miðvikudagur, 30. september 2009

vinnan mun gera yður fríska




haustflensa í húsi mínu, einn af þessum föstu punktum í tilverunni sem maður getur reytt sig á, ég er og verð öndunarfæraaumingi og ekkert lífrænt heilsufæði eða regluleg hreyfingu mun fá því breytt, auðveldlega væri hægt að segja að ég sé einfaldlega "exceptionally gifted" þegar það kemur að því að ná sér í umgangspestir sem leggjast á öndunarfæri, ég aftur á móti lít á mig sem fórnarlamb læknamistaka, gamli heimilislæknir fjölskyldunnar vildi aldrei láta taka úr mér hálskirtlana og í seinni tíð hef ég ekki þorað því af ótta við að mér myndi blæða út í kjölfarið, annað eins gerist gott fólk, en óþarfi að hljóma eins og eymdin ein, það má alltaf finna góðan flöt á vondum málum, guði sé til dæmis lof fyrir öll ritunarverkefnin og prófin sem ég hef mér til dægrastyttingar í veikindunum, ég vil ekki til þess hugsa hvað mér myndi leiðast ef þeirra nyti ekki við, maður væri bara alveg ómögulegur, gæti ekki á heilum sér tekið, því ekki færi maður að leggjast í lestur eða kvikmyndagláp, nú eða liggja yfir ljósmyndabloggi og tónlist, nei hjálpi mér almáttugur slíkt lætur maður ekki spyrjast út um sig, eitt er að vera lasin annað að vera iðjuleysingi og ekki setur maður sig viljugur á bás með réttdræpum!!! ó nei, ég drekk grænt te og narta í döðlur og möndlur á meðan ég merki samviskusamlega við stafsetningarvillur og röng svör með hárauðum penna, ég finn saggalyktina leggja í gegnum húðina, klemmugleraugun íþyngja andliti mínu og búrókratíska dragtin herpist um hálsinn svo ég á erfitt með andadrátt, annað veifið verður mér litið út um eldhúsgluggann og langar í göngutúr því mér er það í blóð borið að þrá hið ófáanlega, snýti mér og tek verkjatöflu, hrylli mig við spegilmyndinni og ákveð að sjóða fisk í hádeginu, soðinn fiskur úr íslenskri landhelgi er jafnvel enn meiri líkn í veikindum en búnki af enskuverkefnum barna á efsta stigi grunnskóla, en dveljum ekki lengur við það sem fánýtt er, eins gott að halda sig að verki svo maður deyji nú ekki úr leiðindum

mánudagur, 28. september 2009

litli krúttlegi spilarinn hér til hliðar neitar að hlíða, hann spilar bara það sem honum dettur í hug og hundsar algjörlega lagaröðina á playlistanum mínum, ég bið fólk að afsaka, ég er of þreytt til að taka á málinu, kannski seinna, á morgun

verkefnabúnkinn minn er of stór, mér fallast hendur, finn til vonleysis, fer að sofa

sunnudagur, 27. september 2009

stundum er ég óþolandi

þetta hefur verið dagur mislyndis, ég á það til að vera svo hörmulega mislynd að heimilisfólkinu þykir nóg um, gjöra svo vel að ákveða sig hvort þú ert í vondu skapi eða góðu svo fólk geti gripið til viðeigandi aðgerða og flúið heimilið ef þú ert ekki í standi fyrir tjáskipti önnur en þau að urra, dagurinn byrjaði afar vel, allt hljótt í húsinu enda ég fyrst á fætur og enn nokkuð rökkur úti, ég hnupla peysu af eiginmanninum og skottast fram í eldhús og hita vatn, á meðan ég mala kaffibaunirnar velti ég því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að hlakka svona til að fara á fætur og fá sér morgunnkaffibollann, ég er beinlínis að springa úr spenningi, hlutirnir bestna svo bara og bestna þegar ég toppa sjálfa mig í að strokka mjólkina og þarf að klemma saman varirnar til að halda aftur af gleðihrópinu þegar fullkomin hnausþykk froðan leggst yfir svarbrúnt kaffið, morgunritúöl mín í kringum kaffidrykkju eru í besta falli fáránleg þó ég segi sjálf frá, kaffið verður að vera nýmalað og það skal vera frá kaffitár, hita skal nákvæmlega jafnmikið vatn og á að nota en ef svo illa vill til að það verður of mikið skal því hellt á borðtuskuna, kaffið skal laga í pressukönnu og það á að liggja í allavega fimm mínútur, á meðan skal hita mjólkina, alls ekki of lengi, kaffið vil ég drekka úr skál, einsömul og hafa dagblað sem meðlæti, um helgar má ég drekka tvær skálar, nú en aftur að morgninum í morgun, þetta gekk vel þangað til ég fór að lesa blaðið, ég las umfjöllun um bæði réttir og riff en ég hafði hvorugt farið á og þótti nú afar miður, hjálmar voru víst í sjúku stuði án þess að maður nuddi sér upp úr fleiru sem var víst afar vel heppnað, ég varð hundsvekkt útí sjálfa mig fyrir að láta allt þetta stuð framhjá mér fara, eins og maður megi við því að missa af stuði for kræing át lád!!! til að hrista af mér svekkelsið ákvað ég að hreyfa bæði sjálfa mig og hundinn og fara út að hlaupa í veðurviðbjóðnum sem okkur var boðið uppá í morgun ofaná allt annað (eins og davíð oddson á mogganum sé ekki nóg), eins og iðullega þegar ég hleyp gufaði ergelsið og pirran að mestu upp með svitanum og í þokkabót skreið sólin fram úr skýjunum og ég fann ósköp fagurt haustlauf sem ég hafði með mér heim, til að viðhalda serótónínflæðinu sem skapaðist á hlaupunum ákvað ég að þrífa heimilið því fátt fer eins illa í hina fagurfræðilega sensitívu konu og að hafa ljótt í kringum sig, svo ég þreif, þvoði, loftaði út og marineraði lambalæri af húsmóðurlegu ofstæki, allt gekk vel, svo kom að því að þrífa hergbergi sjö ára barnsins, í stuttu máli sagt getur það gert hvern mann sturlaðan að tína saman barbískó, barbíveski, barbíhatta, hárspennur, púsl, liti, pappírsafklippur, púsl, óheint tau, perlur, púsl, spil...var ég búin að segja púsl, ég sleppti mér algjörlega í tuðinu og lét litlu manneskjuna heyra það óþvegið að svona sóðaskapur væri ekki einu sinni harðgerðustu ræsisrottum samboðinn, gagnrýnin var óvægin og ótæpleg og ég fékk móral, og komst í vont skapi, kvöldverðurinn var svo ánægjulegur enda þarf eitthvað mikið að vera að fólki til að það borði íslenskt lambakjöt með óyndi í sálinni og ygglibrún, sérstaklega þegar heilagt lambið er marinerað í sítrónu, hvítlauk, ferskum kryddjurtum, lauk og sveskjum, núna er ég svo að reyna að ákveða hvort ég eigi að vera hress (barnið sofnaði í sínu rúmi og heimilið er hreinstrokið og ilmandi) eða alveg hundpirruð (ég hef ekki sest niður í allan dag og þar af leiðandi er verkefnabúnkinn sem kom með mér heim úr vinnunni algjörlega ósnertur), eitthvað er það líka að trufla mig að maðurinn, hvers skítugu nærbuxur eru gjarnan á mínu svefnherbergisgólfi, gerir sér aftur á móti ekki rellu yfir nokkrum sköpuðuð hlut þessa stundina, síst af öllu þeirri staðreynd að hann eigi samkvæmt samkomulagi að vaska upp pottana sem ég eldaði matinn í, skrítið

þriðjudagur, 22. september 2009

það er vont að vera reiður

ég eldaði kjötsúpu, maður er þá fær um að gera eitthvað rétt þó lítið sé, mestan hluta dagsins hef ég verið að reyna að telja sjálfri mér trú um að það séu ekki skynsamleg viðbrögð að mölva innanstokksmuni þó sögusagnir hermi að davíð oddson verði næsti ritstjóri moggans, það er skemmst frá því að segja að ég er að verða búin með bjór númer tvö og er ekki fyllilega sannfærð, langar eiginlega ekki að gera neitt nema öskra, málið er að ef af ráðningu davíðs verður er ég í hryllilegri stöðu, ég myndi vitaskuld sjá mig knúna til að segja upp helgaráskriftinni að mogganum, það er augljóst, en tilhugsunin um laugardagsmorgna mínus lesbók er svo sorgleg að ég hef það varla af, ekki það að það sem í lesbókina er ritað sé tóm snilld en það er í það minnsta einhver umfjöllun um allt þetta sem gerir lífið bærilegra, af hverju er maður stöðugt með einhver ömurlega erfið verkefni í höndunum, gaaaaaaaarg!!!!

djöfull er þetta ammælispartý skjás eins geðveikislega plebbalegt

mánudagur, 21. september 2009

búið

um helgina kveikti ég á fyrstu kertum vetrarins, nokkurs konar minningarathöfn til að kveðja ljósið, ég veit að það er alveg að verða búið, við eyddum því öllu í sumar

laugardagur, 19. september 2009

ég er búin að taka ákvörðun

ég ætla ekki að ræða það frekar

sumt þarf maður að æfa oft í huganum áður en maður setur það á blað

fimmtudagur, 17. september 2009

svona í alvöru

er þetta ekki bara spurning um að láta sig hverfa, ef fólki finnst skuldastaða heimilanna ekki nógu deprimerandi svona ein og sér þá hvet ég bara alla til að fara inná mbl og skoða veðurspána fyrir næstu viku, ja eða bara næstu átta mánuði ef maður ætlar sér að verða alveg súisædal, hmmmmm hvað fleira er skrattinn að skemmta sér við þessa dagana...ó já, eitt árið í viðbót er ýmislegt spennandi og skemmtilegt í boði á kvikmyndahátíð reykjavíkur og vissulega á ég ekki krónu til að spandera í þær lífsnauðsynjar, sorglegt

mánudagur, 14. september 2009

mánudagsmótmælandinn


dagalagaþemað heldur áfram, mánudagsmorgnar eru hreint alls ekki það sem fær mig til að tikka en allt varð samt mun bærilegra í morgun þegar ég blastaði þessu í ipoddinum á meðan við hundurinn fengum okkur göngutúr til að ég næði að hrista af mér svefnslenið og hann gæti pissað á alla skapaða hluti sem á vegi okkar urðu, hundurinn minn hlýtur að hafa þvagblöðru á stærð við hagkaupspoka miðað við magnið sem dýrið getur látið frá sér á tuttugu mínútna göngu, það er ekki laust við að ég sé pínulítið öfundsjúk, sjálf er ég yfirleitt algjörlega að míga í mig áður en ég næ að klára úr glasinu sem getur verið hvimleitt þegar manni leifast ekki jafn óheft og fyrirvaralaus þvaglát og hundi í göngutúr, en aftur að mánudögum, mér hefur alltaf þótt það afar miður hversu illa mér lyndir við mánudaga, það getur ekki talist til góðra siða að mismuna dögum svo gróflega eftir því hvar þeir lentu óvart í röðinni þegar mannskepnan fór að smíða sér kerfi til að halda fólki uppteknu (svo dæmið leystist nú ekki uppí eitt allsherjar partý!!!), ég hef því reynt eitt og annað til að bæta umgengni mína við mánudaga og höggva á þennan hnút leiða og ömurlegheita sem einkennir öll okkar samskipti, ég hef til dæmis prófað að hafa pizzu í matinn en ekki soðinn fisk, það var í stuttu máli sagt glatað og tók bara allan prakkaraskapinn úr því að borða pizzu, ég hef líka reynt að hafa mánudagskvöld kósíkvöld með góðri spólu eða bók en það gekk ekki heldur, maður er svo örmagna eftir fyrsta vinnudag vikunnar að maður steinrotast í sófanum áður en maður veit af, ég hugsa að best væri að vera fullur en slíkt gengur ekki fyrir vinnandi fólk, allavega ekki grunnskólakennara, nógu er sú stétt nú úthrópuð fyrir iðjuleysi og endalaus fríðindi þó maður fari ekki að bera í bakkafullan lækinn, nei svo virðist einfaldlega sem dagar séu misvel til þess fallnir að sinna því hlutverki að vera innihaldsríkir og nærandi fyrir manns innra viðkvæma blóm...sem satt best að segja er hálfvisið í dag og verður það sjálfsagt alla mánudaga um ókomna tíð

fimmtudagur, 10. september 2009

miiiistööök

það er vel hugsanlegt, og reyndar nánast öruggt, að síðasti póstur hafi verið sá langleiðinlegasti sem birst hefur á þessu bloggi, ég ætla ekkert að reyna að gera gott úr þessu, þetta var einfaldlega óafsakanlega leiðinleg færsla og reyndar svo stórbrotin í leiðindum sínum að ég fæ það ekki af mér að fjarlægja hana, hún skal standa þarna sem víti til varnaðar og dæmi um það hvernig maður á ekki að blogga, að lýsa draumum sínum er einhver mesti ósiður sem um getur og sömuleiðis hlýtur það að teljast hámark sjálfsánægjunnar að halda að aðrir gætu haft gaman af, ég bið fólk að afsaka og reyna að gleyma þessu, þetta mun ekki endurtaka sig

miðvikudagur, 9. september 2009

í draumi sérhvers manns er fall hans falið (eða eitthvað í þá áttina)

yfirleitt get ég ekki fyrir mitt litla líf munað hvað mig dreymir, síðastliðnar nætur hafa þó verið svo viðburðaríkar og magnþrungnar að mér stendur hreinlega ekki á sama, nóttin sem leið var til að mynda svo spennuhlaðin að ég vaknaði algjörlega örmagna, upptök draumsins má líklega rekja til þess að í gærkveld hlýddi ég á gyrði elíasson lesa á bókmenntahátíð, að því loknu fór ég heim og lagðist til svefns og svo virðist sem gyrðir hafi komið með mér, í draumnum gekk ég um þingholtin í einhverjum óljósum en hversdagslegum erindagjörðum, það var fallegur haustdagur ekki svo ósvipaður gærdeginum, rok og fölnuð lauf á gangstéttunum í gylltri birtu, skyndilega geng ég fram á þykkan pakka sem við fyrstu sýn virtist dæmigerður pakki af pappír líkt og þeir sem ég ríf upp í tuga tali þegar ég ljósrita námsefni í vinnunni, við nánari skoðun sé ég að pakkinn er merktur og virðist hafa verið lagður þarna til að pósturinn tæki hann og kæmi í réttar hendur, ég las utan á pakkann sem var stílaður á útgáfufyrirtæki en merktur eins og jólagjöf, til þín frá gyrði elíassyni, áður en ég vissi af og án þess að hugsa það neitt frekar tek ég merkingunni bókstaflega og ríf pakkann upp og hef þá í höndunum handritið af splunkunýrri skáldsögu ekki ósvipaðri að lengd og "stríð og friður" eftir tolstoy, þetta þótti mér vissulega hreint undur enda er gyrðir líklega þekktastur fyrir ljóð, þegar ég ranka við mér og átta mig á því hvað ég hef gert tek ég á rás með handritið í fanginu og vafra stefnulaust um á meðan rokið ágerist, ég reyni að halda bunkanum saman en rokið rífur í blaðsíðurnar og í ofanálag get ég ekki hætt að gægjast í innihaldið, í gegnum hugann fljúga histerískar og glæpsamlegar hugsanir, hafði einhver séð mig? hvað var ég eiginlega búin að gera!!! gæti ég kannski bara stolið því, haft það útaf fyrir mig og enginn þyrfti að vita neitt, nei guð!!! og vera ábyrg fyrir því að þetta meistaraverk kæmi kannski aldrei út (það var einhvern veginn ekki inní myndinni að gyrðir ætti tölvu með savetakka), ég verð æ móðursjúkari og örvæntingarfyllri og hleyp um með handritið undir kápunni þangað til ég vakna með axlavöðvana samanhnýtta og finnst eins og ég hafi skautað alveg framhjá nokkrum svefnstigum, í þessu tilviki var það þrúgandi andrúmið í draumnum sem gerði það að verkum að mér fannst hreinlega eins og ég hefði eitt nóttinni í líkamleg átök en ekki legið í ástandi sem á að einkennast af ákaflega lágum vöðvatónus, fyrir nokkrum dögum síðan dreymdi mig aftur á móti draum sem reyndi svo á myndræna framsetningu að ég þjáðist af höfuðverk og hugsanasleni allan næsta dag, draumurinn gekk aðallega útá arkitektúr, ég var stödd inní undarlegustu hýbílum sem ýmist voru í eign vina minna eða voru partur af alveg splunkunýjum miðbæ reykjavíkur sem var orðinn svona í stærra lagi, byggður upp af nítjándualdar húsum frá miðevrópu og auglýsingarskiltum frá new york, þetta er hugsanlega lengsti draumur sem mig hefur dreymt og ég ætla ekki að lýsa honum í smáatriðum en ég var til dæmis á einhverjum punkti stödd inní risavöxnu herbergi byggðu úr legokubbum (ég hef aldrei komið í legoland), þar var óþægilega hátt til lofts og einhversstaðar lengst uppí rjáfri sat dóttir mín og virtist vera að vakna af svefni, hún sagðist vera þyrst og ég lagði af stað upp nærri lóðréttan stiga með barmafulla könnu af ávaxtasafa, skondnasti hluti draumsins var svo lokasenan, ég geng niður hinn nýja laugarveg sveipuð handklæði og með annað vafið eins og túrban um hárið, þetta var hið eðlilegasta og enginn að kippa sér upp við útganginn á mér þó úti væri vetur og nokkur kuldi, það er einhver eftirvænting í loftinu sem skýrist þegar ég kem niður á lækjartorg, þar er risavaxið auglýsingaskilti sem þekur nánast allt svæðið sem brann hér um árið, á skiltinu rúllar sama myndskeiðið aftur og aftur, jónsi í sigurrós er í mynd frá mitti og upp klæddur grænum ullarjakka með rústrauðan sixpensara, eins og iðulega þegar maður sér jónsa í mynd finnst manni eins og þar fari einhver frá öðrum tíma en þeim sem við lifum á, hann er greinilega staddur í kulda og gufustrókinn leggur út úr honum, annað veifið stingur hann hendinni í vasann og tekur upp dökkbleika kúlu sem líkist helst ískrapi, hann horfir í myndavélina og stingur kúlunni uppí sig og tyggur, í því rúllar texti efst á skjánum: sigurrósar lúða - kynning á lækjarbrekku í kvöld*, þarna veit ég skyndilega að ég er einmitt á leiðinni á lækjarbrekku til að taka þátt í þessum tímamótaviðburði í íslenskri matseld, það er fyrst þegar ég kem inná lækjarbrekku og stend þar innan um gasalega merkilegt fólk að ég fer að velta því fyrir mér hvort ég sé kannski ekki klædd í takt við aðstæður...bömmer



*ég var nýbúinn að horfa á popppunkt þar sem meðlimir sigurrósar töpuðu fyrir ljótu hálfvitunum (ljótu hálfvitarnir!!!) og ég held að flestir kannist við að sigurrósarmenn geti verið dálitlir lúðar þó sætir séu

sunnudagur, 6. september 2009

sá lærir sem verslar...ekki

morgunverður sigurvegaranna...og þar af leiðandi ekki á mínu morgunverðarborði, þar er aftur á móti minn trausti ofvaxni kaffibolli og nýjasta eintakið af livingetc sem ég stalst til að kaupa mér í gær, að öðru leyti sýndi ég fádæma viljastyrk í bókabúðinni og keypti ekkert af bókum höfunda á bókmenntahátíð þó mig hafi blóðlangað í nokkrar, þar ber fyrst að nefna "me talk pretty one day" eftir david sedaris, ég ætla að sjá upplesturinn hans og hvet alla til að gera það sama, maðurinn fer víst á kostum, annars gengur mér ótrúlega illa að lesa zadie smith, og enn verr að halda við jón kalman, dett alltaf útaf eftir þrjár fjórar síður, vakna svo með bókina í andlitinu og man ekkert hvar ég var, svona fer fyrir þeim sem eyða mestum tíma sínum í asnalega hluti eins og að vinna fyrir sér, ég bind samt vonir við að efnahagsástandið kenni mér að skilja hugtök sem hingað til hafa verið dáldið á huldu, ég er ofsalegur hands on learner og skil hluti jafnan best þegar ég tek á þeim, það sýndi sig í gær þegar ég kom við í kron bara rétt svona til að örva fegurðarskynið og dást að því hvað fólk getur verið hugmyndaríkt, allt í einu varð hugtakið rýrnandi kaupmáttur alveg ofsalega nærtækt og borðleggjandi, hafi í huga mér fundist vottur af efa um upptöku evrunnar þá hvarf hann þarna með öllu, vinsamlegast koma með þessa evru...mikið af henni

föstudagur, 4. september 2009

epísk sannindi

ég fór bíó áðan að sjá "the september issue" heimildarmynd um önnu wintour ritstjóra bandaríska vogue, ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig hægt sé að vera jafn óhagganlega viss á sinni sök eins og þessi kona er þegar kemur að því að ákveða hvernig bókstaflega allir hlutir eigi að vera, ég gæfi eitt og annað fyrir svona staðfestu en ég er hrædd um að það sé nú einhversstaðar meitlað með eldingu í marmara að sú sem þetta skrifar sé æðstivitleysingur í framtíðarsýn, vanviti í heimilisbókhaldi og "an organizationally challanged person", trúið mér þetta er bara spurning um að fornleifafræðingar nenni að grafa nógu djúpt einhverstaðar þarna í fyrrum mesópótamíu eða hvar það er sem aldingarðurinn á að hafa verið, þetta dúkkar upp fyrir rest, vitiði bara til

fimmtudagur, 3. september 2009

óbærilegur hversdagsleiki tilverunnar (eða hugleiðing um borðbúnað)

alveg gæti ég hugsað mér að pressa blóm í frístundum, en það er nú svo margt sem maður gæti hugsað sér, eins gott að byrja ekki að þylja það upp nema maður sé viss um að enginn sé að flýta sér og allir búnir að fínstilla langlundargeðið, samt verð ég að minnast á að mig langar ósegjanlega til að lækna barnið mitt af myrkfælninni svo ég geti sofnað við hliðina á manninum mínum, two´s a party three´s a crowd er lögmál sem einna best raungerist í hjónarúminu, við óttumst í alvöru talað að hún verði þarna á milli okkar þar til einhver annar býðst til að taka við henni, pabbi hennar hefur ákveðið að það skuli vera kona, dætur okkar voru mjög litlar þegar þær lærðu hjá pabba sínum að þær gætu valið á milli þess að vera lesbíur eða nunnur en annað væri ekki í boði frá hans bæjardyrum séð, þetta hefur ekki skilað sér sem skyldi, í það minnst er skrínseiverinn hjá unglingnum hvorki mynd af kristi né jodie foster svo ekki sé meira sagt, annars er lífið ágætt þrátt fyrir að vinnustaðurinn bjóði eftir sem áður uppá hávaða sem er langt yfir heilbrigðismörkum, ég byrjaði vikuna á að vera skíthæll og sveikst undan því að sulta með elskulegri systur minni eitt árið í viðbót, hún nuddar inn samviskubitinu með því að gefa mér nokkrar krukkur sem nýtast vel þegar fjölskyldan gerir nunnuristað brauð, ég hef aldrei efast um það að systir mín deili stjörnukorti og fingraförum með móður teresu og martin luther king, ég skammast mín og þarf að fara með faðirvorið til að geta kyngt sultunni án þess að svelgjast á, ég reyni að telja mér það til tekna að hafa staðið mig betur sem dóttir því í dag pússaði ég silfrið hennar mömmu minnar, einhvern veginn finnst mér eins og mamma mín hljóti þá að vera mjög mjög gömul en það er samt alls ekki svoleiðis, það bara á enginn silfur lengur, allir komnir í þetta viðhaldsfría skurðstofustál sem mér finnst ekki hálft eins sjarmerandi og eiginlega bara frekar sjúklegt, vill maður eiga borðbúnað hannaðan af nasa??? nei maður bara spyr sig, hljómar einhvern veginn ekki heimilislega, sjálf á ég bara eitthvað ikeadrasl, sjálfsagt úr brotajárni en brúkast ágætlega, ó jú og svo á ég nokkra svona nasagafla...sem mamma mín gaf mér, það er á fátt treystandi nú á tímum