fyrir dásemdinni sem er í vændum

öll þið elskulegu, ég óska ykkur fegurðar og hamingju á nýju ári, megi það færa ykkur mikla ást og fullt af góðu sexi og öllu þessi sem raunverulega skiptir máli í lífinu, ég biðst afsökunar á því að hafa það sem af er nýja árinu verið heimsins versti bloggari og lofa bót og betrun í þeim efnum sem og öðrum, nú skal hrækt í lófa og efna hið leynilega loforð sem ég gaf sjálfri mér á haustmánuðum, en fyrst er að brýna hugrekkið og beisla kvíðaraskanirnar, nú eða bara drekka í sig kjark og kæruleysi, spurning