þriðjudagur, 30. júní 2009

"mig hefur alltaf langað til að búa í vita" sagði systir mín þar sem stóðum á strönd snæfellsness með lóndranga á vinstri hönd og eyðilegan vita á þá hægri, ég melti þessa hugmynd eitt augnablik og sá strax að hún var afbragð, að vera vitavörður er svo sannarlega viðeigandi starfsvettvangur fyrir fólk eins og mig sem mælist með einn í extróvert, því miður er víst svo gott sem búið að leggja starf vitavarðarins af...heimur versnandi fer   

föstudagur, 26. júní 2009

eftir örfáa tíma verður lagt af stað í road trip ala thelma and louise, destination stykkishólmur og búið að bóka dívan á ból og bita, ég ætla að spila djarft og skelli mér í þverröndótta kjólinn sem ekki hefur verið brúkaður áður sökum efasemda um að þverröndótt + rass skori mörg töff, en hér er ekkert rúm fyrir kjarkleysi enda ferðinni heitið á landsþing kvenfélaga, bring it on girls bring it on!!!

fimmtudagur, 25. júní 2009

þetta hljómar geðveikislega en ég er næstum því fegin að það dró ský fyrir sólu, einfaldlega vegna þess að ég verð að fara að komast í það að taka til í skápunum svo ég losni við þessa tilfinningu að allt, þar með talið ég, sé alveg hryllilega sjúskað og sjoppulegt, ég er sannfærð um að það sé nákvæmlega þessi tilfinning sem reki fólk í endaþarmsskolun til póllands, svo ef maður ætlar ekki að enda einhversstaðar með slöngu uppí bossanum er eins gott að hætta að tana sig á pallinum og drulla sér í að gera eitthvað af viti, ég er líka alveg glötuð í sólbaðstækni, gleymdi mér alltof lengi á annarri hliðinni í gær og líkist ótæplega homeblestkexi, verð að reyna að klæða þetta einhvern veginn af mér í alvöru þetta er fáránlegt

mánudagur, 22. júní 2009

að mála eldhús eða mála ekki eldhús



eða öllu heldur að mála eldhús eða finna leið til að lifa með óbærilegum ljótleika eldhúss í óbreyttri mynd, nú ef maður málar eldhús málar maður þá eldhús hvítt (sýnidæmi a hér fyrir ofan) eða málar maður eldhús blátt (sýnidæmi b hér fyrir neðan)

nema maður taki þetta alla leið og máli það bleikt (ekkert sýnidæmi þar sem ekki fundust neinar myndir af fallegum bleikum eldhúsum...hmmmm segir kannski sína sögu...), annað sem kvelur hinn fagurfræðilega sensitíva húseiganda er andyri heimilisins sem er skulum við segja ja minna en fallegt, eiginlega bara alveg merkilega ljótt, og hver vill opna útidyrahurðina heima hjá sér og ganga beint í fangið á ljótu andyri (undarlegt orð annars andyri...eru kannski tvö d and-dyri...nei and-skotinn), það verkefni fær þó að bíða þar til eiginmaðurinn og unglingurinn hafa náð að tileinka sér þá margslungnu færni sem notkun skóhillu krefst, þó ég hafi ýtrekað bent á að skór á víð og dreif um andyri (höfum það bara með einu d) séu ekki bara draslaralegur subbuskapur heldur líka stórkostlega varhugaverðar slysagildrur á heimilum og þó ég hafi boðið upp á þrepaskipta sýnikennslu í því hvernig skóm er komið fyrir í þar til gerðri skóhillu þá verður að segjast eins og er að árangurinn er... ja allavega ekki merkjanlegur, en eitt í einu og mál málanna er litur á eldhúsi, besta að vaxa sig undir höndunum á meðan maður meltir þetta, ekki vill maður gera sig sekan um iðjuleysi hjálpi mér guð! 

sunnudagur, 21. júní 2009

ég er önnum kafinn við að slátra risunum tveim sem hafa íþyngt náttborðinu mínu frá því fyrir jól, kláraði loks miðnæturbörnin hans salman og er komin á bólakaf í mandarínurnar hennar simone, frábær bók með hrikalega vel skrifuðum karakterum og þankavekjandi samtölum, tók mér reyndar pásu frá þeim þungaviktarparinu í nokkra daga og hámaði í mig léttmetið fridu, fíneríis lesning og skemmtilegt sjónarhorn á þá goðsagnakenndu konu þó höfundurinn geri sig seka um að klifa dálítið og festist í nokkuð einsleitu málfari, þær sakir er ekki hægt að bera á þau salman og simone, drottinn minn dýri hvílík tök á tungumálinu!!! 

annars er ég að lesa svo komdu seinna

föstudagur, 19. júní 2009

hrikalegir töffarar hafa þessar kellur verið, til hamingju með daginn konur!!!

miðvikudagur, 17. júní 2009

að fagna þjóðhátíðardegi er erfið íþrótt, sjálfsagt gæti þetta verið hin besta skemmtun ef það væri ekki fyrir allt þetta fólk, að mjaka sér í gegnum heilt úthaf af fólki er aldrei neinn unaður en sé maður ofan á allt keyrandi barnavagn sem flaggar óstýrlátri blöðru er þetta rosalega stressandi, maður er alveg á nálum yfir því að klessa á hásinina á einhverjum samferðarmanninum en slíkt er reyndar nánast óhjákvæmilegt þegar blöðruhelvítið slæst stöðugt í andlitið á manni og flækist í þokkabót í öllu sem framhjá manni fer, hreinasta heppni að hafa ekki hreinlega hengt einhverja hælapæjuna í hljómskólagarðinum, þegar við bætist ískalt íslenskt rok, biðraðir svo langar að það eitt að horfa á þær er örmagnandi og hoppukastalar sem gætt er af mönnum með skeiðklukkur og vont hjartalag fer maður í alvörunni að velta fyrir sér hver geti eiginlega haft gaman af þessu, hugsanlega þó fasíski hoppukastalavörðurinn, mikið svakalega er gas annars orðin mikil munaðarvara og verðlögð eftir því, ég er ennþá hálfbláleit í framan eftir að hafa gjörsamlega misst andann þegar eiginmaðurinn borgaði 1500 krónur fyrir eitt stykki gasblöðu, öllum lögum samkvæmt slapp þessi sama blaðra svo úr hendi dóttur minnar 10 mínútum síðar og sveif uppí himinhvolfið til fundar við hello kitty, fjólubláa höfrunga og annað massasmart lið enda heilt blöðrupartý þarna uppi, mér taldist til að samanlagt verðmæti tapaðra gasblaðra í dag slagaði langt uppí icesaveskuldina, mér var það eitt til huggunar að þetta var bratzdúkkublaðra, bratzdúkkur eru viðbjóður, dóttirin átti ekki eins auðvelt með að sjá ljósan punkt í þessu hörmungarslysi enda var þetta önnur blaðran sem hljópst á brott á sama klukkutímanum, sú fyrri var reyndar fríkeypis og merkt einhverju andskotans símafyrirtæki svo hjartalaus móðirin syrgði hana ekki mikið en fékk þess í stað húrrandi umhverfismóral, tjah eftir þessa dásemdar röð af litlum en engu að síður deprimerandi katastrófum getur maður eiginlega ekki sagt neitt nema...guði sé lof fyrir handboltalandsliðið!!!

en sumsé gleðilegan þjóðhátíðardag, pís

fimmtudagur, 11. júní 2009

los töffaros ultimos heldur mér félagsskap á með da husband er í vinnunni...yndislegur
 
kvikmyndatónlistarþemað heldur áfram hér á síðunni, ég horfði að minnsta kosti milljón sinnum á mo´better blues sumarið eftir annann bekk í menntó, ég þurfti að leita að soundtrackinu úr myndinni um hálfa evrópu áður en ég fann það loks í plötubúð í þýskalandi á nice price og fannst það of gott til að vera satt, það var það líka því nokkrum árum seinna var þessum forláta disk stolið af mér af gömlum kærasta sem kunni ekki einu sinni almennilega að meta jazz, ég hugsa stundum ennþá um að senda rukkara á mannhelvítið 
mig hryllir við fréttinni á forsíðu fréttablaðsins, nei ekki þessari um að það sé allt í pati í rassagati hvað varðar rannsókn bankahrunsins, ég er alveg orðin ónæm fyrir þessum efnahagslegu stórslysafréttum, mér finnst öllu agalegra að lesa um að hugsanlega hverfi mál og menning úr húsnæði sínu við laugarveg vegna þess að peningapúkunum sem eiga húsið finnst að íslenska ríkið eigi að borga hærri leigu en fyrri eigendur, ég er að reyna að sjá eitthvert röklegt samhengi í þessu en bara tekst það ekki, ræðst leiguverð fasteigna af því hver leigir??? í alvöru talað það stendur ekki steinn yfir steini í þessu samfélagi 

miðvikudagur, 10. júní 2009

fyrsti dagur í fríi og ég er í svo góðu skapi að það er asnalegt, það er bara eitthvað svo ótrúlega hvetjandi að vita að maður er að fara að takast á við það verkefni sem maður er fæddur til að sinna, ég er ógeðslega góð í að vera í fríi, algjört ubertalent, ég veit að íslendingum finnst ekkert eins ógeðslega smart og að vinna út í eitt og því meira sem þú vinnur því oftar segir fólk þér hvað þú sért hrikalega duglegur og mikil hetja osfrv, þess á milli er svo þvaðrað um mikilvægi þess að sinna börnunum sínum og setja fjölskylduna í forgang og hlúa að því sem er manni kært og blablabla, ég man ekki til þess að hafa heyrt fólk kallað dugnaðarforka og hetjur fyrir að vinna sem minnst til að geta verið heima hjá börnunum sínum, slíkt þykir meiri svona dútllúxus, ég hef mikið reynt að skilja fólk sem veit ekki hvað það á við sig að gera þegar það þarf ekki að mæta í vinnuna (dæmi a sefur í rúminu mínu) en mér tekst það bara engan veginn, hvað er fólk eiginlega að meina þegar það segist verða alveg örvilnað af iðjuleysi þegar það hefur frjálsan tíma, framkvæmdaorkan mín er alveg á yfirsnúning þegar ég er laus við þetta vinnuskrímsli sem étur upp allt manns líf, og iðjuleysi...sæll þessi kona þekkir það fyrirbæri nú ekki nema af afspurn!!! 

fimmtudagur, 4. júní 2009

springum út...

miðvikudagur, 3. júní 2009

milljónasta árið í röð sem ég sver og sárt við legg að setja niður sumarblóm og af því ég er nú einu sinni ég er þetta líka milljónasta árið í röð sem ég klikka á því, af einhverjum ástæðum hoppuðu grænir fingur akkúrat yfir minn ættlið en fingrafimi í garðrækt og ofurnæmi á allt sem grær er annars mikið treidmark í ætt móður minnar sem státar af margar kynslóða arfleifð í grasalækningum og guð má vita hvað, ég hef engu að síður arfa lítið sjálfstraust í umgengni við blóm (sjálfsagt vegna þess að ég hef drepið þau svo mörg) þó þau veiti mér ómældan unað og gleði, ég verð alveg dreymin til augnanna þegar ég hugsa um hversu guðdómlegt það yrði að drekka morgunkaffið á pallinum umkringd stórum pottum af sumarblómum, helst djúpfjólubláum og gulum stjúpum, væri ég persóna í disneymynd gæti ég byrjað daginn á að blístra á vini mína fuglana og mýsnar og þeir myndu vefa mér kjól úr djúpfjólubláum og gulum stjúpum, en ég verð víst að láta mér nægja að henda mér í lillabláa náttkjólinn frá victoria´s secret og reyna að sjá eitthvað fagurfræðilegt við gasgrillið og riðgaða rólu...óréttlæti heimsins er svo sannarlega takmarkalaust! 

þriðjudagur, 2. júní 2009

í laugardalshöll var boðið uppá einfaldan sannleika, ég er sökker fyrir einföldum sannleika...enda einstaklega einföld kona
kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður

kærleikurinn öfundar ekki

kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp

hann hegðar sér ekki ósæmilega, leita ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn

hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum

hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt

kærleikurinn fellur aldrei úr gildi